29.04.1957
Neðri deild: 88. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

87. mál, fasteignaskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Í nál. fjhn. er þess getið, að ég hafi ekki tekið afstöðu til málsins, þegar það var afgreitt. Ég vil nú af þessu tilefni taka fram, að miðað við þá gagnrýni, sem fram hefur komið á þessu frv. frá ýmsum þm., sem eru fulltrúar sveitanna, bæði við fyrri umr. og svo nú, teldi ég ekki ástæðu til að leggja mikla áherzlu á, að þetta frv. næði fram að ganga að þessu sinni. Það er bæði, eins og hv. þm. A-Húnv. sagði, að til þess liggja nú ekki knýjandi ástæður, og fyrir utan þau sjónarmið, sem hann og aðrir hafa hreyft, tel ég, að það væri skynsamlegra, ef breytingar ætti að gera í þessum efnum, að taka þá málið víðtækara og samræma þau lagaákvæði, sem eru um fasteignaskatta eða lóðagjöld, því að um það eru nokkur fleiri ákvæði, varðandi tekjuheimildir sveitarfélaga og bæjarfélaga af fasteignum og lóðum. Og mér sýnist, ef þessar breytingar eru gerðar á þessu, þá haldi það áfram að vera nokkuð sundurleitt og mætti samrýma þá löggjöf betur. Ég er ekki reiðubúinn á þessu stigi málsins að rökstyðja nánar skoðun mína í þessu efni, en ég held, að hv. þingmönnum sé ljóst, og það var rætt innan fjhn., að annars vegar hafa bæjarfélögin og sveitarfélögin sín fasteignagjöld eftir sérstökum lögum og hins vegar var ekki alls fyrir löngu breytt því ákvæði, að sá fasteignaskattur, sem hér er verið að innheimta og rann áður til ríkisins, rennur til sveitar- og bæjarfélaganna, og eru þannig eiginlega á tvennan hátt innheimt og að vissu leyti dálítið annarlega þessi gjöld til sveitarfélaganna. Mér finnst þess vegna, að það séu bæði formleg og efnisleg sjónarmið, sem liggi til þess, að ástæða væri til þess, að þetta mál væri nánar athugað, áður en Alþ. endanlega afgreiddi það af sinni hálfu, og teldi þess vegna langeðlilegast og skynsamlegast, að þessu máli yrði nú frestað að sinni á þessu þingi eða færi ekki lengra.