27.05.1957
Sameinað þing: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

Varamenn taka þingsæti

forseti (GJóh):

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég leyfa mér að lesa hér upp svar í sambandi við fsp., sem hv. 1. þm. Reykv. beindi hér til mín á síðasta fundi sameinaðs Alþingis:

Á síðasta fundi í Sþ. beindi hv. 1. þm. Reykv. þeirri fsp. til mín, hvers vegna dr. Gunnlaugur Þórðarson hefði horfið af þingi, en ekki Bragi Sigurjónsson, er utanrrh. kom aftur til þings. Ég hef átt tal við formann kjörbréfanefndar, og segir hann, að nefndin hafi ekki fjallað um það, hve lengi varamenn skuli sitja á Alþingi, enda ekki tilefni til þess samkv. 4. gr. þingskapa; hins vegar hafi hún, eins og kunnugt er, á sínum tíma haft til meðferðar kjörbréf Gunnlaugs Þórðarsonar og Braga Sigurjónssonar og gert till. til Alþingis um afgreiðslu þeirra. Þá hef ég rætt málið við skrifstofustjóra Alþingis, og er svar mitt þannig:

Dr. Gunnlaugur Þórðarson var kvaddur til þingsetu í forföllum utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, 7. landsk. þm., 29. f.m. Er Pétur Pétursson, 10. landsk. þm., forfallaðist, var Bragi Sigurjónsson ritstjóri kvaddur til þingsetu í hans stað. Kom hann til þings 6. þ.m. Kjörbréf beggja þessara varamanna voru samþykkt samhljóða. Það er því ágreiningslaust, að þeir hafa báðir löglega tekið sæti á Alþingi, enda var hér farið eftir ákvæðum 144. gr. kosningalaga um það, í hvaða röð varamenn tækju sæti í forföllum aðalmanna. Dr. Gunnlaugur Þórðarson er 1. varamaður landskjörinna þm. Alþfl., enda var fyrst til hans leitað. Bragi Sigurjónsson er 2. varamaður landskjörinna þm. Alþfl. Til hans var leitað vegna þess, að dr. Gunnlaugur Þórðarson hafði þá þegar tekið sæti á Alþingi.

Hvenær á varamaður, sem löglega hefur tekið sæti á þingi, að hverfa þaðan aftur. Um það verður einnig að fara eftir ákvæðum 144. gr. kosningalaganna og venjum um framkvæmd þeirra. Þar segir:

„Ef þm. í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, eða landskjörinn þm. forfallast sökum veikinda eða annars, á hann rétt á að láta varamann taka sæti á meðan, en tilkynna skal hann forseta þeirrar deildar, er hann á sæti í, eða forseta sameinaðs Alþingis, ef Alþingi hefur ekki skipt sér í deildir, í hverju forföllin eru fólgin og hversu lengi þau munu vara. Ef varamaður tekur þingsæti í forföllum þm., skal hann ekkí sitja skemur en tvær vikur, nema Alþingi hafi verið rofið eða því slitið eða frestað áður.“

Hér virðist gert ráð fyrir, að hverju sinni sem þm. forfallast komi aðeins einn varamaður í hans stað. Hver sá varamaður er, fer eftir þeim reglum, sem áður er getið um. Ef varamaður getur af einhverjum ástæðum ekki tekið við sætinu, á hann að leita til næsta varamanns. Varamaður virðist því eiga að sitja, þar til aðalmaðurinn kemur aftur til þings og þó aldrei skemur en tvær vikur, nema þing sé rofið, því slitið eða frestað áður.

Dr. Gunnlaugur Þórðarson vék hér af þingi vegna þess, að aðalmaður, utanrrh. Guðmundur Í. Guðmundsson, 7. landsk. þm., kom aftur til þings. Pétur Pétursson, 10. landsk. þm., sem Bragi Sigurjónsson situr á þingi fyrir, er hins vegar enn ókominn til þings aftur.

Í Réttarsögu Alþingis eftir Einar Arnórsson segir á bls. 643:

„Þingsetutími varamanna fer eftir því, hvers vegna sæti aðalmanna hefur orðið autt. Ef hann deyr, missir kjörgengi eða segir af sér þingmennsku, þá situr varamaður á Alþ. það sem eftir er kjörtímabilsins, en ef aðalþm. forfallast vegna veikinda eða annars, getur hann látið varamann sinn taka sæti, meðan forföll standa, og aldrei skemur en 2 vikur, nema Alþ. verði rofið áður, því er slitið eða frestað.“

Ég skal geta fordæmis, sem styður þennan skilning kosningalaganna. 2. des. 1949 tilkynnti Hannibal Valdimarsson, að hann mundi ekki geta setið á þingi um skeið vegna embættisanna heima fyrir. 1. varamaður, Guðmundur Í. Guðmundsson, tilkynnti, að hann mundi ekki geta tekið sæti Hannibals á þingi fram að næstu áramótum. Annar varamaður, Erlendur Þorsteinsson, var þá kvaddur til þingsetu. 10. jan. 1950 tilkynnti hann forföll, og tók þá 1. varamaður sæti á þingi. Þarna er dæmi um, að ekki var talið fært að skipta um þm. nema að undangenginni tilkynningu um forföll.

Þess skal að lokum getið, að er Guðmundur Í. Guðmundsson kom aftur til þings 18. þ.m., hafði Bragi Sigurjónsson aðeins setið á þingi í 12 daga.

Til viðbótar við þessa yfirlýsingu hefur mér borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 24. maí 1957. Að gefnu tilefni skal það tekið fram, að það var að eigin ósk, að ég vék af þingi, en ekki Bragi Sigurjónsson, er herra Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra tók þar aftur sæti sitt þann 18. þ.m., enda tel ég, að svo hafi átt að vera samkvæmt kosningalögum og venjum.

Virðingarfyllst,

Gunnlaugur Þórðarson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Ég tel því, að ég hafi svarað áður gerðri fyrirspurn.