06.11.1956
Efri deild: 10. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

38. mál, selja Kópavogskaupstað land jarðanna Kópavogs og Digraness

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt ásamt þremur hv. þdm., er flutt skv. eindreginni ósk bæjarstjórnar í Kópavogskaupstað. Innan bæjarstjórnarinnar og ég held að ég megi fullyrða meðal bæjarbúa almennt hefur enginn ágreiningur verið um það, að æskilegast sé og raunar nauðsynlegt, eins og nú er komið, að landið, sem Kópavogskaupstaður stendur á og byggðin í Kópavogskaupstað stendur á fyrst og fremst, komist í eign bæjarfélagsins sjálfs.

Ég hef ástæðu til að fagna því, að svo hefur líka tekizt til, að flutningsmenn þessa frv. eru úr öllum þingflokkum hér í þessari hv. deild, svo að ég tei ekki líkindi til þess, að þetta mál þurfi að verða pólitískt ágreiningsmál.

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki afgreiðslu, þó ekki af þeirri ástæðu, að ágreiningur væri um það í þeirri hv. þingnefnd, sem fékk það til meðferðar, hv. landbn., heldur var ástæðan sú, að sú stjórnardeild, sem fer með jarðeignamál ríkissjóðs öll, skilaði ekki umsögn um frv., svo að það þótti ekki fært að afgreiða það frá nefndinni.

Ég tel mig nú hafa ástæðu til að vona, að afgreiðsla málsins þessu sinni þurfi ekki að stranda á því, að ekki berist umsögn frá n., sem þessi mál heyra undir.

Það kemur fram í grg. þessa frv., að það er ekkert nýmæli hér á hv. Alþ., að sveitarfélög óski eftir því að fá eignarréttinn á landi, sem áður hefur verið í eign ríkissjóðs. Fjölmörg frv. sams konar og þetta hafa áður verið samþykkt hér á hv. Alþ. og þá jafnan, að ég hygg, ágreiningslítið eða alveg ágreiningslaust. Þetta frv. er í fyllsta samræmi við þau lög, sem áður hafa verið afgreidd frá hv. Alþ. að beiðni ýmissa sveitarfélaga um þetta efni.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að samkomulags verði leitað um söluverð þess lands, sem með frv. er farið fram á að selt verði Kópavogskaupstað. Það land er engan veginn allt land þeirra tveggja jarða, sem þarna hafa verið, heldur eru þar undanskilin lönd nýbýla, sem þar hafa verið stofnuð, og enn fremur land, sem búi ríkisins í Kópavogi, sem er haldið uppi vegna ríkishælanna þar, er nauðsynlegt til búrekstrarins.

Það er ekki um neinar landsnytjar í venjulegum skilningi að ræða af þessu landi. Þvert á móti, þetta er eitthvert hrjóstrugasta og óræktanlegasta land, sem til er í öllu nágrenni Reykjavíkur. En samt getur það verið, að menn hafi mjög mismunandi hugmyndir um verðmæti þessa lands.

Ég hygg, að það hafi alltaf farið svo, þegar sölur hafa farið fram á landi í eign ríkisins til sveitarfélaga, að þá hafi orðið samkomulag milli seljanda og kaupanda um söluverð landsins eða landanna. Og ég vil vona, að það verði svo einnig í þessu tilfelli. En því er ekki að neita, að í sambandi við hugleiðingar um það, hvert verðmæti þessa lands sé, þá er komið nærri vandamáli, sem er allsherjar vandamál í okkar þjóðfélagi og hefur ekki verið leyst til þessa með löggjöf, en það er það vandamál, hverjir eigi verðhækkun, sem verður á landi, þó ekki fyrir tilverknað eiganda eða umráðanda lands, heldur fyrir framkvæmdir og aðgerðir samfélagsins, hins opinbera, ríkis eða bæjarfélaga. Ég ætla ekki að fara út í þetta vandamál hér að þessu sinni. En ég vil vænta þess, að af hálfu ríkissjóðs verði fullri sanngirni að mæta, þegar rætt verður um það, hvaða verð Kópavogskaupstað ber að greiða fyrir þetta land. En mér hefur virzt, að ríkissjóður hafi jafnan í sambærilegum málum sýnt mikla sanngirni í skiptum sínum við sveitarfélög, þegar um þetta hefur verið að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni. Ég vil leyfa mér að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni visað til 2. umr. og hv. landbn., því að landbn., a.m.k. hér í þessari hv. d., hefur jafnan fengið til meðferðar öll frv., sem snerta jarðeignir ríkisins og sölu lands ríkisins yfirleitt, hvernig sem annars hefur á staðið um það, hvort það hafa verið heilar jarðir eða landshlutar.