30.11.1956
Efri deild: 21. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

67. mál, tunnuverksmiðjur ríkisins

Björgvin Jónsson; Herra forseti. Ég og hv. 1. þm. N-M. höfum leyft okkur að bera fram brtt. við frv. þetta. Brtt. okkar eru á þskj. 95 og eru við 1., 4. og 5. gr. frv. Þær hníga allar í þá átt, að ríkisstj. verði falið að koma á fót tunnuverksmiðju á Austurlandi, jafnframt því sem starfræktar séu tunnuverksmiðjur á Akureyri og Siglufirði.

Síldarsöltun er á seinni árum orðin þýðingarmikill atvinnurekstur víða í kauptúnum og bæjum á Austurlandi, og með vaxandi fjárfestingu í síldarverksmiðjum, sem fyrirsjáanlega er að verða þar á næstu árum, má búast við, að atvinnurekstur þessi færist mjög í vöxt. Það hefur á undanförnum árum staðið síldarsöltun á Austfjörðum nokkuð mikið fyrir þrifum, að þar hefur verið sífelldur tunnuskortur. Síldarsöltunin á s.l. sumri í bæjunum frá Vopnafirði til Eskifjarðar nemur einhvers staðar á milli 20 og 30 þús. síldartunnum, þannig að hér er orðið um nokkuð mikið magn að ræða.

Bæirnir á Austurlandi búa við sama vandann og bæirnir á Norðurlandi. Það er stöðugt árstíðabundið atvinnuleysi, sem er mest að vetrinum. Það hefur að undanförnu verið mikil krafa almennings á þessum stöðum, að komið verði upp tunnuverksmiðju í fjórðungnum, og hefur fjórðungsþing Austfirðinga haft forgöngu um það mál.

Þessi till. er borin fram eftir óskum að austan, og vona ég, að hv. d. sjái sér fært að samþ. brtt. og frv. í heild.