17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

67. mál, tunnuverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. það um tunnuverksmiðjur ríkisins, sem hér liggur fyrir til umr., er, eins og hv. þm. mun kunnugt, flutt í Ed. af þm. Friðjóni Skarphéðinssyni, Birni Jónssyni og Bernharð Stefánssyni og hefur nú fengið þar fullnaðarafgreiðslu óbreytt frá fyrstu gerð að öðru leyti en því, að inn í það var bætt einni gr., 5. gr. eins og frv. liggur nú fyrir, þ.e. heimild til handa ríkisstj. að reisa og reka þriðju tunnuverksmiðjuna á Norðausturlandi, ef aðstæður þykja til að mati ríkisstj.

Lög þau, er nú gilda um tunnuverksmiðjur ríkisins, voru sett 1946 og síðan breytt lítils háttar 1947. Þau voru heimildarlög, er sniðin voru við byrjunarframkvæmdir. En þar sem nú er fengin 10 ára reynsla á rekstri tunnuverksmiðjanna, er augljóst, að ýmsu þarf að breyta í betra horf, og er umrætt frv. flutt til að auðvelda og flýta fyrir nauðsynlegum endurbótum.

Eins og sakir standa nú, er talið, að tunnuverksmiðjan á Siglufirði geti framleitt 12 þús. tunnur á mánuði, en Akureyrarverksmiðjan 10 þús. tunnur, þ.e., að báðar verksmiðjurnar geti framleitt nær 160 þús. tunnur með 7 mánaða starfrækslu á ári. Eins og augljóst má vera, nægir þessi framleiðsla ekki, ef verulega síldveiði gerir. Við þetta er þó að athuga, að fullyrt er, að Akureyrarverksmiðjan geti aukið afköst sín til jafns við Siglufjarðarverksmiðjuna með betri staðsetningu véla og nokkrum lagfæringum á vinnuskilyrðum.

Þegar þess er gætt, að um 36 kr. gjaldeyrissparnaður vinnst við hverja tunnu, sem smíðuð er í landinu í stað þess að flytja hana fullgerða inn, ætti ekki að vera áhorfsmál, að keppa beri að því að smíða allar tunnur innanlands, enda þótt nokkru dýrari verði, eða um 6 kr. á tunnu, að því er verið hefur. Kunnugir telja líka, að þennan verðmun mætti minnka með betri framleiðsluskilyrðum, og stefnir umrætt frv. einmitt að því, þar sem gert er ráð fyrir byggingu tunnugeymsluskýlis við verksmiðjuna á Akureyri. Einnig vantar þar lofthreinsunarkerfi, en slíkt er mjög nauðsynlegt vegna hins mikla sagryks, sem í slíkum verksmiðjum er. Enn fremur þarf að bæta þar upphitun.

Mjög hefur verið bagalegt undanfarið, að geyma hefur orðið alla framleiðslu verksmiðjunnar á Akureyri undanfarin ár undir beru lofti, og hefur það valdið bæði tjóni á tunnunum sjálfum og kostað talsverða aukavinnu við lagfæringu þeirra og jafnframt gert tunnurnar að verri umbúðum um hina dýrmætu framleiðslu okkar, síldina, jafnvel kannske valdið þar tjóni, sem ekki er svo auðvelt annars að segja um né meta.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að síldarútvegsnefnd hafi á hendi stjórn tunnuverksmiðjanna, svo sem verið hefur og gefið hefur góða raun. Hún á og bezt að geta metið, hve mikið þarf að framleiða af tunnum árlega, enda þótt slíkt verði aldrei ákveðið nákvæmlega. Kemur þá aftur að því, hve góðar geymslur eru nauðsynlegar, ef geyma þarf tunnur milli ára, jafnframt hinu, að verksmiðjurnar séu í fyrsta flokks búnaði, ef óvenjumikil síld veiddist og tunnur þryti, svo að hefja yrði framleiðslu þeirra með skjótum hætti.

Tunnusmíðin á Siglufirði og Akureyri hefur verið þýðingarmikil vetrarvinna til að bæta úr árstíðabundnu atvinnuleysi þar. Um það eru heldur ekki skiptar skoðanir, að tunnuverksmiðjurnar eru þar vel staðsettar, miðað við Norðurland, því að tunnur eru fljótfluttar frá Siglufirði sjóleiðis til hvaða hafna sem er norðanlands, en frá Akureyri hins vegar landleiðis á flesta stærstu söltunarstaðina nema Siglufjörð, en tunnuflutningar á bílum ryðja sér æ meir til rúms. Nægir í þessu sambandi að nefna Dalvík, Hjalteyri, Húsavík og Raufarhöfn, en allir þessir staðir geta á svipstundu svo að segja fengið tunnur frá Akureyri.

Akureyrarbær hefur og sýnt, að hann kann vel að meta það, að ríkið tók að sér rekstur tunnuverksmiðju þar, því að hann hét fyrirtækinu útsvarsfrelsi, veitti því undanþágu á vörugjaldi af aðfluttu efni og framleiðslu verksmiðjunnar, afslátt á rafmagni og lóðarleigu auk fleiri fríðinda. En ekki er fyrir það að synja, að bæjarbúum hefur þótt ríkið ekki að öllu leyti uppfylla loforð sín um verksmiðjuna hingað til. Vænta þeir þess fastlega, að frv. það, er hér liggur fyrir, muni ráða bót á þessu, ef að lögum verður.

Eins og ég gat um í upphafi, hefur Ed. bætt inn í frv. frá upphaflegri gerð þess, að ríkisstj. sé heimilt að reisa og reka þriðju verksmiðjuna á Austur- eða Norðausturlandi, ef hún telur þess þörf. Eðlilegt má telja, að þessi heimild sé fyrir hendi, t.d. ef síldveiði legðist verulega austur fyrir land, svo að staðaldri yrði. Hitt er varhugavert, að dreifa tunnusmíðinni á fleiri staði en nú er eingöngu til úrlausnar árstíðabundnu atvinnuleysi. Þar á úrbótin ekki að vera að taka frá þeim, sem lítið hafa, og hygla til þeirra, sem enn minna hafa, heldur finna þeim síðartöldu eitthvað annað og nýtt til úrráða.

Að lokum skal svo tekið fram, að iðnn. mælir samhljóða með því, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og Ed. hefur gengið frá því.