14.02.1957
Efri deild: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Við yfirlestur þessa frv. hefur mér litizt vel á flest, sem þar er ákveðið. Þó var þar ein grein, sem ég hnaut um, og um þá grein langar mig að fara nokkrum orðum. Það er 13. gr. frv., þar sem segir svo, að kirkjuþingsmenn fái greidda dagpeninga og ferðakostnað.

Þetta atriði finnst mér dálitið varhugavert og vildi láta það koma fram hér í umr. Ég efast um, að það sé farsælt að hafa þessi ákvæði í lögunum. Í fyrsta lagi er með þeim verið að bæta nýjum bagga á ríkissjóð, þótt það sé nú kannske ekki mikilsvirði sem rök gegn greininni. Í öðru lagi mun þetta geta skapað fordæmi, og það er öllu varhugaverðara. Hér eru heilir herskarar af ýmiss konar samtökum, sem árlega eða annað hvort ár halda sín þing. Má ekki búast við því, að á eftir komi eða kunni að koma umsóknir eða umleitanir um svipuð fríðindi og hér er farið fram á?

Mér er vel kunnugt um, að læknaþing er haldið annað hvort ár. Á það læknaþing skulu mæta fulltrúar frá öllum læknafélögum landsins. Á þessu þingi eru rædd mál stéttarinnar, en þar eru einnig rædd almenn heilbrigðismál, sem snerta allan almenning. Ég veit ekki til þess, að læknastéttin hafi hug á því að fá greiddan ferðakostnað fyrir héraðslæknana eða dagpeninga, en hugsanlegt væri, að þeir tækju upp á slíku.

Í þriðja lagi efast ég um, að þetta ákvæði sé því málefni til mikils góðs, sem hér er um að ræða. Þetta er kannske veigamesta atriðið gegn ákvæðum 13. gr.

Á kirkjuþingi eiga sæti fulltrúar presta og leikmanna. Við vitum, að það er nauðsynlegt, a.m.k. hvað leikmenn snertir, að á slík þing komi eingöngu menn, sem hafa lifandi áhuga á málefnum kirkjunnar og kristindómsins og komi þangað einvörðungu þess vegna, en ekki af neinum annarlegum hvötum. Þetta finnst mér að gæti veríð hætta á að raskaðist með þessu ákvæði. Ýmsir kynnu að líta um of á það eitt að fara til Rvíkur sér að kostnaðarlausu og fá ókeypis dvöl hér allt að hálfum mánuði. Það gæti skoðazt sem skemmtileg tilbreyting, en slíkt mætti ómögulega ráða því, hverjir meðal leikmanna veldust á þessi þing.

Mér finnst mjög eðlilegt, að þessir 14 fulltrúar eða hvað þeir verða margir annaðhvort greiði sjálfir fyrir sig til þessa þinghalds annað hvort ár eða öllu frekar að þeir fái einhvern ferðastyrk frá söfnuðum þeim, sem þar koma til greina, en að það ákvæði verði ekki fest í lögum, að ríkið skuli greiða þetta.

Ég hafði hugsað mér að bera fram brtt., en veit, að hún kemur of seint fram. Vil ég þó freista þess, hvort afbrigði verða veitt, en brtt., sem ég vildi flytja, er svo hljóðandi:

13. gr. falli niður, og töluröð síðari greina breytist í samræmi við það.