21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tala mikið um þetta mál, en ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á það, að ef á að fara að halda þing, kostað af því opinbera, fyrir eina stétt í þjóðfélaginu, hér prestana, þá er ákaflega hætt við, að það komi fleiri stéttir á eftir, og ekki líklegt, að það sé gott að fóta sig á, hvar þá á að hætta. Þetta vil ég benda á almennt séð.

Einstök atriði eru í þessu frv., sem mér finnst að hefðu þurft að vera dálítið skýrari. Það er að vísu sagt í 1. gr., að kirkjuþing íslenzku þjóðkirkjunnar o.s.frv. Má vera, að með þessu sé yfirlýst, að aðrir en þeir, sem eru í þjóðkirkjunni, hafi ekkert með þetta kirkjuþing að gera, og tel ég þó nokkurn vafa á því, því að ekki orkar það tvímælis, að prestar hafa ábyrgð á prestaköllum eftir 4. gr., þó að þeir séu ekki í þjóðkirkjunni, og ber ekkert á milli um trúarskoðanir, t.d. hér í Rvík, hjá þeim tveimur prestum, sem hér hafa söfnuði, sem ekki heyra beint undir þjóðkirkjuna, og hinum. Ef það er meiningin, að ekki eigi aðrir en þeir prestar, sem innan þjóðkirkjunnar eru, að hafa hér atkvæðisrétt um og geta átt setu á þessum þingum — ef t.d. séra Friðrik Friðriksson hefði þá ekki átt rétt til setu þar og Sigurbjörn Ástvaldur o.fl., o.fl., séra Ólafur fríkirkjuprestur og margir og margir ekki verið kjörgengir þar, þá væri réttara að setja í 4. gr.: prófastar og prestar, sem ábyrgð hafa á prestaköllum innan þjóðkirkjunnar, — bæta því við, ef á að taka af vafa um það. Að vísu á biskupinn með sina meðkjörstjórnarmenn að úrskurða allt, sem varðar kosningarnar, og ekki hægt að skjóta því annað frá honum, og þar undir mundi það falla, ef ágreiningur yrði.

Ég held, að það væri réttara fyrir þá, sem vilja þetta frv. fram, að hugsa um þetta gagnvart 4. gr., svo að það sé enginn vafi á því.

Mér er ekki ljóst, hvaða verkefni þetta kirkjuþing á að hafa. Ég sé ekki, að það geti á neinn hátt rætt um eitt eða annað, sem þurfi frekari upplýsinga við, til þess að trúræknin í landinu verði betri og mennirnir betri menn en þeir eru núna, — eins og búnaðarþingið kemur saman til þess að reyna að finna leiðir til þess að geta gert landbúnaðinn hagkvæmari fyrir þá, sem stunda hann, og þjóðarheildina, fiskiþingið á sama hátt. En hvernig kirkjuþingið á að gera þau trúfræðilegu mál, sem það á að ræða um, meira aðgengileg fyrir fjöldann og hagkvæmari, það er mér ekki alveg ljóst. Ef til vill á það að vera til þess að færa eitthvað saman þær ólíku skoðanir, sem núna rúmast í hinni rúmgóðu þjóðkirkju, þar sem sumir þegnar hennar í prestastétt telja það höfuðsynd að halda fram þeim skoðunum, sem aðrir telja undirstöðu undir því, að rétt sé lifað og rétt stefnt. Það kann að vera, að því sé ætlað að reyna að færa það eitthvað saman, koma með einhverja nýja Ágsborgarjátningu, sem þeir menn, sem á því sitja, geti allir skrifað undir og haldið sér að. En ég efa, þó að sá kunni að vera tilgangur hjá þeim, sem fyrir þessu gangast, að sá tilgangur mundi nokkurn tíma nást meðal okkar íslendinga. Við viljum fyrst og fremst hugsa sjálfir og leita og finna og mynda okkur skoðun, en ekki hlíta trúarjátningum annarra, a.m.k. allflestir, enda þótt stór hópur manna játi nú að vísu vissa trúarjátningu pólitískt séð.

Ég vil sem sagt benda á þetta, að ég er alveg viss um, að það koma aðrar stéttir á eftir, sem telja sig hafa sama rétt og sömu þörf fyrir að láta ríkið kosta sína aðalfundi, eins og synodus hefur verið kostaður af prestunum sjálfum til þessa, á eftir og með ákaflega miklum rétti. Ég geri ráð fyrir því, að það sé hægt að benda á það t.d., að það geti verið hagkvæmara og meira gagn fyrir heildina, að læknastéttin komi saman á fund til að ræða um sína reynslu og sínar aðgerðir i málum, það gæti haft meiri þýðingu fyrir almenning heldur en þing prestanna. Ég býst við því alveg hiklaust, að það sé hægt að finna rök fyrir því og með ýmsa fleiri, jafnvel stéttir eins og t.d. bílstjórastéttina, hún mundi geta komið saman til að ræða sín áhugamál og komið út af þeim fundi miklu betur fær i sínu starfi en áður var, eftir að þeir væru búnir að bera sig saman, hvað helzt væri, sem þyrfti að laga og leggja áherzlu á til þess að vera góðir og nýtir starfsmenn. Yfirleitt allur fjöldinn af stéttum þjóðfélagsins mundi geta gert meira gagn með því að koma saman á landsfundi heldur en ég held að prestarnir geti. Og það mun verða hér eins og með margt fleira, að mjór er mikils vísir.

Ég geri ráð fyrir því t.d., að fyrir nokkrum árum hafi engum dottið í hug að fara að borga t.d. Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja fyrir að koma saman og halda fund. Alþingi byrjar á því að láta þá hafa 25 þús. kr. núna. Hvað kemur svo næst? Dálítið hærri upphæð og aftur hærri. Svona er þetta. Þetta kemur stig af stigi, hver stéttin á fætur annarri, það benti ég mönnum á, og þeir munu raunar fljótt sjá það. Alþýðusambandið hefur haft það, það er alveg rétt, en ekki lengi. Það er nefnilega að smákoma. Það kemur eitt, ekki kannske á hverju ári, en næstu árin kemur eitt og eitt með upphæðir, sem seinast verða álíka miklar og til þessa þings, sem nú má vera í hálfan mánuð, — eftir stutta stund má það vera lengur. Það er bara litli fingurinn, sem hér er réttur. Svo koma báðar hendurnar á eftir og öll stéttasamböndin seinna meir.