21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. benti á það réttilega áðan, að þetta þing, kirkjuþingið, eins og það er hugsað, er ekki sambærilegt við stéttaþingin. En allt um það mun sá munur ekki verða til þess að koma í veg fyrir, að stéttaþingin komi á eftir og óski eftir, að þeirra þing verði stutt af ríkisvaldinu fjárhagslega á sama hátt.

Formaður Læknafélags Íslands hefur t.d. þegar komið að máli við mig um það, að honum fyndist rétt og sanngjarnt, ef það frv., sem hér liggur fyrir, verði að lögum, þá verði læknaþing einnig stutt fjárhagslega af því opinbera. Hann benti á, að verkefni læknaþings, sem er haldið annað hvort ár, væri ekki eingöngu að ræða stéttarleg málefni, hagsmunamálefni stéttarinnar, heldur miklu frekar að ræða almennt heilbrigðismál landsmanna. Hann benti á það, að læknaþing fengi í hvert sinn útlenda sérfræðinga til þess að flytja erindi og kenna íslenzkum læknum. Hann benti á, að þetta hefði borið árangur, orðið til hagsbóta íslenzkum heilbrigðismálum og væri hægt að benda á það svo að segja svart á hvítu. Hann minnti mig á, að fyrir örfáum árum hefði komið norskur prófessor, Ourin, á læknaþing og flutt erindi um meðferð á hjartasjúkdómum, æðakölkun í kransæðunum, og var það alveg ný meðferð þá, er hann boðaði, og þetta hefði strax verið tekið upp hér beinlínis fyrir áhrif frá þessum prófessor, og svo væri um mörg önnur dæmi.

Ég heyrði það á formanni Læknafélags Íslands, að ef kirkjuþing yrði kostað af opinberu fé, þá liti hann svo á, að læknaþingið ætti a.m.k. að fá opinberan styrk til sinnar starfsemi, sem ég nú gat um. Getum við ekki einnig búizt við því, að kennaraþingin, — ég veit ekki, hve þau eru mörg, sennilega eitt kennaraþing fyrir hvert stig í skólakerfinu, — að þau komi á eftir og síðan aðrar stéttir? Það er rétt að gera sér þetta ljóst, áður en gengið er frá þessu frv., áður en það verður að lögum, þannig að menn séu við því búnir, að sitthvað kunni á eftir að koma.

Frv. þetta er flutt af hv. menntmn., að því er sagt er fyrir tilmæli hæstv. ríkisstj., sem ég þó efast um að hafi kynnt sér efni þess nógsamlega. Sérstaklega þykist ég hafa ástæðu til að ætla, að hæstv. fjmrh. hafi ekki gefizt tóm til að staldra við 13. gr., og langar mig að geta þeirrar ástæðu hér.

Fyrir nokkrum árum var stofnað félag, er nefnist Samtök presta og lækna á Íslandi. Tilgangur þessa félags er m.a. sá að hagnýta þá faglegu þekkingu og reynslu, sem prestar og læknar hafa öðlazt, til gagns því fólki, sem þeim er ætlað að hjálpa.

Stjórn félagsins hefur nú hug á að gefa út lítinn fræðslubækling, þar sem birtar yrðu fjórar ritgerðir um hagnýt efni, samdar af jafnmörgum íslenzkum prestum og læknum. Félagið er enn fámennt og lítilsmegandi, og því leitaði það í vetur til hins háa Alþingis um 10 þús. kr. styrk til þessarar útgáfustarfsemi. Fyrir skömmu kom ég að máli við hæstv. fjmrh. og bað hann liðsinnis við þessa umsókn. Fékk ég, vægast sagt, kaldar undirtektir. Með nokkrum vel völdum orðum lýsti hann það fjarstæðu, að úr ríkissjóði yrði greitt fyrir slíkt sem þetta. Taldi hann félagsmenn sjálfa ekki of góða til að kosta þessa útgáfu, með því að þeir mundu flestir sæmilega efnum búnir. Mér féll að ýmsu leyti vel tilsvar hæstv. ráðh., þótt kuldalegt væri. Ég er stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., en það er hennar stefna m.a. að stilla í hóf útgjöldum ríkissjóðs. Því féllst ég á að firra hann 10 þús. kr. útgjöldum til Samtaka presta og lækna á Íslandi. Af þessari ástæðu, er ég nú hef greint, kæmi það mér á óvart, ef hæstv. fjmrh. væri samþykkur 13. gr. frv. þessa, sem hér er til umr. Ef hún yrði að lögum, mundi það jafngilda minnst 50 þús. kr. þarflausri útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð til jafnaðar á ári hverju um ókomna framtíð, en óþörf eru þessi útgjöld, því að væntanlegir fulltrúar kirkjuþings geta sjálfir kostað sig, ella þegið einhvern styrk frá söfnuðunum, sem senda þá, og áreiðanlega bíður sá göfugi málstaður, sem i frv. felst, engan hnekki, þótt Mammons-greinin í því sé niður felld.