13.05.1957
Neðri deild: 96. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

93. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það hefur lengi verið áhugamál prestastéttarinnar, að komið yrði á kirkjuþingi fyrir hina íslenzku þjóðkirkju og settar ákveðnar reglur um skipun þess. Skömmu eftir síðustu aldamót sömdu þrír kennimenn frv. um þetta efni, en það frv. náði ekki fram að ganga. Fyrir allmörgum árum tók Magnús Jónsson prófessor, þáverandi þm. Reykv., málið upp að nýju á Alþingi, en þá hlaut það ekki heldur fullnaðarafgreiðslu. Fyrir níu árum var að tilhlutun biskups hugmyndin um kirkjuþing rædd mjög ýtarlega á prestastefnu og kjörin fimm manna nefnd til að athuga frv. um þetta efni, sem þar lá fyrir. Sú n. lauk því starfi og sendi síðan öllum prestum landsins til athugunar þær till., sem hún gerði. Síðan hefur málinu verið haldið vakandi af prestastéttinni og öðrum áhugamönnum um kirkjuleg málefni. Á síðasta þingi var frv., samhljóða því, sem hér liggur fyrir, flutt sem stjórnarfrv., en varð þá ekki útrætt.

Það er efni þessa frv., að kirkjuþing íslenzku þjóðkirkjunnar skuli halda annað hvert ár, en það skuli ekki eiga lengri setu en tvær víkur. Í sambandi við kjör til kirkjuþings skal landinu skipt í sjö kjördæmi, og verða tveir þingfulltrúar kosnir í hverju kjördæmi. Skal annar þeirra vera prestur, en hinn leikmaður. Enn fremur skulu eiga sæti á kirkjuþingi einn maður frá guðfræðideild háskólans, biskup og kirkjumálaráðherra. Prófastar og prestar, sem ábyrgð hafa á prestakalli innan hvers kjördæmis, kjósa úr sínum hópi einn kirkjuþingsmann fyrir kjördæmið og einn til vara. Sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar hvers kjördæmis kjósa á sama hátt einn leikmann til að sitja á kirkjuþingi.

Kirkjuþing á að hafa tillögurétt um öll mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða. Það á að hafa rétt til þess að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, og kirkjuþingi ber að kjósa fjóra menn í kirkjuráð, og fer það kjör fram, er hið fyrsta kirkjuþing að afstöðnum kosningum kemur saman.

Samkv. þessu frv. verður verksvið kirkjuráðs hið sama og það er nú eftir gildandi lögum. Áhugamenn um kirkjuleg málefni hafa lengi haft hug á að fá setta löggjöf eins og þá, sem felst í þessu frv. Samkv. stjórnarskránni skal hin evangelísk-lúterska kirkja vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þjóðkirkjan á að vera félagsskapur allrar þjóðarinnar, og þó að frelsi ríki í þessu efni, þá sýnir reynslan, að það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar, sem stendur utan hennar. Að því er stefnt af hálfu forustumanna kirkjunnar, að löggjöf sem þessi hafi áhrif á að auka samstarf presta og leikmanna um kirkjuleg málefni og verði til hvatningar í þeim allsherjarfélagsskap þjóðarinnar, sem þjóðkirkjan er. Og það er von þeirra, sem styðja vilja kirkjuna, að svo verði.

Menntmn. leggur til, að frv. þetta verði samþykkt. Einn nefndarmanna, hv. þm. Ísaf., skrifar þó undir nál. með fyrirvara, og annar nefndarmaður, hv. 3. þm. Reykv., hefur lýst því, að hann áskilji sér rétt til þess að hafa fyrirvara við afgreiðslu málsins í heild.