22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

173. mál, skipakaup

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af sjútvn. Nd. að beiðni ríkisstj. og hefur hlotið einróma samþykki þeirrar d. Það fjallar um breyt. á heildarlögum, sem samþ. voru seint á s.l. ári, fyrir ríkisstj. til skipakaupa, lántöku og sérstakra ráðstafana í útgerðarmálum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Í þeim lögum var svo ákveðið m.a., að ríkisstj. væri heimilt að gera f.h. ríkissjóðs samninga um kaup og smíði á allt að sex fiskiskipum, 150–250 tonna, og taka til þess lán f.h. ríkissjóðs. Samkvæmt þessu frv. er heimildin hækkuð úr sex fiskiskipum í tólf og lántökuheimild hækkuð sem þessu svarar og þó heldur betur.

Eins og kom fram í umr. á sínum tíma um þetta frv., sem hér er lagt til að hreyta að þessu leyti, hafa þessi mál verið til athugunar hjá atvinnutækjanefnd ríkisins, og hefur hún við starf sitt komizt að raun um, að eftirsókn og þörf fyrir þessa stærð skipa er allmiklu meiri en í fyrstu hefði mátt ætla. Kemur þar margt til, sérstaklega það, að víða hentar þessi stærð skipa betur en stórir togarar, sérstaklega vegna hafnarskilyrða, og geta komið að fullum notum, þar sem ekki yrðu möguleikar á því, að togarar geti lagt upp, bæði þeirra vegna og sums staðar líka vegna þess, að ekki yrðu næg skilyrði til þess að vinna svo mikinn fisk sem togarar bera að jafnaði að landi. Og á því eru augljósir annmarkar, að togararnir skipti afla sínum á fleiri hafnir, enda þótt til þeirra úrræða hafi þurft að grípa og muni e.t.v. þurfa að einhverju leyti í framtíðinni.

Það hefur komið í ljós, að útgerðarmenn hafa mjög mikla trú á þessum skipum, og það hefur ekki reynzt mögulegt fyrir atvinnutækjanefndina að gera viðhlítandi till. um úthlutun þeirra nema fjölga þeim að mun frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir. En með þessari breyt., sem hér er gert ráð fyrir, mun mega ætla, að leysa megi viðunanlega þörf hinna ýmsu staða, sem hafa frambærilegar ástæður til þess að geta sótt um þessi skip og tryggingu fyrir að geta rekið þau sómasamlega.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, nema sérstakt tilefni gefist, en sjútvn. leggur einróma til, að frv. verði samþ. án breytinga.