20.05.1957
Efri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2048 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

69. mál, sjúkrahúsalög

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. alllengi til athugunar. Nokkurt hik var á n. að mæla með því eins og það lá fyrir. Vafasamt þótti, að grundvöllur sá eða regla, sem frv. felur í sér um skiptingu kostnaðar milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, þegar reist eru almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknabústaðir, væri sanngjarnlega valin, þ.e. reglan um að flokka sveitarfélögin eftir þeirri íbúatölu, sem þar er tilgreind. Lengi var það regla, að ríkissjóður greiddi 1/3 hluta kostnaðar við slíkar byggingar, sem almenningur reisti, hvort sem í hlut átti margt fólk eða fátt, þ.e.a.s. þéttbýli eða strjálbýli. Síðan var styrk ríkisins breytt í 2/5 hluta, en fjórðungssjúkrahúsunum þó ætlaðir 3/5 hlutar frá ríki. Árið 1949 var sú breyting á þessu gerð, að sveitarfélög önnur en bæjarfélög skyldu fá 2/3 kostnaðar úr ríkissjóði, en bæjarfélög, hvort sem þau væru smá eða stór, 2/5 hluta eins og áður. Síðan hefur sú regla gilt.

Augljóst er, að þessi regla er ekki réttlát. Lítil sveitarfélög hafa ekki meira bolmagn, þótt þau nefnist bæjarfélög, heldur en þótt þau kallist hreppsfélög. Sanngjarnara er því að miða við annað en heitin út af fyrir sig. Margar hendur vinna létt verk, segir máltækið, og það á við í þessu efni sem fleiru. Eðlilegt er, að ríkið veiti meiri stuðning þeim sveitarfélögum, sem þurfa að reisa sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknabústaði og fá til þess lögáskilið leyfi, en hafa færri hendur til þess að gera átakið og eru í strjálbýlisaðstöðu til þess að standa að fyrirtækinu, hagnýta sér það og reka. Enginn réttlætisgrundvöllur er fyrir því, að sveitarfélag, sem kallast bær, en er með um 700 íbúa, eins og t.d. Seyðisfjörður, fái minni stuðning en þorp eins og Selfoss, sem hefur 1350 íbúa, bara af því að það þorp er hreppur. Ég tek þessi dæmi, af því að Seyðisfjörður er minnstur bæjanna, en Selfoss stærstur þorpanna.

Nú er Sauðárkrókur að byggja upp sjúkrahús sitt. Þar hefur lengi verið starfandi sjúkrahús með góðum árangri, en er nú að því er húsnæðið snertir orðið algerlega óviðunandi. Samkvæmt gildandi lögum á ríkið ekki að leggja til hinnar nýju byggingar nema 2/5 verðs, af því að Sauðárkrókur er kaupstaður, þótt þar sé ekki nema rúmlega 1000 íbúar, eða rúmlega hálft ellefta hundrað nákvæmlega talið. Af þessu tilefni flytja hv. þm. Skagf. frv. þetta og leggja til, að ákvæðinu i sjúkrahúsalögunum verði breytt á þá leið, að þátttaka ríkisins verði ákveðin þannig, að ríkið greiði 2/5 kostnaðarins til sveitarfélaga, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, en 2/3 hluta kostnaðarins, þar sem íbúarnir eru færri, hvort sem sveitarfélögin heita bæjarfélög eða hreppsfélög. Benda flutningsmennirnir á það í grg. sinni, eins og rétt er, að sum hreppsfélögin séu stærri en sum bæjarfélögin og hafi eins mikið og meira fjárhagslegt bolmagn en þau. Það eru víst ein átta hreppsfélög, átta kauptúnahreppar, sem eru fjölmennari en minnsta bæjarfélagið, og Selfoss er fjölmennari en fjögur bæjarfélögin.

Nd. féllst á sjónarmið flutningsmannanna og samþ. frv. Landlæknir, sem fékk frv. til umsagnar, hafði hins vegar allmikið við það að athuga. Bendir hann m.a. á, að Sauðárkrókur hafi aðstöðu til félagsskapar um sjúkrahúsið við Skagafjarðarsýslu, en Siglufjarðarkaupstaður, sem þurfi líka að endurnýja sjúkrahús sitt og sé í undirbúningi með að gera það, geti ekki gengið í félag við önnur sveitarfélög um það og hljóti því verri aðstöðu en Sauðárkrókur, ef frv. yrði að lögum, hann fái lægra hlutfall frá ríkinu, þótt þegar á allt sé litið standi fleira fólk að sjúkrahúsi Sauðárkróks. Þetta eru rétt rök út af fyrir sig. Í þessum efnum er að vísu erfitt að fullnægja öllu réttlæti. Aðstaða fólksins er með svo mörgu móti. En segja má, að betra sé þó ofgert við suma en vangert við marga, þegar um stuðning þjóðfélagsins við sjúka er að ræða og heilsuvernd, ef annars er þá hægt í því sambandi að tala um, að ofgert sé.

Að athuguðu máli ákvað heilbr.- og félmn. á fundi sínum 18. þ.m. að leggja til, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, að í stað tölunnar 1500 íbúar komi 3000 íbúar. Verða þá sjö bæjarfélög af 14 í þeim flokki, sem ríkið styrkir með 2/3 framlags til sjúkrahúsa, og hreppsfélögin öll, eins og áður hefur verið. Virðist nefndinni næst lagi að hafa mörkin á þessa leið.

Aðra brtt. gerir nefndin einnig, en hún er, að í stað orðanna „bæjar- og sveitarfélög“ komi: sveitarfélög. Þetta er aðeins málfarsleiðrétting. Bæjarfélög eru nefnilega sveitarfélög og bæjar- og sveitarfélög rökleysuframsetning, þótt hún sé farin að hrjóta oft úr munni og hlaupa úr penna.

Álit n. og brtt. eru á þskj. 562. Eins og þar er sagt, mætti ekki einn maður úr n. á þeim fundi nefndarinnar, sem afgreiddi málið. Það var hv. 2. þm. Árn. Hann hefur, síðan fundurinn var haldinn, tjáð mér, að hann sé samþykkur till. n., og þess vegna get ég lýst því yfir, að öll nefndin mælir með frv. með þeim breytingum, sem eru í nál.