14.12.1956
Efri deild: 29. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi fyrir okkur, sem vorum hér á síðasta þingi, en fyrir hina ekki. Það var lagt fram í byrjun síðasta þings eða snemma á síðasta þingi af þáverandi landbrh., Steingrími Steinþórssyni, og var þá á þskj. 85. Það var samið af mþn., sem var selt í að endurskoða lögin, og fylgdi því þá mjög ýtarleg grg., og fyrir þá þm., sem eru nýir í deildinni, vildi ég benda þeim á þá grg., sem þá fylgdi frv. og vafalaust er hægt að fá hjá skjalaverði, en það var sem sagt 85. mál þingsins í fyrra.

Í fyrra fékk þetta mál, sem fór til landbn., allýtarlega meðferð þar. Það hafði áður af stjórnarráðinu verið sent til umsagnar veiðifélaganna í landinu og öllum sýslunefndum, og lágu fyrir umsagnir þeirra flestra um málið, sumar með breytingartillögum og aðrar ekki, og það geta þeir líka fengið að sjá á þskj. frá í fyrra, sem var nr. 544. Þar var skýrt frá þessu í nál., sem kom frá landbn.

Landbn. varði í fyrra mjög miklum tíma í þetta frv. Hún fór í gegnum það allt, bar það saman við eldri lög og hafði samráð við veiðimálastjóra um hverja einustu grein í frv. Hún endaði á því í þinglokin, eftir að hún var búin að halda milli 20 og 30 fundi aðallega um þetta mál, að hún skilaði um það nál. og lagði til nokkuð margar breytingar, sem prentaðar eru á þskj. 545 í fyrra.

Á þetta vildi ég benda nýjum mönnum í deildinni, svo að þeir kynntu sér þetta mál, áður en það kemur aftur frá nefndinni. Það eru nýir menn í landbn. að nokkru leyti núna. Þess vegna verður vafalaust af landbn. farið í gegnum frv., þó að vonandi þurfi ekki eins mikla vinnu í það að leggja og gert var á síðasta þingi. En ég vildi benda á þetta, til þess að þeir, sem ekki fylgdust með gangi málsins í fyrra í þinginu, kynntu sér það og hægra yrði um vik, þegar málið kemur aftur frá nefndinni. Annars höfum við, landbn., sem núna er, ekki farið í gegnum frv. Við sjáum við fljótlegan yfirlestur, að það er lagt fyrir nákvæmlega í sama formi og í fyrra og ekki teknar inn í það neinar af þeim brtt., sem n. í fyrra lagði til, enda þá ekki samþykktar af deildinni, því að það var ekki rætt nema við eina umr. hér í deildinni. Ég geri þess vegna ráð fyrir því, að n. þurfi að taka það allt í gegn, eins og ég áðan sagði, og legg til, að því verði vísað beint til nefndarinnar, þó að það sé flutt af henni. Hún þarf að taka það alveg í gegn.