12.03.1957
Efri deild: 68. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Frsm. minni hl. hefur nú gert grein fyrir sínum till. Við höfum heyrt þær og rökin fyrir þeim.

Ég kom að nokkru leyti inn á 1. brtt. hans hér áðan, neyddist til þess, þó að það sé ekki venja.

Við 13. gr. er ein brtt. okkar, og við töldum, að við með því kæmum á móts við hann og hann mætti vel við una. Það er brtt. um skýrslusöfnunina, sem felst í 13. gr. Hann tók dæmi um það, að slík skýrslusöfnun gæti leitt til þess, að veiðin yrði tvítalin. Ég held, að það sé ósköp auðvelt að komast fram hjá því og það sé hægðarleikur, því að um leið og bann segir frá þessum 20 löxum, sem hann keypti einhvers staðar að, hvaðan hann keypti þá, þá kemur það fram, hvaðan þeir eru, og ef svo er keypt frá honum aftur af öðrum, sem segist hafa keypt frá honum, þá sýnir það sig, að þar eru sömu laxarnir á ferð, svo að það er engin hætta á því, að þeir verði tvítaldir. Ég held; að það sé nauðsynlegt að reyna þetta. Það getur engum manni blandazt hugur um það, að manni, sem á að reyna að sjá um, að þessi lög séu haldin og leiði ekki til ofveiði neins staðar, er nauðsynlegt að fá sem fyllstar og beztar og réttastar upplýsingar um það, hvað veiðist mikið á hverjum stað.

Það á að gefa það upp, það er alveg rétt, það á að gefa það upp á framtalsskýrslum, hvað mikið veiðist. Þær eru nú svona og svona og ekki ævinlega mikið á þeim að byggja. Ég held þess vegna, að till. okkar nm. sameiginlega, sem féllumst á að láta reyna þetta, gefa ráðh. heimild til að láta gera það, sé sjálfsögð. Ef það reynist eins og hv. 2. þm. Árn. heldur fram, að það sé ekki á þeim skýrslum að byggja eða þær fáist ekki, þá eru hæg heimatökin að hætta því aftur, þegar því er breytt í heimild, en það er alveg óumflýjanlegt að reyna að skapa þann grundvöll, eftir því sem hægt er, að það fáist sem fyllstar upplýsingar um veiðimagnið i hverri einstakri á. Ekki skal ég fara út í það, en þó jaðra að því í gamni meira en í alvöru, að það eru nú margir, sem halda því fram, að ein aðalástæðan til þess, að ekki á að safna slíkum skýrslum eða menn leggjast á móti þessum skýrslum í vissum héruðum landsins, sé sú, að þá mundu koma fram nokkrir laxar, sem teknir eru bæði í sjó og í silunganet og því óleyfilega veiddir. Það kunna að vera illar getsakir í garð annarra manna, en það eru nú ýmsir, sem halda það samt sem áður, að þar sé að leita undirrótanna fyrir því, hve vissir menn, ekki þar með 2. þm. Árn., því að ég ætla honum það ekki, en vissir menn, sem hann vinnur fyrir og flytur hér mál á Alþingi fyrir, vilji þetta ákvæði feigt og burt og úr heiminum.

Um 84 stunda friðunina, sem nú er lengd, hef ég ekkert sérstakt að segja. Ég tel mig ekki dómbæran um það að segja, hvort það er fullkomlega þörf eða ekki, en þegar menn eru búnir að leggja það til, sem taldir eru forustumenn á því sviði, eins og sérstaklega Pálmi heitinn Hannesson, þá sé ég ekki, að ég geti lagzt á móti því, og það vitum við, að í ýmsum ám hefur veiði minnkað og í öðrum gengið alveg til þurrðar. Við þurfum ekki annað en að fara hérna leiðina norður. Þar komum við að Korpúlfsstaðaá og Brynjudalsá og Botnsá, sem allar saman voru orðnar þurrar fyrir nokkrum árum, þó að það sé komin veiði í þær aftur núna vegna friðunar. Ég held þess vegna, að ég ræði helzt ekkert um þann friðunartíma sérstaklega. Ég bara legg til fyrir nefndarinnar hönd, að greinin verði samþykkt eins og hún er í frv. og bæði 1. og 2. till. hans felld.

Það er alveg rétt, að veiðimálastjóra er gefið mikið vald með frv. eða ráðh. með hans aðstoð. Á það minntist ég. Og það er nauðsynlegt. Það er alveg nauðsynlegt, þar sem við erum að semja lög, sem eiga að gilda um gerólíka staði, eins og hér er um að ræða. Við erum að stríða við að semja lög um pínulitlar sprænur, sem þó nokkur laxveiði er í, en hægt er að þurrka út veiði í á tiltölulega mjög skömmum tíma, — og svo erum við að semja lög um stórár eins og Ölfusá, sem er svo stór og breið, að net, sem þverleggst yfir aðrar ár, það nær út í vatnið í Ölfusá, en það er ekki miklu meira.

Þess vegna verður veiðimálastjóri alveg ótvírætt að hafa vald til þess að geta gripið inn f og hnikað dálítið til framkvæmdinni, eftir því sem ástæða er til á hinum einstöku stöðum. Og þessi grein, sem hv. 2. þm. Árn. leggur til að felld sé niður, 5. tölul. 27. gr. frv., hljóðar nú svo, með leyfi forseta:

„Nú þykja ákvæði þessara laga um friðun og veiðitæki eigi veita fiskstofni vatns nægilega vernd gegn ofveiði, og er ráðherra rétt eftir tillögum veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar að fækka föstum veiðivélum í því vatni.“

Þetta er allt og sumt. Ef skýrslurnar, sem hann á að reyna að fá eftir 13. gr. og að öðrum leiðum, sýna það, að veiði fari minnkandi ár frá ári í einhverri á, þá má hann grípa inn og gera ráðstafanir til þess að reyna að hindra það, að slíkt eigi sér stað. Vitanlega verður maður, sem slíkt gerir, og maður, sem hefur slíkt vald, að geta lagt fram rök fyrir sínu máli. Hann verður að geta sannað, að hér sé um hættu að ræða, er réttlæti gerðir hans. Að öðru leyti getur hann ekki tekið réttinn af mönnunum, og í öðru lagi fellst enginn ráðherra á að taka ráð af honum. En hann verður að hafa þetta vald. Hann á að hafa þetta vald, og ég vona, að hv. deild sjái rétt að samþykkja það.

4. brtt. hv. 2. þm. Árn. var svo víðvíkjandi 35. gr. Þar vill bann fella niður alveg 3. liðinn og þar með láta áfram haldast sams konar veiði og núna er, t.d. á ósasvæði, skulum við segja, Hvítár, líka t.d. á ósasvæði Langadalsár í Ísafjarðarsýslu, sem verið er að tæma með svona netum. Það er nefnilega víðar en í Hvítá, sem þetta á sér stað. Það á sér stað hingað og þangað, þar sem aðstaða er til þess, og þegar kemur að litlu ánum, er það alveg eyðileggjandi, gersamlega eyðileggjandi fyrir þær. Það hefur minna að segja um stórárnar, miklu minna. Þó hefur það þar líka töluvert að segja. Já, ég tek þá ákveðna á, ónafngreinda þó, en ekkert ákaflega langt frá Rvík. Þar er líka stunduð svona veiði, — ekki við Hvítá í Borgarfirði, — og það er ekki nema einn maður, som stundar hana, og hann tekur 1/3 af öllum laxinum, sem veiðist í ánni, en 2/3 eru veiddir á stöng uppi í ánni. Hann gerir það, og ef hann færi að færa sig upp á skaftið og setja fleiri slíkar lagnir þar úti á eyrunum, þá mundi hann geta bætt enn við, og þá væri sannarlega hætta á, að um þurrð yrði að ræða, — það er kannske nú þegar, — og ástæða til þess að lofa veiðimálastjóra að grípa inn eftir ákvæðinu, sem við áðan vorum að ræða um og felst í 27. gr., en hann vildi láta fella niður.

Ég viðurkenni mjög fúslega og veit það, að ýmsar af lögnunum, bæði á ósasvæði Hvítár í Borgarfirði og viðar, verða að hverfa, þegar þetta ákvæði er sett inn. Þar með er alls ekki sagt, að mennirnir, sem þar eiga hlut að máli, bíði neinn verulegan skaða. Sumir af þeim hafa áreiðanlega aðstöðu til að færa sig að sínum bakka og leggja þar skammt frá. Og það getur vel verið, að Hvítá geti hjálpað til þess, því að hún er ekki alltaf í sömu kvíslunum. Hún getur stundum komið með kvísl með vesturlandinu, sem er eins gott að leggja í eins og úti í miðjum firði, þó að stundum sé lögn úti i miðjum firði. Og með því að elta þær um allt, þá er kannske hægara að finna þær. Það er víst ómögulegt að segja um það, hvað mikið þetta getur dregið úr veiðinni, en það er augljóst, að nokkrir veiðistaðirnir úti í firðinum leggjast niður. Og þeir eiga að leggjast niður. Það á að lofa laxinum að komast upp í árnar og vera þar til að hrygna, en ekki að drepa hann allan úti á leirum.

Í því sambandi talaði frsm. minni hl., hv. 2. þm. Árn., um það, að laxinn, sem veiddist á stöngina, væri miklu verri vara en hinn, sem veiddist í netin. Ég þori ekki um þetta að fullyrða. Ég veit, að það geta verið fleiri hættur á þeim, sem veiðist á stöngina, sérstaklega þegar hann veiðist langt frá verzlunarstað og þarf að flytjast langar leiðir, og þá getur náttúrlega verið, að hann á þeim flutningi skemmist eitthvað. En það vitum við, sem munum aftur í tímann í Borgarfirði, meðan árnar þar voru leigðar Englendingum, sem voru þar uppi að veiða, að aldrei veiddu þeir nema á stöng og aldrei heyrðist minnzt á það hjá þeim, að munur væri á laxinum, sem þeir veiddu, og laxinum, sem veiddur var í netin. Þeir tóku hann allan jafnt og létu frysta og flytja út frá Ferjukoti. Og enn er það svo, að í Ferjukoti er tekinn og frystur lax, bæði til innanlandssölu og útflutnings, bæði af stöng og úr netum.

Ég er ekki beint að bera brigður á þessa umsögn Árna í Borgarnesi, sem verzlar þar fyrir verzlunarfélagið Borg, en ég hygg, að mönnum beri ekki heldur alveg saman um það, ef laxinn annars kemur nýr. Ef menn, sem eru að veiða inni á uppsvæði Þverár, sem þar kallast Kjarará, langt fyrir innan byggð í Borgarfirði eða inn á móti Fljótstungu eða enn þá innar, senda ekki frá sér lax þá þrjá daga, sem þeir eru þar upp frá, og geyma hann þar, en hafa engar aðstæður til að geyma hann þar í kæliklefa og koma ekki með hann fyrr en þeir eru búnir, þá náttúrlega get ég skilið, að hann verði verri en lax, sem veiddur er í net hjá Ferjukoti og strax settur í frysti eða kæli. En ef þeir senda hann frá sér, eins og ég bygg að þeir hafi gert núna, — það upplýsist sjálfsagt í Nd., því að það er nú einn þm. þar, sem veiðir þar á hverju ári, — ef þeir senda hann frá sér daglega, eins og ég hygg að þeir geri núna, þá hugsa ég, að munurinn verði ekki mikill. Ég hugsa sem sagt, að það séu ákaflega léleg rök móti stangarveiði og netalaxinn sé verri.

En ég vil halda fast við það og segja það enn fremur máli minn til sönnunar, sem ég reyndar drap á áðan um þá, sem hafa tekið upp þessar veiðar úti á leirum í álum, að það eru fæstir þeirra, sem hafa fengið þá veiði nema af sjálfu sér, þeir hafa ekkert fyrir hana gefið. Það eru fæstir þeirra, sem hafa keypt jarðirnar, eftir að hægt er að hafa ástæðu til að ætla, að verð þeirra hafi hækkað vegna þessarar veiði, og þess vegna heldur ekki ástæða til að borga þeim það mikið, enda þótt ég hafi fallizt á að láta þá hafa bætur eftir mati, ef veiði rýrnar um helming. En einmitt af því, að við höfum fallizt á það með brtt. við 3. gr., þá er ekki nokkur ástæða til að vera að taka það upp aftur í 107. gr., eins og skriflega brtt. gerir ráð fyrir. Það er komið inn í frv. á tveimur stöðum um bætur. Annars vegar er rætt um bætur í 20. gr., en þar er veiðimálastjóra heimilt að grípa inn og banna veiði, ef sérstaklega stendur á. Þetta er í 20. gr. Og í öðru lagi á að borga bætur, ef maður missir meira en helming veiði vegna bakkaákvæðanna, en um þau er einmitt að ræða þarna í Borgarfirðinum. Að það þurfi þess vegna enn fremur að greiða bætur vegna einhverrar hugsanlegrar minnkunar á veiði, kannske bara af því, að maðurinn, sem neðar býr við ána, hefur orðið fyrri til að leggja sitt net og þess vegna ánetjist í því fleiri laxar og við það missi maðurinn, sem ofar býr, einhvern part af veiði, miðað við það, sem hann hafði sjálfur áður, þá á að fara að meta það og greiða bætur eða ef einhverjar aðrar slíkar aðvífandi ástæður kunna að verða til þess, að menn fái rétt til að heimta bætur, ef þessi ákvæði eru sett í 107. gr., og ég sé ekki annað en að þau séu algerlega óþörf, órétt beinlínis, það getur orðið til þess, að menn ímyndi sér, að þessi eða hin aðgerð náunga síns eða hins opinbera hafi minnkað hjá honum veiði, án þess að hún hafi á nokkurn hátt verið að því völd, og þá fer hann af stað með bótakröfur og allan þann kostnað, sem utan um það er, og svo upplýsist, að allt er unnið fyrir gýg.

Borgarfjarðarmennirnir, sem þarna eiga hlut að máli, eru allir komnir undir bætur eftir 35. gr., ef okkar till. væri samþykkt. Það eru því ekki þeir, sem er verið þar um að hugsa. Það eru einhverjir aðrir, og ég skal ekki segja hverjir, það gætu sem sagt hugsazt einhver einstök afbrigði, sem kemur fyrir að þurfi að bæta. En þau eru óskaplega fá og engin ástæða til þess, nema eitthvað alveg sérstakt sé um að ræða. Þess vegna legg ég á móti því, að skriflega brtt. sé samþykkt, og við meiri hl. í n., þrír, vorum á móti því, þegar um þetta var rætt í n. En ég vissi, að tveir nm. voru þá með því að samþykkja það, og átti von á þeirri till. og var þess vegna dálítið hissa, þegar ég sá hana ekki, og vonaði, að guð hefði gefið, að þeir hefðu bætt ráð sitt og séð að sér og færu ekki að koma með slíkt fram, og þótti vænt um það. Nú sé ég, að það hefur ekki verið. En menn geta iðrazt alveg fram á síðustu stund, og ég vona, að það verði svo hér.