18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Því miður hefur ekki unnizt tími til að ná landbn. saman til að ræða um þessa tillögu. Þess vegna hefur hún sem heild enga afstöðu til hennar tekið. Ég hef kynnt mér hana, og það hafa sjálfsagt allir þm. gert. Og þegar við gerum það, þá verðum við að hafa hugfast í fyrsta lagi skipun n., sem að málinu vann og í voru, eins og ég sagði við 2. umr. þessa frv. hér, þeir Pálmi sálugi Hannesson, Björn alþm. Ólafsson og Þórir í Reykbolti og svo tveir lögfræðingar, Gizur Bergsteinsson og Gunnlaugur Bríem. Þeir segja: „Þykja gildandi lagaákvæði eigi tryggja nægilega viðhald fiskstofnsins í ám og vötnum?“ Þess vegna fara þeir inn á þá leið að stytta eða takmarka veiðina, ekki bara á þessum veiðivélum, sem hér er um að ræða, heldur á öllum.

19. gr., sem hér er lagt til að sé breytt, takmarkar fyrst og fremst þessar lagnir frá því að vera uppteknar tvo daga í viku upp í þrjá daga og lætur laxinn því fá þrjá daga til að komast óhindraðan á hrygningarstaðina. Hún takmarkar stangarveiðina frá því að mega vera allan sólarhringinn upp í að mega vera bara 12 tíma af hverjum sólarhring og hún takmarkar ádráttinn alls staðar niður í tvo daga í viku. Hún takmarkar þess vegna alla veiði í ánum. Það er efni brtt. að taka þessa veiðiaðferð út úr og segja, að hún væri eitthvað hættuminni en aðrar veiðar, og gera þess vegna aðra aðalreglu um hana en hinar og láta hana ekki fara úr ánum nema 60 tíma í viku hverri. Ég vil ekki gera aðalreglu um þá veiðina, sem í ósunum og nær ósasvæðunum er hættulegust fyrir stofninn, — ég vil ekki gera það að aðalreglu, að með þessari aðferð megi veiða miklu lengur en hinum, sem menn viðurkenna hættuminni fyrir veiðina. Þess vegna get ég ekki verið með þessari till., eins og hún er orðuð.

Hins vegar gæti hugsazt, að það væri ástæða til þess að breyta þessari till. og í staðinn fyrir að segja 60 stundir á viku hverri, þá stæði þar: 84 stundir í viku hverri og frá föstudagskvöldi til þriðjudagsmorguns, en friðunartíma þennan má stytta niður í 60 stundir á viku hverri, sé að dómi veiðimálastjóra og veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags engin hætta á, að um þverrandi veiðistofn sé að ræða á viðkomandi veiðisvæði. Þá er það orðið undantekning með einstaka ár, sem sérstaklega stendur á um, að það megi stytta veiðitímann og veiða lengur í þeim en öðrum, ef ástæðurnar liggja þannig, að það þyki ástæða að leyfa slíkt. En þá er það líka orðin algild regla, að þeir megi eigi veiða lengri tíma í hverri viku með þeirri veiðiaðferðinni, sem hættulegust er til að útrýma laxinum, en hinum.

Nú veit ég ekki, hvernig mínir meðnefndarmenn mundu taka í það, að svona brtt. kæmi fram, eins og ég núna breytti till. 2. þm. Árn. En ég gæti hugsað mér að vera með slíkri till. Og mér skilst á veiðimönnum í Nd., sem væntanlega fá málið til meðferðar, að þeir mundu láta afskiptalausa slíka till., en ekki líða till. eins og hún kemur frá 2. þm. Árn. Þá mundi frv. aftur verða breytt og við fá það aftur í hausinn, ef hún færi þannig frá okkur.

Þó er nú þetta ekki þannig, að ég þori að segja þetta með vissu. Ég hef talað við menn, bæði úr landbn. og eins Björn Ólafsson og fleiri, sem eru kunnugir laxveiðum og koma til með að tala um þetta, þegar þangað kemur, og held þetta af þeim viðtölum. Ég held, að það væri nú réttast þess vegna, ef hæstv. forseti vildi fresta umr. um þetta mál og lofa okkur í n. að athuga, hvort við gætum sætt okkur við að flytja till. líka þessari, sem ég stakk upp á að breyta till. hv. 2. þm. Árn. í.