19.03.1957
Efri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eftir að forseti varð við þeim óskum mínum í gær að taka málið út af dagskrá, svo að við gætum haldið fund í landbn. til að athuga till., sem fram var komin um breytingu við 19. gr., þá héldum við fund og urðum sammála um það, fjórir nm., að leggja til, að flutt yrði brtt. við brtt. á þskj. 346, líkt eins og ég talaði um í gær.

Þessi friðunarákvæði í 19. gr. eru, eins og við allir vitum, almenns eðlis og miðuð við það, sem talið er þörf á að friða til þess að tryggja laxastofninn í ánum. Við höfum áður samþykkt grein í frv., þar sem gert er ráð fyrir, að safnað verði skýrslum, sem geri mögulegt að fylgjast betur með, hvort fiskstofninn í einhverju vatnahverfi helzt við eða er að ganga til þurrðar. Það var allt þeirra manna, sem sömdu þetta lagafrumvarp upprunalega, að það væri þörf á því að hafa friðunartímann hér almennt svona langan. Þess vegna lengdu þeir friðunartímann fyrir þessari veiði, sem um ræðir í þessari brtt., úr tveim sólarhringum upp í þrjá. Þess vegna takmörkuðu þeir stangarveiðina við hálfan sólarhringinn. Þess vegna takmörkuðu þeir dagana um ádráttinn við tvo daga í viku og reyndu að samrýma þetta allt saman með því að auka friðunina, auka möguleikana til þess, að laxinn kæmist upp árnar og upp á hrygningarstaðina.

Þessu vil ég ekki hrófla við almennt séð og við í meiri hl. Hins vegar erum við inni á því, að það geti verið rétt, sem hv. 2. þm. Árn. heldur fram, að i einstaka ám sé ekki þörf á því að hafa friðunina svona langa, og þess vegna leggjum við til, að bægt verði að gefa heimild til þess með brtt., sem prentuð er á þskj. 355, að stytta friðunina, þegar svo ber undir, niður í það, sem hún er í gömlu lögunum, 60 tíma, og gerum það þó ekki nema með þessa einu veiðiaðferð. Við látum stangarveiðina vera, bara hálfan dag, aldrei lengur, og við látum ádráttinn ekki vera nema tvo daga í viku og gefum þeim enga heimild til að breyta því. Tillagan gefur þeim heimild til að hnika þarna til, stytta veiðitímann, þegar svo ber undir, og mér skilst, að þeir, sem að frv. stóðu, a.m.k. 2. þm. Reykv., Björn Ólafsson — við hann hef ég talað — og eins veiðimálastjóri, geti báðir fallizt á þessa till. og muni verða henni meðmæltir. Við leggjum þess vegna til, þessir fjórir nm., að till. 2. þm. Árn. sé breytt í þá átt, sem segir í till. okkar á þskj. 355.