21.03.1957
Neðri deild: 72. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

83. mál, lax- og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þær undirtektir, sem féllu frá honum undir það, að enn væri athugað rækilega í nefnd hér, hvort ekki væri ástæða til að setja enn strangari ákvarðanir eða strangari fyrirmæli í sambandi við stangarveiðina.

Hæstv. ráðh. benti á það alveg réttilega, að það er mismunandi í ánum, hve laxinn tekur vel, og að hættan af stangarveiðunum gæti verið mikil og veruleg og alvarleg, þar sem laxinn sækir í beitu eða flugu veiðimannanna.

Hv. 2. þm. Reykv. leit svo á, að nægur varnaður hvað snertir stangarveiðarnar fælist í því, að bændur, sem leigja árnar, gætu sett reglur, sem takmörkuðu þetta mjög.

Það er náttúrlega alveg rétt, að þeir geta gert það. Hitt er svo annað mál, hvort treysta má á þetta út af fyrir sig, enda finnst mér, að það væri alveg í samræmi við önnur ákvæði þessa frv., að settar væru takmarkanir á þessu. Það er alveg í samræmi við það, að í lögin eru settar takmarkanir fyrir því, hve lagnirnar megi vera þéttar. Það er ekki lagt í vald bændanna, sem réttinn eiga til veiðanna, hvað þeir megi hafa lagnirnar þéttar. Það er beinlínis ákveðið í lögunum um vegalengd á milli lagna. Þess vegna er það ekki nema alveg hliðstætt, að settar væru einnig í lögin takmarkanir fyrir því, hversu að þessu leyti skyldi haga um leigu á ám og þá alveg með sérstöku tilliti til þess, sem hér hefur verið upplýst og viðurkennt af tveimur mjög kunnugum veiðimönnum, hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Reykv., að hætta geti stafað af því, a.m.k. í sumum ánum, að of nærri sé gengið laxastofninum með stangarveiðunum. Vitanlega er ekki tilganginum náð með því að takmarka netaveiðina, ef svo er hægt uppi í ánum að ganga svo nærri stofninum, að hætta stafi af. Þessa verður fullkomlega að gæta, að það er ekkert unnið með því að hleypa laxinum upp eftir ánum, ef hann er svo dreginn upp þar í svo ríkum mæli, að hætta stafi af, því að sá lax, sem veiðist snemma sumars, er miklu verðmætari vara en sá lax, sem veiðist seinna sumars og orðinn er leginn. Ef þetta væri þannig, hlýzt ekki af þessu nema tjón.

Ég vænti þess vegna þess, svo sem ég minntist á hér í upphafi míns máls og þykist nú hafa fengið góðan stuðning um í ummælum hæstv. forsrh., að hv. landbn. athugi enn vel og rækilega þessa hlið málsins. Og það rekur þá að því, að ummæli hv. 2. þm. Reykv. um, að það sé búið að ganga svo rækilega frá þessu frv., að það þurfi ekki frekari athugunar við, fá engan veginn staðizt.