14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. landbn. tók fram, hefur nefndin ekki getað orðið sammála í þessu máli, og má í rauninni telja dálítið vafasamt, hvar meiri hlutinn er, þar sem tveir af þeim hv. þm., sem skrifa undir allt meiri hl., áskilja sér rétt til að fylgja brtt. og flytja þær.

Ég hins vegar fann það, að ég átti ekki þá samleið með meiri hl. n., að það gætu verið líkur fyrir fullu samkomulagi um afstöðu til þessa stóra deilumáls. Þess vegna hef ég leyft mér að gefa út sérstakt nál., sem er á þskj. 524, og flutt nokkrar brtt., sem eru á þskj. 525.

Það er kunnugt mál, að lög um lax- og silungsveiði hafa verið ein allra mestu deilumál og það lengi, ekki sízt síðan lögin frá 1932 um lax- og silungsveiði voru samþykkt, sem höfðu það í sér að geyma að takmarka í mjög stórum stíl eignarrétt einstaklinganna, sem veiðiréttinn hafa átt áður og eiga. Um þau lög hafa verið stórdeilur, málaferli og í sumum héruðum alls ekki verið hægt að framkvæma ákvæði þeirra laga.

Það er kunnugt mál, að frá fyrstu tíð hefur það verið talinn mikill og stór kostur á hverri jörð að hafa veiðiréttindi, og allar slíkar jarðir hafa verið seldar hærra verði og leigðar fyrir hærra gjald en aðrar jarðir, vegna þess að það hefur verið talið það mikils virði að hafa réttindi til veiða.

Nú er í vaxandi mæli að því er virðist, miðað við þetta frv., verið að skerða eignarrétt manna á þessu sviði mjög stórkostlega og það án þess að brýna nauðsyn beri til. Því er að vísu haldið fram af öllum meðmælendum þessa frv., að hér sé um mikið aukna friðun að ræða og meiri tryggingu fyrir fiskstofninn og þessi hlunnindi í framtíðinni. En að mestu leyti er þetta blekking, svo sem ég mun koma nokkru nánar að og hef sýnt fram á í mínu nál., heldur er hér aðeins um tilfærslu á rétti að ræða frá eigendum veiðiréttindanna og til þeirra manna, sem stangveiðarnar stunda og hafa fjármálalegt vald og getu til þess að veita sér þá ánægju.

Ég skal ekki langt út í þetta fara, áður en ég fer að ræða mínar sérstöku brtt. En áður en ég vík að því, skal ég leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp nokkur mótmæli, sem borizt hafa gegn þessu frv., og skal ég þá byrja á að lesa upp fyrir hv. þdm. mótmæli frá tveimur sýslunefndum í þýðingarmiklum og stórum veiðihéruðum þessa lands.

Er þá fyrst að nefna mótmæli frá sýslunefnd Mýrasýslu, sem eru á þessa leið:

„Sýslufundur Mýrasýslu 1951“ — þá var frv. í þessa átt borið fram af hv. þm. Str. — „mótmælir harðlega frv. til l. um breyt. á lögum nr. 112 9/8 1941, um lax- og silungsveiði, er fram kom á síðasta þingi, flm. Hermann Jónasson. Telur fundurinn, að frv. þetta, ef að lögum verður, skerði stórlega eignir og rétt manna til netaveiða í Hvítá og veiðisvæði hennar og öðrum ám með hliðstæðri aðstöðu til netaveiði, útiloka jafnvel einstakar jarðir frá allri veiði. Hins vegar leggur fundurinn áherzlu á, að heppilegasta úrræðið til viðhalds nytjafiski í ám og vötnum sé öflug klakstarfsemi, og telur, að hana beri að auka stórlega.“

Hér er að vísu nokkuð gömul samþykkt, en hún er mótmæli gegn sömu ákvæðum og eru í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Þá er hér samþykkt frá sýslunefnd Árnessýslu, sem gerð var í fyrra, þegar frv. lá hér fyrir Alþingi :

„Með bréfi, dags. 16. maí 1955, senduð þér, herra veiðimálastjóri, sýslunefnd Árnessýslu til umsagnar frumvarp til laga um lax- og silungsveiði.

Aðalfundur sýslunefndarinnar 1955 var þá nýlega afstaðinn, og var því ekki hægt að leggja frv. fyrir sýslunefndina fyrr en á næsta fundi hennar, sem var haldinn í maímánuði 1956. Nú hefur komið í ljós, að láðst mun hafa að tjá yður afgreiðslu málsins í sýslunefndinni, og verður að biðja velvirðingar á því. Sýslunefndin afgreiddi málið með svofelldri samþykkt:

Sýslunefndin hefur athugað frv. til laga um lax- og silungsveiði, sem Alþingi 1955 hafði til meðferðar. Telur n. frv. þetta að ýmsu leyti svo gallað, að varhugavert sé, að það sé óbreytt gert að lögum. Sem dæmi má nefna, að ævaforn réttur veiðieigenda í landinu er mjög rýrður í frv. þessu og óeðlilega mikið vald fengið í hendur veiðimálastjóra um framkvæmd laganna, einkum varðandi undanþágur, sem honum er heimilt að veita að eigin geðþótta. Það má benda á, að svo gerólík aðstaða er til veiði í ám og vötnum, að vart er mögulegt, að sömu lagaákvæði geti gilt fyrir alla staði hvað snertir vernd fiskstofns, hóflega veiði og eðlilega skiptingu milli veiðieigenda. Lítur sýslunefndin svo á, að farsælast mundi, að frv. yrði breytt á þann veg, að í því fælist svo rúm heildarlöggjöf fyrir allt landið, að ekki þurfi að grípa til undanþágu.“

Hér er víkið að mjög athyglisverðu atriði í þessu sambandi, sem ég mun koma nokkru seinna að. Þá er hér síðasta bréf, sem landbn. hefur borizt, og það er samþykkt, sem gerð var 17. f.m. á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga og er á þessa leið:

„Aðalfundur Veiðifélags Árnesinga, haldinn á Selfossi 17. apríl 1957, mótmælir harðlega frv. því um lax- og silungsveiði, sem nú liggur fyrir Alþingi, og skorar á þingið að gerbreyta því í það horf, að veiðiréttur landeigenda verði ekki skertur svo freklega sem nú er gert eftir ákvæðum þessa frv.; fáist ekki slíkar leiðréttingar, að fella þá frv. Alla tíð síðan land byggðist hafa jarðeigendur haft aðalráðin yfir veiði í landi sínu. Samkvæmt þessu frv. hefur veiðimálastjóri og ráðherra sá, sem fer með þessi mál ásamt veiðimálanefnd, að kalla óskoruð yfirráð yfir því, hvar veiða megi, á hvern hátt veiða megi og á sumum jörðum hvort nokkuð veiða megi. Með þessu er stefnt að nokkurs konar ríkisframkvæmd, sem nokkrum embættismönum í Reykjavík er falið að annast, án frekari lagafyrirmæla, og geta þeir því hagað framkvæmdinni eftir eigin geðþótta án vilja veiðieigenda. Með hinni auknu vikufriðun fyrir neta- og silungsveiði eru stangarveiði litlar skorður settar og leyft að veiða á stöng í árósum og ósasvæðum, sem áður var friðað. Jafnframt torveldar svo löng vikufriðun starf veiðifélaga, sem veiða í net eða gildrur. Verði frv. þetta að lögum í þeim búningi, sem það er, er bændum landsins, sem hér eiga hlut að máli, sýnd eindæma lítilsvirðing og þeir sviptir aldagömlum réttindum á jörðum sínum og hagsmunir þeirra stórlega fyrir borð bornir og afhentir öðrum óviðkomandi aðilum.

Þannig samþykkt á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga þann 17. apríl 1957.“

Í þessum bréfum kemur fram svipað sjónarmið og ég hélt fram í mínu nál. og er í samræmi við skoðanir margra veiðieigenda í þessu landi, og ef á að hespa þetta viðkvæma og vandasama deilumál hér í gegnum aðaldeild Alþingis nú undir þinglokin, þá finnst mér illa vera að unnið. (Gripið fram í.) Ja, það er nú talið, að það sé nú líklegt, að þingi ljúki a.m.k. fyrir hvítasunnu, en hvort það verður, það er ekki gott um það að segja. En það, sem vikið er að og er mjög viturlega sagt í ályktun sýslufundar Árnesinga, er þetta: að aðstaðan í veiðiám hér á landi og veiðisvæðum er svo gagnólík, að það er ákaflega erfitt að setja ein lög, sem gilda um þetta efni fyrir allt landið. Ég held þess vegna, að sú ábending, sem þar kemur fram, væri í rauninni mjög viturleg og ætti að takast til athugunar og það er það að setja ein heildarlög, sem væru mjög rúm, og svo væri gerð samþykkt fyrir hvert vatnasvæði í samræmi við það, sem á sér stað, þar sem veiðifélög hafa verið stofnuð.

Það, sem mínar brtt. fela fyrst og fremst í sér, er að koma á meira samræmi í orðaskýringum og réttindum til veiðanna heldur en í þessu frv. er, og er þá í fyrsta lagi það, að ég vil láta miða alls staðar í hverju vatni við sama mark og það er stórstraumsfjöruborð. Að öðru leyti vil ég láta þá vikufriðun, sem ráðgerð er, ná á sama hátt til netaveiði og stangarveiði. Hins vegar hef ég einnig tekið upp nokkrar brtt., sem fram hafa verið fluttar og sendar landbn. af fulltrúum frá veiðifélögum Borgfirðinga og Árnesinga.

Ég skal svo ekki hafa þennan formála lengri, en snúa mér að þeim brtt., sem ég flyt hér á þskj. 525, og útskýra þær fyrir hv. þdm. hverja fyrir sig.

Fyrsta brtt. er um breytingar á orðaskýringum í 1. gr. frv. og er þar fyrst að telja, að ég legg til, að orðið „kvísl“ sé útskýrt þannig, svipað og var í eldri lögum, að það væri hluti af straumvatni, sem fellur ekki í einu lagi, heldur skiptist um kletta, hólma eða sandeyrar, sem eru upp úr, þegar vatnsborð er lægst að staðaldri. Nú kemur í þessu fram eitt af stærri deilumálum, annars vegar milli mín og hins vegar milli höfunda þessa frv., og það felst í því, að þeir vilja ekki kalla kvísl neitt annað en það, sem fellur sér milli bakka, þegar hátt er í, og mismunurinn er ákaflega mikill á því, hvort miðað er við bakka, sem vatn fellur að, þegar stórstraumsflæði er, þegar það er miðað við stórstraumsfjöruborð. Í minni skýringu á ég við það, að það sé kallað kvíslar, sem falla sér, þegar lægst er í vatni, og það verði að meðhöndla veiðiréttindi í samræmi þar við.

Þá er önnur brtt., sem er b-liður í þessari 1. brtt., og það er að taka upp aftur þá orðskýringu, sem er í gildandi lögum og heitir leirur. Mín till. í því efni er alveg óbreytt frá því, sem var og er í gildandi lögum, og sannleikurinn er sá, að leirur eru svæði, sem allra sízt má halla undan, þegar verið er að skýra orð um það, hvað hér er átt við, því að eins og allir þeir vita, sem þekkja greinarmun flóðs og fjöru, eru það stór svæði meðfram öllum vötnum nálægt sjó, sem eru undir vatni, þegar hátt er í og flóð, en eru þurr, þegar fjara er. Og ef alls staðar á að miða við bakka, þá eru mörg dæmi til þess og viða um land hægt að sýna fram á, að það skiptir mörg hundruð metrum, sem er frá bakka og að stórstraumsfjöruborði vatns, þegar lægst er í. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa þetta atriði í lögunum eins og er í gildandi laxveiðilögum.

Þá er e-liður í þessari brtt., og það er um ós í sjó. Þar segir í frv., að ós í sjó sé sá staður, þar sem straumur hverfur í sjó um stórstraumslágflæði. Þetta orð er nú afar óvenjulegt í okkar máli og gæti ef til vill orðið skilið á fleiri en einn veg. En samkvæmt þeim skýringum, sem gefnar eru í grg. fyrir þessu frv., mun hér átt við stórstraumsfjöru, en stórstraumsfjara er orð, sem allir menn skilja, sem þekkja flóð og fjöru, og þess vegna miklu eðlilegra orð, en í raun og veru er þarna ekki um neina efnisbreytingu að ræða.

Þá er d-liður, að orðið ósasvæði, sem er á 2. bls. í frv., falli niður. Það að setja ósasvæði þarna inn með þeim skýringum, sem á því eru gefnar í frv., er ein hin mesta villa, sem ég hef séð, því að samkvæmt því er kallað ósasvæði inn í mið héruð, og það eru kölluð ósasvæði stór stöðuvötn víðs vegar um land. Kemur það líka mjög í ósamræmi við aðra orðskýringu í frv., þar sem það er skýrt, hvað sé stöðuvatn. Þar segir: Stöðuvatn: ósalt vatn, sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá, sem stafar af sjávarföllum, vindi eða afrennsli í leysingum. Nú er það svo, að allir þeir menn, sem þekkja, hvað er ós og hvað er stöðuvatn, vita það, að þetta er auðvitað alveg hárrétt skýring, hvað er stöðuvatn. Það er t.d. stöðuvatn í mínu héraði, Húnavatn, Miðhóp og jafnvel fleira, sem mætti tilnefna, og þetta er auðvitað rétt skýring. En að kalla það ósasvæði og meðhöndla það á þann hátt, eins og gert er ráð fyrir í þessari 1. gr. frv., það er fjarstæða og rekur sig algerlega á orðskýringuna um stöðuvatn. Með því móti mundi verða kallað ósasvæði inn fyrir Hnausa í Austur-Húnavatnssýslu, og það mundi vera kallað ósasvæði inn í Víðidal og inn í miðjan Skagafjörð. inn í Árnessýslu, upp fyrir Kaldaðarnes o.s.frv. Við vitum það, að ós er almennt talið það, sem er ós úr vatni og ós ár út í sjó. Á því eru hér eðlilegar og réttar skýringar í þessari 1. gr. frv., en þessi orðskýring um ósasvæði á að mínu áliti algerlega að falla burt.

Þá er e-liður þessarar brtt. um það, að á eftir orðunum ósalt vatn, þar sem verið er að skýra orðið stöðuvatn, sé bætt við: ofan ósa. Og þar gildir sama, að stöðuvötn eru víða mjög stór vötn, sem er rétt skýrt það, sem er ofan við ósa.

Þá er önnur brtt. og varðar afréttarlönd og er umorðun á 5. gr. þessa frv., sem er mjög teygjanleg og ekki heppilega orðuð. Það er víða svo, eins og menn almennt vita, að afréttarlöndin eru eign annaðhvort eins eða fleiri hreppa eða upprekstrarfélaga, og þá vil ég slá því föstu, sem hefur alltaf verið venja um fjöldamarga áratugi, a.m.k. meðan upprekstrarfélög hafa átt afréttarlönd, að þau eigi líka allan veiðirétt á afréttunum og það sé ekki neinum heimil veiði þar nema með leyfi þeirra sveitarstjórna eða stjórna upprekstrarfélaga, sem þar eiga hlut að máli, ekki heldur búendum á því svæði, sem upprekstrarfélagið nær yfir. Þetta atriði hefur verið margsinnis framkvæmt á þennan hátt í mínu héraði, og svo mun víðar um land, að búendum innan hrepps eða innan félagssvæðis hefur ekki verið leyfð veiði á afréttum nema fá leyfi til þess hjá sveitarstjórn eða stjórn upprekstrarfélagsins.

Þá er 3. brtt. Hún er við 8. gr. og fjallar um það, þar sem eru almenningar í vötnum. Þetta er sett inn samkvæmt kröfu Mývetninga. Ég hef ekki heyrt eiginlega talað um almenninga í vötnum annars staðar en í Mývatni, og eru þar talsverðar deilur um réttindi annarra manna til veiði í almenningi. Nú hafa Mývetningar farið fram á það, sem er mjög eðlileg krafa, að veiði í slíkum almenningum hafi þó þeir einir, sem eru í því sveitarfélagi, sem á veiðirétt í vatninu. Þeir feila sig illa við, að það megi koma menn úr öðrum sveitum eða menn úr öðrum héruðum og veiða í þeim svokallaða almenningi þeirra vatns, og óska eftir því, þó að það séu búendur á jörðum, sem ekki eiga neitt að vatninu, ef þeir eru innan sveitar, þá hafi þeir rétt í þessum almenningi, en ekki aðrir. Ég tel, að þetta sé mjög eðlileg krafa frá þeirra hálfu, og tek upp þetta ákvæði, og um það fjallar 3. brtt., báðir liðir hennar, a- og b-liður.

Þá kemur 4. till. um það, að ráðherra skuli setja reglur um gæðamat á laxi og silungi. Ég skal taka það fram, að þetta er tekið upp eftir tillögu frá veiðifélögum Borgfirðinga og Árnesinga og byggist á því, að því er haldið fram af þeim, sem kunnugastir eru þessum málum, að stangarveiddur lax sé ekki verzlunarvara til útflutnings og þess vegna sé það eðlilegt, að það sé gæðamat á laxi, þegar um útflutning er að ræða, og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.

Þá er 5. brtt., að í stað orðanna „og er ráðherra þá rétt að leyfa það að fengnu samþykki veiðimálanefndar” í 5. gr. komi: og skal þeim það þá heimilt. — Þetta er brtt. við 14. gr., og ég vildi nú óska, að hv. þm. vildu hafa hjá sér frv. og reyna að gera sér grein fyrir, hvað við er átt með þessu, sem hér er um að ræða. Þetta er í 5. málsgr., þar sem er sagt, að ráðherra geti leyft þetta. En ég ætlast til þess, að þarna sé aukin heimild þeirra, sem um er að ræða, ef á annað borð leyfð er sú veiði eða leyft að leysa hana til sín.

6. brtt. er við 15. gr., að í stað orðsins „veiðimálastjóri“ á tveim stöðum í greininni komi: veiðifélags og sýslunefndar. — Það er sömuleiðis eftir óskum og till. frá fulltrúum veiðifélaga Borgfirðinga og Árnesinga og er aðeins það, að undanþáguréttur sé í höndum veiðifélaga og sýslunefndar, en ekki veiðimálastjóra og veiðimálanefndar.

7. brtt. er við 16. gr., og fyrri hluti hennar er aðeins það, að orðið ósasvæði falli burt, sem er í samræmi við það, sem ég hef áður sagt um það, að ég vil fella það orð niður úr frv.

Þá kemur b-liður þeirrar brtt., sem er eitt stærsta atriðið í mínum brtt. og varðar miklu meira varðandi friðun í vötnum heldur en það, sem lagt er til í þessu frv. nýtt, og það er það, að öll veiði sé bönnuð í árósum. Samkv. frv. á að leyfa stangarveiði í 3–4 mánuði í öllum árósum og sjóarósum alla daga. Það er að mínu álíti áhrifameira til eyðingar fiskinum heldur en það, þó að lengdur sé um einn sólarhring friðunartími á hverri viku. Í þessu efni hefur það gilt, að það hefur verið bannað að veiða í sumum árósum, einkum sjóarósum, og sérstaklega bannað þar, sem veiðifélög eru, samkomulag um að banna bæði stangarveiði og netaveiði. Og ég vil láta það gilda yfir alla línuna, að það sé bönnuð öll veiði í árósum. Það er friðunarákvæði, sem er kannske þýðingarmeira en flestir gera sér grein fyrir:

Þá er 8. brtt., við 17. gr., að á eftir orðunum „eftir miðju vatni“ í 1. málsl. komi: þegar lægst er í. — Og það er í samræmi við það, sem ég hef áður sagt, að ég vil í gegnum öll lögin láta miða við stórstraumsfjöruborðið, þegar lægst er f vatni.

Þá er 9. brtt. að færa til, færa fram á haustið lokin á veiðitímanum. Það sýnir, að það hefur alls ekki vakað fyrir þeirri nefnd eða þeim, sem hafa fjallað um þetta frv., að auka friðunina, að þeir hafa fært veiðitímann fram á haustið, þegar veiðin er hættulegust, fært veiðitímann fram um fimm daga. Í gildandi lögum eru lok veiðitímans 15. sept. og hefur lengi veríð, en það er gert ráð fyrir skv. þessu frv. að færa hann til 20. sept. Mér fyndist miklu nær sanni að færa lok veiðitímans fram, þannig að það yrði ekki leyft að veiða lengur en til ágústloka, ef menn á annað borð vilja, að það sé aukin friðun í þessu sambandi.

Þá er ein stærsta brtt. af þessum, sem ég flyt, það er 10. brtt., við 19. gr., sem er eitt aðalþrætueplið í þessu sambandi, og ég vil færa friðunartímann í það sama horf sem hann er, að hann sé 60 stundir á viku hverri, þ.e. frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns, og það gildi jafnt fyrir netaveiði og stangarveiði.

Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að mér meira en datt í hug að leggja til að færa þennan friðunartíma alveg til, færa hann algerlega til, þannig að hann yrði settur í miðja viku í stað þess að hafa hann um helgar, því að sannleikurinn er sá, að bæði fyrir þá, sem stunda netaveiði, og eins fyrir stangveiðimenn er það ýmissa hluta vegna heldur óþægilegra að hafa friðunartímann um helgar heldur en að hafa hann í miðri viku. Og varðandi veiðina gagnvart laxi og silungi, þá lít ég svo á, að það séu ekkert helgari skepnur en fiskurinn í sjónum, og það eru engin bönn við því að veiða hann um helgar fremur en aðra daga. Nú lagði ég þó þetta ekki til. En ef það fer svo, sem ég reikna nú helzt með og teldi eðlilegast, að þetta frv. dagaði uppi nú hér á Alþ. og það yrði rætt nánar úti um landsbyggðina, þá yrði það tekið til athugunar, hvort það gæti ekki orðið samkomulag að færa friðunartímann, þennan vikufriðunartíma, alveg til, að hafa hann um miðja viku, t.d. frá mánudagskvöldi til fimmtudagsmorguns, hafa hann á rúmhelgum dögum alveg í stað þess að hafa hann um helgar.

Ákvæðinu um ádrátt vil ég ekki breyta að öðru leyti en því, að þar sem tiltekið er, að það megi ekki draga á nema tvo daga í viku og það skuli vera bundið við þriðjudaga og miðvikudaga, þá vil ég láta það vera óbundið á þeim fimm dögum, sem heimilt er að draga á, hverjir tveir dagar það séu, því að það er mjög ósanngjarnt að ætlast til þess, að það sé endilega dag eftir dag, sem heimildin til ádráttarveiði, þar sem hún er heimiluð, skuli gilda.

Þá er 11. brtt. um það, að ráðherra sé heimilt að friða heilt vatn gegn allri veiði, eins og er nú raunar í frv., en það þurfi að fá til þess samþykki, — það er sú breyting ein frá mér, að það þurfi að fá til þess samþykki veiði- eða fiskræktarfélags, þar sem þau eru til, ella sýslunefndar, en að það sé ekki hægt að gera þetta með samþykki veiðimálastjórans eins, án þess að héraðsmenn sjálfir, sem hlut eiga að máli, samþykki.

Þá er 12. brtt. alveg í samræmi við hitt, að færa fram aftur lokin á veiðitímanum um fimm daga, og sú brtt. fjallar aðeins um sölurétt á laxi og silungi, að það er reiknað með því, að það sé heimilt að selja þessa vöru fimm dögum eftir að veiðitímanum er lokið, en alls ekki lengur.

Þá er 13. brtt., við 29. gr., sem er töluvert nýmæli, og ég bið menn að taka eftir, hvað þar í felst. Það felst í því það, að ég vil hafa annan netariðil, alveg ákveðið, að það sé annar netariðill, þegar eingöngu er ætlað að veiða silung, heldur en þann, sem er, þegar eingöngu er ætlað að veiða lax. Samkv. lögunum og skv. frv. er gert ráð fyrir því, að það megi vera netariðillinn 4.5 cm milli hnúta og alveg upp úr óbreytt. Nú er það svoleiðis, að sums staðar er bönnuð öll laxveiði, og m.a. er það í okkar félagi, Veiðifélagi Vatnsdalsár. En við höfum lent í dálitlum vandræðum með þetta, að það er þarna millibil á netariðlum milli silungsneta og laxaneta, eins og allir, sem þekkja veiðiskap, vita. Hinn venjulegi og algengi netariðill fyrir silungsnet er 11/4 tomma milli hnúta, sem er sama og 4.5 cm. En hinn venjulegi laxanetariðill er 21/4 tomma eða 5.8 cm. Þarna á milli þessara tveggja marka vil ég ekki hafa leyfilegt að nota nein net, því að það er mest hættan á því, að á því bili taki slík net smálaxinn. Þess vegna legg ég til, að þetta sé alveg aðgreint, og um það fjallar bæði 13. brtt. og b-liður 14. brtt.

A-liður 14. brtt., við 34. gr., er aftur á móti um það, að það skuli vera miðað við 2/3 af breidd ár eða óss, þegar lægst er í vatni, og er það sama sjónarmið, sem ég kem þar að, eins og í fleiri brtt., sem fjalla um sama efni, því að ef á að fara að innleiða það, sem er krafa þessa frv., að miða við bakka, en ekki fjöruborð, þá veldur það stórkostlegum erfiðleikum víðs vegar um land, því að eins og ég tók fram áðan, þá er það víða svo, að það geta verið mörg hundruð metrar, sem eru leirur út að því vatni, þar sem nokkur lax og göngusilungur gengur um, þar sem er stórstraumsfjöruborð við, og ef það er ætlazt til þess, eins og hér er gert með þessu frv., að það verði að girða allt þetta svæði með netum, þá er það orðið lengra út í vitleysuna en góðu hófi gegnir, ég vil segja það. Þó að það sé ekki dæmalaust, að lax eða göngusilungur gangi á leirur og meira að segja strandi þar, þegar flæðir að, þá eru til þess ákaflega fá dæmi, að fiskurinn gangi á leirunum, heldur bara eftir álnum og það á því svæði, sem vatnið er á, þegar lægst er í vatninu.

Þá er 15. brtt. við 43. gr. og fjallar aðeins um það, að við greinina bætist, að það skuli bera undir veiði- og fiskræktarfélag, ef til er, og það mun vera till., sem ég hef tekið upp frá fulltrúum Borgfirðinga og Árnesinga og er eðlileg viðbót.

En 16. og 17. brtt. fjalla um sama efni í raun og veru við 46. og 47. gr. Í 46 gr. er gert ráð fyrir því, að það þurfi ekki nema 1/3 þeirra manna, sem hlut eiga að máli, að mæta á fundi, þegar verið er að ræða um stofnun fiskræktarfélags, og að það dugi til, að 2/3 af þeim 1/3 geti skuldbundið alla hina til þess að ganga í félagið og hlíta þeim kröfum, sem þar er um að ræða. Þetta álit ég hreina fjarstæðu og vil færa það í sama horf og á sér stað og ákveðið er, þegar stofna skal beint veiðifélag. Þetta geta menn nú borið saman og séð að er til aukins samræmis í frv., og ég verð að segja það, að mig undrar að sjá þetta svona í frv., að menn ætli að leyfa sér það, að það dugi, að 1/3 af öllum veiðieigendum mæti á fundi og 2/3 af þeim 1/3 geti skuldbundið alla hina. (Grípið fram í: Þeir geta komið í veg fyrir það með því að mæta.) Já, menn eiga nú ekki alltaf svo þægilegt með að mæta á svona fundum. Ég held, að það megi ekki vera minna mark í þessu en að það mæti þá 2/3 af þeim mönnum, sem á að skuldbinda með lögunum.

Í 18. brtt. er eiginlega um sama atriði að ræða, og er það, að það skuli þurfa 2/3 manna til þess að samþykkja, þegar á að fara að skuldbinda alla hina, í stað meiri hluta.

Í 19. brtt. er ekki að tala um annað en orðabreytingu, að breyta þessu: „ef allir félagsmenn hverfa að einu ráði“ — að í stað þess komi: ef allir félagsmenn samþykkja. — Er það ekki nein efnisbreyting í raun og veru.

20. brtt. fjallar um það og er komin frá fulltrúum veiðifélaga Borgfirðinga og Árnesinga, að það sé ekki heimilt ofar við vatn að stofna veiðifélag, nema þeim, sem eru neðar við vatnið, sé gefin heimild til þess að vera með í félaginu, ef þeir óska eftir því.

Um 21. brtt., við 70. gr., er það eitt að segja, að skv. henni er ætlazt til, að þegar ákveðin er arðsútskipting í veiðifélögum, þá sé miðað við eða lagt til grundvallar veiðimagn og veiðiarður síðustu 15 ára, enda sé líka tekið tillit til aðstöðunnar.

Þá er að síðustu 22. brtt., sem er eitt aðalatriðið í þessu máli, og það eru bætur fyrir þann réttindamissi, sem gert er ráð fyrir að menn verði fyrir af þessari löggjöf. Skv. frv. er gert ráð fyrir, að menn fái engar bætur, nema eignarrétturinn sé tekinn að fullu og öllu, 100%. Þó að það sé tekið 99% af eignarréttinum, þá eiga menn ekki að fá neinar bætur þar fyrir. Þetta tel ég hreina óhæfu og legg til, að það séu veittar bætur fyrir missi eignarréttarins, ef hann er tekinn að nokkru eða öllu leyti, enn fremur að bæturnar séu miðaðar við það, hvaða arðtap er af lagabreytingunni, og þess vegna greiddar árlega og greiddar úr ríkissjóði. Ég álít, að það sé eðlilegast, þar sem um svona stóra skerðingu á eignarrétti manna er að ræða, að það sé þá ríkissjóður, sem borgar skaðabæturnar eftir mati, og þær séu miðaðar við arðstjónið, en ekki við fasteignamat, eins og sums staðar kemur fram í þessu frv. og alla tíð hefur verið mjög lágt, eins og menn vita.

Þá hef ég í stuttu máli farið í gegnum allar þessar brtt. En annars eru þær það víðtækar, að það er nauðsynlegt fyrir hv. þm. að bera þær saman við frv. til þess að sjá, hvaða atriði það eru, sem þær eiga við, áður en til atkvgr. um málið kemur. Ég vil svo mega vænta þess, að menn láti sig ekki henda það hér í aðaldeild Alþ. að hespa þetta stóra deilumál af, án þess að það sé rækilega athugað, og eins og ég tek fram í mínu nál., teldi ég æskilegast, að málinu væri frestað og það rætt og athugað í öllum helztu veiðihéruðum landsins, áður en það sé tekið til afgreiðslu.