14.05.1957
Neðri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

83. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef lítið um mál þetta frekar að segja. Þó er eitt atriði í ræðu hv. þm. A-Húnv., sem ég vildi svara. Hann sagði, að hann vildi láta stangveiðina hlíta sömu l. og netaveiðina, þ.e., að árnar væru friðaðar fyrir stangveiði á sama tíma og þær eru friðaðar fyrir netaveiði. Menn mega þá veiða í ánum dag og nótt þann tíma, sem veiði er heimil. Þetta held ég að sé mjög mikill misskilningur hjá hv. þm., og ég er þeirrar skoðunar, að það sé meginatriði fyrir bergvatnsárnar, að laxinn fái hvíld og frið ákveðinn tíma á hverjum sólarhring. Hitt, að hann sé veiddur frá því í birtingu á morgnana og til miðnættis, er það, sem eyðileggur árnar, og er einmitt það, sem ákvæðum frv. er ætlað að koma í veg fyrir.

Hann sagði enn fremur, að það væri fyrir stangveiðimenn, sem væri verið að lengja friðunartímann í netaveiðinni. Þetta er að sjálfsögðu mesti misskilningur. Hér er ekkert gert fyrir stangveiðimenn. Hér er verið að finna leið til að vernda og hlúa að þessum dýrmætu hlunnindum, sem fylgja þeim jörðum, er liggja að laxveiðiám. Það eru auðvitað hagsmunir þeirra manna, sem jarðirnar eiga, sem lögin eru að vernda, en ekki hagsmunir þeirra manna, sem bændurnir leigja vötnin til veiða. Þess vegna er það misskilningur,að friðunin sé fyrir stangveiðimennina. Friðunin er fyrir uppárnar og þá bændur, sem þær eiga. Og þessar ár verða því dýrmætari fyrir bændurna sem laxinn hefur greiðari aðgang upp í árnar.