16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

83. mál, lax- og silungsveiði

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Við hv. þm. Mýr. (HS) höfum leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 535. Þessi brtt. miðar að því að auka friðun fyrir veiði með stöng. Hún þýðir það, að árnar verða friðhelgar fyrir allri veiði á mánudögum.

Það eru margir, sem álíta, að stangarveiði sé ekki síður hættuleg fiskstofninum en veiði í net. Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) lýsti því hér við 1. umr. þessa máls, að mjög mikið af þeim fiski, sem veiðist á stöng, sé merktur af netum, sem hann hafi komið í, en sloppið úr. Augljóst er, ef þetta er rétt, sem ég vil ekki vefengja, að þá er stöngin hættulegra veiðitæki í höndum góðra veiðimanna heldur en netin. Úr þeim sleppur talsvert mikið af fiski, en þegar hann kemur á þau svæði, þar sem hin lokkandi veiðitæki stangarveiðimannanna eru að verki, þá er fiskurinn, sem gat bjargað sér úr netunum, dreginn á land og drepinn, auk þess sem mikið magn af fiski, sem ekki kemur nærri netum á göngu sinni, sætir sömu örlögum. Það er því áriðandi upp á vernd fiskstofnsins að gera að gæta hófs um stangarveiðarnar.

Ég hygg, að í ýmsu stefni frv. þetta til hóta frá því, sem verið hefur, en hitt skyldi enginn gera sér í hugarlund, að hér þurfi ekki síðar og það bráðlega bót á að ráða, þegar reynslan segir til um, að breytingar sé þörf.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) hreyfði hér þeirri hugmynd, að eðlilegast hefði verið, að rúm heildarlöggjöf um þetta mál hefði verið gerð, en síðan hefðu verið settar sérstakar samþykktir fyrir hin ýmsu vatnasvæði, eftir því sem breytilegar aðstæður gæfu tilefni til. Ég gæti trúað, að reynslan leiddi þróun löggjafar um þetta efni í þá átt. En þótt ég sé þessarar skoðunar og þótt ég telji, að sumt í frv. hefði átt að vera með öðrum hætti, og þess vegna skrifað undir álit landbn. með fyrirvara, þá tel ég ekki rétt að fresta lengur afgreiðslu málsins. Reynslan verður svo að skera úr um það, hverra breytinga kann að verða þörf í framtíðinni.