22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

83. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Landbn. Nd. hefur orðið sammála um að flytja brtt. þá, sem er á þskj. 561, við 16. gr. Greinin mundi þá hljóða þannig, að í staðinn fyrir 2. málsgr. koma tvær málsgr., svo hljóðandi:

„Eigi má veiða fisk í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk í ósum úr stöðuvötnum þeim, er lax eða göngusilungur fer um, né 50 metra upp eða niður frá slíkum ósum.

Ráðherra getur eftir till. veiðimálastjóra veitt undanþágu að nokkru leyti eða öllu frá banni því, er ræðir um í 1. og 2. málsgr., þar sem svo hagar til, að veiði í ós eða við er eigi talin skaðvænleg.“

Eins og þessi brtt. ber með sér, er hér tekið upp orðrétt sama ákvæði og var og er í gildandi lögum, þ.e.a.s., það er tekið upp það, sem við á, úr 15. gr. núgildandi laga.

Verði þessi brtt. n. samþ., þá gildir að sjálfsögðu bann við því að veiða með stöng í árósum eða ósum í stöðuvötnum. Um þetta atriði í frv. hefur verið allmikið deilt, og n. gat fyrir sitt leyti fallizt á þessa breytingu og þar með gengið til móts við þá, sem mest höfðu út á það atriði frv. að setja, sem var það, að veiða mætti á stöng o.s.frv. í árósum og víðar.

Þá hefur landbn. enn fremur orðið sammála um að leggja hér fram skrifl. brtt. við frv., við 18. gr., að upphaf greinarinnar orðist svo:

„Lög þessi öðlast gildi 1. október 1957, og eru jafnframt úr gildi numin“ o.s.frv.

Orsakirnar fyrir því, að við flytjum þessa brtt., eru þær m.a., að nú þegar er lax- og silungsveiði hafin, og að dómi þeirra manna, sem bezt telja sig þekkja til, mun vera allmiklum örðugleikum bundið að láta lögin ná til veiðitímabilsins í sumar. Að öllu athuguðu gat n. fyrir sitt leyti gengizt inn á það, að l. öðluðust ekki gildi fyrr en 1. október 1957.

Aðrar brtt. flytur n. ekki, og sé ég ekki ástæðu til að svo komnu máli að orðlengja frekar um þetta mál, en vil endurtaka það, að meiri hl. landbn. Nd. mælir eindregið með því, að þessar brtt. verði samþ. og frv. í heild.