24.05.1957
Efri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2121 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

83. mál, lax- og silungsveiði

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú gert grein fyrir því, sem hefur gerzt í hv. landbn. út af þessu máli tvo síðustu dagana, og þarf ég ekki að bæta neinu verulegu við það, nema því, sem hann lét niður falla. Hann hefur sennilega gleymt því, að ég var ekki alveg sammála öðrum nm. í morgun, og er það auðvitað ekki heldur enn. Ég er ekki sammála þeim um það, að það taki því að vera að hrekja þetta mál til Nd. aftur fyrir ekki meiri breytingar en nú eru hér á ferðinni.

Eftir að við endurskoðuðum till., sem við samþ. í gær, og búið er að koma þeim í nýjan búning, þá sýnist mér breytingin vera svo lítil, að það taki því ekki að vera að láta málið ganga aftur til hv. Nd.

Hv. frsm. segist hafa þá trú, að málið gangi nú fram og hv. Nd. samþykki það með þessari breyt., sem nú er flutt. Ja, ég get ekkert við því sagt, hvaða trú hann hefur; ég hef um það enga trú og veit ekkert um það, hvernig um málið fer, þegar það kemur til hv. Nd. á eftir. Ef um það verður mikill ágreiningur, eins og hefur orðið nú að undanförnu og eins og búið er að vera um þetta mál árum saman, bæði innan þings og utan, en nú loksins virðist vera kominn sæmilegur friður um lausn á málinu í heild, þá sé ég ekki, að þessi ávinningur með breytingunni sé mikill, þó að hann út af fyrir sig sé réttmætur.

Það er líka á það að líta, að þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en í október, m.ö.o. þau gilda alls ekkert fyrir þetta veiðitímabil, sem nú er að byrja, og ef mönnum sýnist alveg aðkallandi að breyta þessari einu gr., sem ágreiningur er nú um, 35. gr., þá er það þó annað mál að taka málið aftur upp á næsta þingi til að breyta einni grein heldur en að eiga það jafnvel á hættu, að málið gangi nú ekki fram, og verða að taka allt málið upp aftur. Það er þetta, sem ég óttast. Það er ekki ágreiningur um efnishlið þessarar till., sem nú er flutt, heldur hitt, að þetta kunni að verða afleiðingar af því, ef við förum að samþ. hana.

Ég verð af þessum ástæðum að greiða atkv. gegn tillögunni, ekki vegna þess, að ég sé á móti efni hennar, heldur vegna hins, eins og ég sagði áðan, að ég óttast, að þetta verði til að stöðva málið á þessu þingi.