23.11.1956
Neðri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

51. mál, búfjárrækt

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Form. landbn., hv. þm. Dal. (ÁB), sem vegna fjarveru getur ekki haft framsögu hér í þessu máli, bað mig að mæla hér fáein orð, um leið og málið yrði tekið á dagskrá.

Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 56 til 1. umr., er frv. til laga um búfjárrækt og var sent landbn. frá Búnaðarfélagi Íslands, og hafði búnaðarþing fjallað um málið. Að meginefni er frv. samhljóða lögum um búfjárrækt frá 1948, en hefur þó að geyma ýmsar breytingar, sem ætlað er að muni efla og styrkja búfjárrækt landsmanna, ef að lögum verða.

Í grg., sem fylgdi frv. og prentuð er með því, er skýrt frá, að hverju stefnt er með breyt. þeim frá eldri búfjárræktarlögum, sem hér eru ráðgerðar. Nokkurn kostnaðarauka munu sumar þessar breytingar hafa í för með sér fyrir ríkissjóð og bændur, en ekki er sá kostnaðarauki stórvægilegur.

Landbn. hefur ekki enn gefizt tóm til að kynna sér frv. þetta til hlítar, svo að álit frá n. liggur ekki fyrir við þessa umr. Hafa nm. því áskilið sér óbundinn rétt um afstöðu til málsins og einstakra atriða þess.

Á þessu stigi hef ég ekki um þetta fleiri orð, en leyfi mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr., og mun n. taka málið til athugunar fyrir 2. umr.