27.05.1957
Efri deild: 110. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

51. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál er til d. komið frá Nd., þar sem voru samþykktar við það nokkrar breytingar. Inn í þingið er það komið eftir beiðni frá stjórn Búnaðarfélags Íslands, en búnaðarþing hafði málið þar til meðferðar, ásamt þeim starfsmönnum Búnaðarfélagsins, sem með framkvæmd málsins hafa að gera og sömdu frv., sem svo var sent landbn. Nd., sem lagði það fyrir þingið.

Breytingarnar, sem í þessu frv. felast frá gildandi búfjárræktarlögum, eru ekki margar né miklar. Landbn. þessarar d. hefur farið yfir frv. og leggur til, að það sé samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd.

Ég skal nú með örstuttu máli reyna að gera grein fyrir helztu breytingunum, sem felast í frv. frá eldri búfjárræktarlögum.

Ég vil fyrst láta í ljós gleði mína yfir því, að frv. skuli koma hér fram í heilu lagi, en ekki koma fram sem brtt. við gömlu lögin. Það er miklu handhægara fyrir alla menn, sem þurfa að nota lög, að hafa allt, sem gildir í viðkomandi máli, í einu og sama frv., en þurfa ekki að leita fyrst í frv., sem var samþykkt einhvern tíma aftur í grárri forneskju, og svo að breytingum og breytingum og enn þá hreytingum, sem gerðar hafa verið á gildandi lögum á einum fjórum, fimm, sex stöðum. Þetta er ákaflega mikill kostur, og ætti yfirleitt að reyna að taka þann sið upp á Alþingi að láta lagabálka halda sér, breyta öllum lögunum og færa breytingarnar inn í þau, en ekki að vera með lögin á mörgum stöðum. Þetta hef ég sagt oft áður hér í d., svo að menn vita mína skoðun á þessu.

Í frv. í heild eru á allmörgum stöðum nokkrar orðabreytingar og breytingar, sem allar hníga í þá átt að skapa möguleika til þess, að búfjárræktarfélögin, sem núna eru þrenns konar eða jafnvel ferns konar í búfjárræktarlögunum, geti sameinazt í eitt. Það er gert ráð fyrir því, að búnaðarsamböndin geti gert með sér samþykktir um búfjárrækt yfirleitt og þá sameinist félögin, sem núna eru í mörgum sjálfstæðum pörtum, eins og nautgriparæktarfélög, hrossaræktarfélög, sauðfjárræktarfélög o.s.frv. Þetta er til mikilla bóta og snertir ekki lögin eða snertir ekki framkvæmdina að öðru leyti en því, að hún verður einfaldari, og þá fellur niður það, sem áður hefur verið heimilt, að hafa ráðunauta í sérstakri búgrein. Þannig hafa nautgriparæktarsamböndin fengið leyfi til þess að hafa ráðunauta bara í nautgriparækt og hinar búfjárræktargreinarnar á því svæði þá orðið útundan. Þetta hverfur eftir því sem smákemst á hjá búnaðarsamböndunum að koma í eitt þeim félagsskap, sem um ræðir í búfjárræktinni, og þetta er þess vegna mikið til bóta.

Þá er gert ráð fyrir því, að það gildi sömu reglur um þá ráðunauta, sem eru úti í héruðunum í búnaðarsamböndunum, í búfjárræktinni, og nú gilda í jarðræktinni. Þegar jarðræktarlögunum var síðast breytt, var breytt dálítið fyrirkomulagi á launum ráðunautanna, ríkissjóður látinn borga meira, eða helming af launum þeirra, en áður hafði hann greitt 2/5. Nú er hann látinn borga helming líka af launum búfjárræktarráðunautanna. Þeir eru enn sem komið er ákaflega fáir. Ráðunautarnir eru launaðir eftir VIII. launaflokki, ef ég man rétt, bæði í búfjárrækt og jarðrækt. Það gengur heldur illa að fá menn fyrir þau laun. Við höfum samt ekki hækkað þetta, heldur látið þá vera áfram í VIII. flokki. En sannleikurinn er sá, að mörg búnaðarsamböndin hafa orðið að bæta við, borga hærri laun en svarar til VIII. flokks, allt upp í VII. flokk og jafnvel enn hærra. Þetta breytir ekki neitt öðru en hlutfallinu, sem ríkið greiðir á móti. Og vitanlega greiðir ríkið aldrei meira á móti en það, sem launin eiga að vera eftir lögunum, þó að eitthvert búnaðarsamband hafi orðið að borga sínum ráðunautum hærri laun, eins og a.m.k. þrjú af þeim gera, sem núna hafa héraðsráðunauta.

Þá er það sett inn í lögin, að á milli þeirra sýninga, sem ákveðið var í gömlu lögunum að halda fjórða hvert ár, bæði í nautgriparækt og sauðfjárrækt, er gefin heimild til þess, að haldin sé sýning á miðju tímabilinu þar á milli. Á þeirri sýningu á ekki að sýna annað en skepnur, karlkyn, sem er orðið það gamalt, að það þarf að fá úr því skorið, hvort afkvæmi þess, sem þá er uppkomið, komið upp á milli tímans, sem sýningarnar eru haldnar, sé það gott, að ástæða sé til að halda í skepnuna áfram. Þetta gildir í sauðfjárræktarfélögunum, þar sem það er skylda að halda þessar sýningar mitt á milli aðalsýninganna, og í nautgriparæktinni, þar sem til verða smám saman kýr undan nautum, sem farnar eru að mjólka á milli sýninganna og af má sjá erfðaeðli föðurins. Þetta eykur í sjálfu sér ekki framlög ríkissjóðs að öðru leyti en því, að Búnaðarfélag Íslands er farið að láta menn mæta á þessum sýningum. Það eykur þess útgjöld, sem svo verka aftur óbeint á það, hvað það þarf frá Alþingi. En þörfin á þessum sýningum er ákaflega mikil. Það er ákaflega nauðsynlegt fyrir mennina, sem eiga skepnurnar, og sveitirnar, sem skepnurnar eru í, að fá úr því skorið, hvort þ:er eru þess verðar, sem menn hafa haldið fyrir tveimur árum að þær væru, en nú sést með vissu, eftir að upp eru komin undan þeim afkvæmi, sem sýna, hvað þau hafa erft frá þeim svona nokkurn veginn.

Þá hefur verið sett hér inn ákvæði í sauðfjárræktarkaflann, sem er um það, að það sé heimilt, ef ráðunautur Búnaðarfélags Íslands telur ástæðu til, að koma á samanburði milli systra undan ákveðnum hrútum; það sé heimilt að semja um það víð eitthvert sauðfjárræktarfélag, sem langar til að reyna að prófa dætur nokkurra hrúta, sem ágætir eru taldir, og vita hver reynist bezt; þá sé heimilt á allt að 50 stöðum á landinu að koma upp slíkum samanburði á systkinahópum, sem þá mega vera 10 í hverjum hóp og eiga svo að fóðrast og fara eins með að öllu leyti í 3 ár. Þá á að fást úr því skorið, hvort þessi eða hinn hrúturinn er beztur. Til þess arna má verja 50–100 kr. á hvert bú, og ef það er notað til fulls, þá eru það 50 bú, sem geta fengið þennan styrk til þess arna. Ég tel þetta töluvert mikið atriði, og við erum sammála um, að þetta sé til bóta og geti gefið jákvæðar upplýsingar.

Þá er grunnstyrkur til sæðingarstöðvanna hækkaður úr 15 þús., eins og það var í lögunum, upp í 20 þús. Það er þó nokkuð deilt um þessar sæðingarstöðvar. Þeir, sem tala þar mest á móti, flimta með það, að það sé með þessu verið að borga bændunum nautstollana, sem þeir annars þurfa að borga, þegar þeir fá kálf í sínar kýr, og á sama hátt með ærnar, þegar um sæðingu hrúta er að gera, og aðrar skepnur hafa ekki verið sæddar enn þá hér á landi. En það er ákaflega mikils virði, þegar maður hefur orðið gott dýr, dýr, sem maður veit að er gott, — þá er ákaflega mikils virði að geta fengið undan því sem allra flesta einstaklinga. Kannske sést það bezt með því að taka dæmi.

Við höfum átt í okkar nautastofni eitt naut, sem Máni hét og var kenndur við bæ, sem Kluftir heita uppi í Hrunamannahreppi. Undan honum komu 86 dætur, sem urðu fullorðnar kýr og voru á ýmsum bæjum, ekki einu sinni allar í hreppnum, heldur utan hreppsins nokkrar í nálægum hreppum tveimur, og þessar dætur mjólkuðu hver einasta hærra en mæður þeirra, og voru þó valdar undir hann beztu kýrnar, sem menn áttu, og að meðaltali gáfu þær hátt á annað þús. fitueiningar meira en mæðurnar gerðu og allar hærra en mæðurnar, og dætur Mána gáfu á annað þús. kr. meiri tekjur á ári fyrir sitt fóður en mæðurnar gerðu. Allar dætur Mána gáfu eigendum sínum um 160 þús. kr. meiri tekjur á ári hverju en þær hefðu gert, ef þær hefðu verið eins og mæðurnar.

Hefði þá verið sæðingarstöð, sem hefði getað sent sæði úr Mána, ekki í þessar kýr, sem voru í hreppnum, sem hann var notaður í, heldur til að sæða með kýr annars staðar, þá hefði það getað hækkað meðalarðinn af kúnni á Suðurlandsundirlendinu, en þar mátti sæða með sæði úr Mána, geysilega mikið. Ég tel þess vegna, að það sé mjög fjarlægt að segja, að sæðingarstöðvarnar séu eingöngu til þess að borga kýreigendunum nautstolla. Þær eru til þess að reyna að tryggja það, að beztu gripirnir séu notaðir sem allra mest, og til að fá sem flest afkvæmi undan þeim og mikinn arð af viðkomandi gripum og auknar tekjur af kúnum.

Þá var kaflanum um fóðurbirgðafélög breytt í einu atriði, um fóðureftirlitið. Það var svo, þegar það var stofnað fyrst, að það var ekki hægt fyrir þá menn, sem áttu að hafa athugun á því heima í hreppunum, hvort sem þeir voru frá fóðurbirgðafélagi eða kosnir af hreppsnefndinni, af því að ekkert félag var til, — þá var ekki hægt fyrir þá að gera neinar verulegar ráðstafanir, ef fóðurleysi var hjá einhverjum manni. Þeir áttu að sjá um, að fóður væri til, en þeir höfðu ekki vald á því að kaupa fóður á kostnað skepnueigandans, ef hann vildi ekki gera það sjálfur, eða taka skepnurnar af honum og koma þeim fyrir, eða taka þær af honum og drepa þær, ef ekki var völ á að útvega neins staðar fóður. Þeir höfðu ekki vald á þessu. Fyrir nokkru var eftir tillögu Lárusar á Klaustri sett inn brtt. við þetta ákvæði, sem stóð í nokkur ár og var aldrei notað í framkvæmd. Þegar síðar var breytt búfjárræktarlögunum, var þetta fellt út aftur, af því að það hafði ekki verið notað. Nú er þetta tekið upp, þó í nokkuð breyttri mynd. Það er tekið upp núna þannig lagað, að ef forðagæzlumaður verður var við það, að vanti ákveðið fóður á einhverju heimili eða maðurinn er kannske að verða eða er orðinn alveg heylaus, þá er það fyrsta, sem hann á að gera, að skýra manninum frá, hvernig ástatt er fyrir honum, sem hann venjulega veit um sjálfur áður, og gefa honum hálfs mánaðar frest til þess að útvega sér fóður og kippa þessu í lag. Ef hann ekki getur það sjálfur á þeim hálfs mánaðar fresti, hefur hreppsnefndin leyfi til að gera hvað sem henni sýnist í samráði við sýslumann til þess að tryggja fóður fyrir skepnurnar. Þetta er dálítið mildara en ákvæðið, sem Lárus setti inn, því að þá átti samtímis bara að lóga, ef ekki væri hægt að fá fóður, enda var hann ekki að hugsa um annað en koma hlutunum í framkvæmd, þegar eitthvað var, sem honum fannst rétt að gera. En nú er manninum gefinn frestur til að koma öllu í lag, og noti hann ekki frestinn, þá fyrst kemur hreppsnefnd og sýslumaður til.

Sem sagt, eftir að hafa farið í gegnum þetta, þá lítum við þannig á í landbn., að það sé rétt að samþ. frv. eins og það kemur frá Nd. Ég get ekki sagt, hve mikinn kostnaðarauka það hafi í för með sér, því að það getur enginn sagt, hvað margir héraðsráðunautar verða, þegar öll búnaðarsambönd eru búin að fá sér þá. Það veit ég ekki, þeir eru líklega 4–5 núna, en gætu orðið einir 11–12, eitthvað svoleiðis, og sú útgjaldaaukning, sem kemur af því, að ríkið þarf að borga helming af launum þeirra í stað 2/5, kemur smám saman, eftir því sem þeim fjölgar, en hver hún verður endanlega, veit ég ekki. Á sama hátt er t.d. með þennan samanburð, sem ég var að nefna á gæðum ánna eða hrútanna, hvernig ærnar reyndust undan hrútunum. Það má gera það á 50 stöðum á landinu, núna er það ekki gert nema á einum. Hvenær þeir verða orðnir 50 og hvenær kemur sú aukning, — ég reyni ekki að gera neina áætlun, — það hefur einhver gert áætlun um það og segir, að það sé eitthvað á annað hundrað þús., þegar allt sé komið til framkvæmda. Það er vel til, ég þori hvorki að neita því né játa. Ég legg það ekki á mig að reyna að gera það, því að það er hugsanaáætlun út í framtíðina, sem enginn getur sagt um. Við leggjum sem sagt til, að frv. sé samþ. óbreytt.