16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

123. mál, hlutafélög

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseli. Minni hl. allshn., hv. þm. Ak. (FS) og ég, mælir með því á þskj. 495, að frv. til l. um breyt. á l. nr. 77/1921, um hlutafélög, verði samþykkt óbreytt að efni til, aðeins gerð á því sú orðalagsbreyting, að í stað „bæjar- eða sveitarfélög“ í 1. gr. komi: sveitarfélög.

Í frv. er aðeins gert ráð fyrir breytingu á einu atriði í hlutafélagalögunum. Í 31. gr. þeirra laga segir svo m.a.: „Enginn hluthafi getur þó farið með meira en 1/5 samanlagðra atkvæða í félaginu.“ Er í frv. lagt til, að við þennan málslið bætist svofelld aukasetning: nema eigendur hlutabréfanna séu ríkið eða ríkisstofnanir, bæjar- eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða samvinnufélög.

Ákvæðið um, að enginn hluthafi mætti fara með meira en 1/5 samanlagðra atkvæða, mun hafa verið sett til þess, að enginn einn einstaklingur gæti með fjármagni sinu borið fleiri einstaklinga ofurliði. Það var sett á þeim tíma, þegar hlutafélög voru yfirleitt mynduð af einstaklingum. En tímarnir breyttust, og það varð algengt, að sjálft ríkið eða sveitarfélög gerðust hluthafar í félagi, sem einstaklingar áttu einnig aðild að.

Þessar stofnanir gilda þar ekki meira en hver einstaklingur, enda þótt þær samanstandi af hundruðum eða þúsundum manna. Með þessari breytingu tók ákvæðið um 1/5 samanlagðra atkvæða að verka öfugt við tilgang sinn, þannig að í skjóli þess geta fáir fjársterkir einstaklingar ráðið meiru en fjöldi einstaklinga, sem raunverulega eru hluthafar.

Þessa þróun hefur löggjafinn löngu komið auga á og í nokkrum tilvikum hagað ákvæðum samkvæmt henni. Árið 1930 voru sett lög um Útvegsbanka Íslands h/f, og segir þar, að á hluthafafundum félagsins skuli engar takmarkanir vera á atkvæðisrétti að því er hlutafé ríkissjóðs snertir. Hið sama kemur og fram í lögum frá 1949 um áburðarverksmiðju. Þar skulu engar takmarkanir vera á atkvæðisrétti að því er hlutafé ríkisins snertir.

Með hliðsjón af þessum ákvæðum nýrri laga varðandi nokkur hlutafélög finnst mér eðlilegt og raunar sjálfsagt, að hinu úrelta ákvæði í hlutafélagalögum frá 1921 verði sem fyrst breytt til samræmis við hina breyttu tíma, og það má gera nú þegar með því að samþykkja lagafrv. á þskj. 270.

Flestir munu á einu máli um, að lögin um hlutafélög þarfnist heildarendurskoðunar. Hafa þegar verið stigin spor í þá átt á síðari þingum og frumvörp verið lögð fram, en ekki fengið afgreiðslu. Er ekki að vita, nema það geti dregizt talsvert enn, að ný hlutafélagalög verði samþykkt. Með því að samþykkja breytingu þess ákvæðis, sem hér er um að ræða, yrði einum ágallanum færra í þessum gömlu lögum og því ekki eins tilfinnanlegt, þótt heildarendurskoðun dragist enn um hríð.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að mæla með frv., og hið sama hefur framkvæmdastjórn Sambands ísl. samvinnufélaga gert. Hins vegar hefur stjórn Lögmannafélags Íslands, sem allshn. einnig óskaði umsagnar frá, ekki getað mælt með samþykkt frv. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur hliðrað sér hjá að láta í ljós skriflegt álit, og veit ég ekki um ástæðu til þess.

Í þessu máli eins og víðar takast sennilega á öfl félagshyggju annars vegar og öfl einstaklings eða sérhyggju hins vegar, og fer þá um frv. eftir því, hvor meir mega sín nú að þessu sinni.