16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

123. mál, hlutafélög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki skilið þær röksemdir, sem fram eru komnar fyrir því, að ekki megi samþykkja þetta frv. Mér skilst, að þær séu þá helzt þær, að nýtt frv. sé á ferðinni. Hvar það er á ferðinni, það veit ég ekki. Það er í einhverri skúffu einhvers staðar. Hvenær það kemur fram, það veit enginn, hvenær það verður samþykkt, það veit enginn, og hvernig það verður samþykkt, það veit náttúrlega heldur enginn. Það getur orðið langt að bíða eftir því. Hins vegar er mér það ljóst og vil undirstrika, að það er rétt, sem segir í nál. meiri hl., að það er full þörf á að endurskoða lög um hlutafélög. En ég sé ekki, að það sé þörf á því að hindra þessa breytingu á lögunum, þó að hitt standi óhaggað, að endurskoða þurfi þau í heild. Það er vitað, að það er mjög mikilsvert atriði fyrir ýmis héruð og ýmsan atvinnurekstur, að þessi breyting fáist.

Hv. 1. þm. N-M. hafði orð á því, að hann óttaðist, að einstaklingar legðu ekki fé í hlutafélög, ef þeir ættu engu að ráða, heldur réðu bæjarfélag, ríki eða samvinnufélag, sem kynni að vera meðeigandi. En ég vil þá snúa þessu við: Er þá ekki hætta á því, að þessar stofnanir, bæir, ríki og samvinnufélög, leggi ekki fé í hlutafélög, mikilsverðan atvinnurekstur ef til vill, ef þau eiga engu að ráða? (PZ: Þau hafa gert það.) Þau hafa gert það, en það kemur fram í sambandi við þetta frv., að það er álit Sambands íslenzkra samvinnufélaga, að það þurfi einmitt að breyta þessu. Og sú eina bæjarstjórn, sem hefur verið spurð um það, að mér skilst, bæjarstjórn Akureyrar, telur líka fulla þörf á því. Ég fæ því ekki séð, að það sé nein ástæða til þess að hafa á móti þessari breytingu, enda þótt það standi óhaggað, sem meiri hlutinn segir, að það er full þörf á að endurskoða lögin í heild.