16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

123. mál, hlutafélög

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. bar það fram sem helztu rök gegn þessu frv., að í fyrsta lagi mundi það ekki geta verkað á starfsemi þeirra félaga, sem nú eru starfandi, og benti í því sambandi á 31. gr. laganna.

Ég vil nú ekki algerlega fullyrða um þetta, en hitt er mér kunnugt um, að meðal lögfræðinga eru alveg skiptar skoðanir um þetta, og mundi ekki geta fengizt úr þessu skorið nema með hæstaréttardómi. En það er skoðun mjög margra lögfræðinga, að þessi ákvæði mundu fyllilega halda gagnvart þeim félögum, sem nú eru starfandi.

Í öðru lagi benti hann á, að það mundi vera erfiðara að fá fjárframlög frá fésterkum einstaklingum í ýmsum bæjarfélögum, ef áhrif þeirra væru ekki tryggð á sama hátt og verið hefur. En ég verð nú að segja það, að slík félagsbú geta orðið vafasöm, ef jafnframt á að eiga það á hættu, að einn eða tveir einstaklingar geti ráðið með miklum minni hluta hlutafjár að baki sér yfir því fé, sem almenningur leggur af mörkum til slíkra félaga.

Ég vil ekki á nokkurn hátt andmæla þeirri skoðun, sem hefur komið fram hjá meiri hluta allshn. og þeir tveir fulltrúar meiri hlutans, sem hafa talað, hafa lagt áherzlu á, að það þurfi að endurskoða í heild lögin um hlutafélög frá 1921. Þvert á móti eru augljósir gallar á þeirri löggjöf, sem stafa af þeim stórfelldu breytingum, sem hafa orðið í öllu atvinnu- og viðskiptalífi, síðan þessi lög voru sett. Um þetta atriði held ég að sé ekki mikið deilt, enda munu allir þingflokkar hafa verið í öllum aðalatriðum sammála um þær breytingar, sem voru fyrirhugaðar á lögunum 1953 með stjfrv., sem þá var borið fram, en dagaði uppi. Hitt tel ég algera rökleysu, að telja nauðsynina, sem kann að vera á almennri endurskoðun þessara laga, vera fullgilda ástæðu til þess að bregða fæti fyrir mjög einfalda og sjálfsagða leiðréttingu á því atriði, sem þetta frv. fjallar eingöngu um, þeim galla, sem nú þegar og raunar fyrir löngu er orðinn til vandræða, sérstaklega fyrir einstök bæjarfélög, og miklar líkur eru á, að geti hvenær sem er valdið samvinnufélögum og ríkisstofnunum ýmsum erfiðleikum um rekstur sinna fyrirtækja.

Mér finnst það vera næsta augljóst, að hvort sem þetta frv. verður samþykkt eða fellt, hefur það engin áhrif á það, hvort ríkisstj. lætur undirbúa nýja heildarlöggjöf um þetta efni eða ekki. Og þess vegna er engin ástæða til þess af þessari sök að firra hv. þingdeild þeim vanda að taka afstöðu til málsins sjálfs, eins og það liggur fyrir, svo einfalt sem það er.

Þessi rökstudda dagskrá, sem meiri hl. ber fram, leggur heldur engar kvaðir á hæstv. ríkisstj. um endurskoðun hlutafélagalaganna. Ef áhugi hv. meiri hl. allshn. væri slíkur sem maður gæti ætlað eftir orðum þeirra um þessa endurskoðun, þá væri rétta leiðin fyrir þá að flytja þáltill., sem fæli ríkisstj. að framkvæma endurskoðun og leggja frv. fyrir næsta þing, og slíka þáltill. væri auðvitað hægt að samþykkja, hvernig sem fer um afgreiðslu þessa frv. Rökstudda dagskráin, eins og hún liggur fyrir, mundi því aðeins hafa eitthvert gildi til að flýta fyrir endurskoðun, að eitthvað lægi fyrir frá ríkisstj. um það mál, en svo mun ekki vera. Dagskrártillagan er því líka að þessu leyti út í bláinn.

Sé hins vegar svo, að hv. meiri hl. sé algerlega andstæður þessari breytingu á lögunum, ætti heldur ekkert að vera því til fyrirstöðu að fella till. og láta atkv. ganga um sjálft málið, og vænti ég þess, að svo verði gert.

Efnislega hefur þetta frv. verið svo rækilega skýrt og einnig ástæðurnar fyrir flutningi þess, að ég tel ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum.

Kjarni málsins er sá, að verndaður verði réttur hinna fjölmörgu smáu hluthafa, sem lagt hafa fé í atvinnurekstur eða verzlun gegnum fjöldasamtök eins og samvinnufélögin eða í gegnum bæjarfélög og ríkisstofnanir, að verndaður verði réttur þeirra, sem þannig eiga aðild að ýmsum fyrirtækjum, gagnvart fésterkum einstaklingum og hugsanlegri ágengni þeirra, sem vegna úreltrar löggjafar hafa þar ósanngjarnlega og óeðlilega mikið vald. Eins og við flm. bentum á í grg., er enginn vafi á því, að sú hugsun hefur legið að baki takmörkunarinnar á atkvæðisréttinum á sinum tíma við 1/5, þegar lögin voru upphaflega samin, að sporna við óeðlilegu og óæskilegu valdi einstakra fésterkra manna og auka áhrif hinna mörgu féminni hluthafa, og eins og aðstæðurnar voru þá, þegar þau lög voru sett, var þetta eðlileg aðferð, sem þar var við höfð. En eins og sjá má á lögunum, var þar alls ekki reiknað með því, að samvinnufélög, bæjarfélög eða ríkisstofnanir gætu verið þátttakendur í hlutafélögunum, og enn eru lögin í því horfi, að þessir aðilar geta ekki verið stofnendur að slíkum félögum. Fram hjá þeim agnúum laganna hefur þó verið hægt að sneiða eftir krókaleiðum, sem að vísu eru óviðfelldnar, þannig t.d., að einstaklingar séu taldir stofnendur, en þeir selji síðan þessum aðilum sína hluti að meira eða minna leyti. En fram hjá takmörkunarákvæðunum hefur verið erfiðara að komast fyrir þessa ópersónulegu aðila, en það er næsta auðvelt fyrir einstaklinga.

Enginn hlutur er auðveldari fyrir einstakling heldur en að láta konu sína, börn eða aðra venzlamenn eiga svo og svo mikið af því fé, sem hann raunverulega hefur yfir að ráða, og tryggja sér þannig alger yfirráð, einkayfirráð í hlutafélagi. En fyrir samvinnufélögin, bæjarfélögin og ríkisstofnanir eru þvílíkar aðferðir bæði óviðeigandi og óeðlilegar og í mörgum tilfellum líka algerlega óframkvæmanlegar.

Bæjarfélögin hafa reynt þá leið að láta einstakar bæjarstofnanir eiga sinn hlutann hverja, en sú aðferð hefur með hæstaréttardómi, sem dæmdur var í máli einstaklinga gegn Útgerðarfélagi Akureyringa h/f fyrir nokkrum árum, verið dæmd ólögleg. En málsatvik í því máli voru þau, að hafnarsjóður bæjarins var skráður hluthafi að 1/4 hlutafjárins í félaginu, en bæjarsjóður að öðru leyti eigandi 1/4. Hæstiréttur leit svo á, að þarna væri um einn og sama aðilann að ræða og gætu þessir tveir skráðir hluthafar ekki farið samanlagt með meira en 1/5 atkv., og við þennan dóm hefur setið til þessa.

Í mjög mörgum bæjum og þorpum landsins er mjög líkt ástatt um það, að stærstu atvinnufyrirtækin, sem oft halda uppi atvinnulífinu að miklu leyti, eru byggð upp sem hlutafélög, þar sem bærinn er aðalhluthafinn, en flestir aðrir hluthafar eru það smáir, að útilokað er, að atkv. þeirra notist að nokkru til að hafa áhrif eða vald í félögunum. Atkvæðamagnið í slíkum félögum, sem ræður úrslitum, er í hendi bæjarfélagsins og þá, ef um er að ræða, einstakra fárra manna, sem hafa meiri fjárráð en almennt gerist. Einn eða tveir eða fleiri slíkir einstaklingar, sem geta notað atkvæðisrétt sinn í fullu samræmi við eign sína, geta því hæglega náð yfirtökum í slíkum félögum vegna þess, hve réttur bæjarfélagsins er skertur með takmörkunarákvæðunum. Þetta fyrirkomulag verður enn ósanngjarnara og fráleitara, þegar það er haft í huga, að hvenær sem á móti slíkum hlutafélögum blæs eitthvað fjárhagslega, verður það bæjarfélagið og almenningur í bæjunum, sem verður að bera byrðarnar af því, og oft og tíðum á þann hátt að leggja á útsvör til styrktar rekstrinum eða ganga í stórfelldar ábyrgðir, sem geta numið margföldu hlutafénu. Ég get nefnt dæmi um hlutafélag, þar sem bæjarfélag á helminginn, um 2 millj., að þá er viðkomandi bæjarfélag jafnframt í 16 millj. kr. ábyrgð fyrir þetta sama hlutafélag og hefur lánað því upphæðir með litlum tryggingum, sem nema meiru en hlutafénu. Samt sem áður hefur þetta bæjarfélag enga tryggingu fyrir því að geta ráðið fyllilega rekstri þessa félags. Þó að það kunni að vera rétt, sem hv. frsm. meiri hlutans sagði, að það væri engin brýn almenn þörf fyrir breytingu á þessu, þá veit ég þó, að það eru aðstæður í einstökum bæjarfélögum, sem gera þessa breytingu mjög brýna. Mér finnst það næsta augljóst, að í hlutafélögum, sem eru byggð upp af bæjunum, mörgum smáum hluthöfum og kannske einstökum stórum, getur almenningur ekki haft áhrif sín á rekstur þessara fyrirtækja nema í gegnum atkvæðisrétt í bæjarstjórnarkosningum og í gegnum það vald, sem almenningur þannig getur gert gildandi á rekstur félaganna.

Samvinnufélögin hafa í mjög mörgum tilfellum stofnað til hlutafélaga um rekstur sinn á einstökum sviðum. Mjög oft mun þetta vera þannig, að þau eiga yfir 80% af hlutafénu, og koma þá takmörkunarákvæðin ekki að sök, vegna þess að aðrir geta þá samanlagt ekki farið með nema minna en 1/5 atkv. En dæmi munu þó vera fyrir því, að eign sjálfs samvinnufélagsins sé ekki svo mikil, og getur þá hæglega komið fyrir, að þessi takmörkunarákvæði geti leitt til óeðlilegs ástands og vandræða.

Varðandi eignir ríkisins í hlutafélögum hefur þessi vandi verið leystur í einstökum tilfellum með sérstökum lagaákvæðum, eins og t.d. bent hefur verið á um Útvegsbankann og sömuleiðis um áburðarverksmiðjuna. Í lögum um hvorar tveggja þessar stofnanir áskilur ríkið sér, að það skuli ekki bundið takmörkunarákvæðum um atkvæðisrétt, heldur hafa hann í fullu samræmi við hlutafjáreignina. Það virðist vera fullt ósamræmi í því, að löggjafinn undanskilji sjálfan sig takmörkunarákvæðunum, en meini jafnframt öðrum að njóta þess réttar, sem hann sjálfur vill hafa við nákvæmlega sömu aðstæður. Það virðist miklu réttara, að sama reglan gildi um alla hlutafjáreign ríkisins og ríkisstofnana, en ekki þurfi að vera að elta ólar við að vernda rétt þeirra með lagasetningu í hverju einstöku tilfeili, eins og gert hefur verið.

Ég held, að þetta mál liggi alveg ljóst fyrir og afstaða manna til þess hljóti að markast af því einu, hvort þeir telji ekki, að samvinnufélög, ríkisheildin og bæjarfélögin séu raunverulega fulltrúar, oftast margra þúsunda eða tugþúsunda manna, og að þeim beri þess vegna réttur til áhrifa í hlutafélögum í fullu samræmi við það fjármagn, sem þau hafa lagt í þau.

Þær umsagnir, sem komið hafa fram um frv. frá samvinnufélögunum og frá því eina bæjarfélagi, sem mun hafa verið sent frv. til umsagnar, benda ótvírætt til, hver muni vera afstaða bæði samvinnufélaganna og bæjarfélaganna til þessa máls, og hlýtur hún að vera nokkuð þung á metunum, þegar afstaða er tekin til málsins.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, að frávísunartill. meiri hluta allshn. er á engan hátt til þess fallin að flýta öðrum réttmætum breytingum á hlutafélagalögunum. Þvert á móti er líklegra, að samþykkt hennar tefji það mál í heild, um leið og hún bregður fæti fyrir þá sjálfsögðu og sanngjörnu leiðréttingu, sem í þessu frv. felst. Það er því von mín, að dagskrártill. verði felld, en frv. samþ. með þeirri orðalagsbreytingu, sem hv. minni hl. allshn. hefur lagt til að gerð verði á því.