16.05.1957
Efri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

123. mál, hlutafélög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þessi síðustu orð hv. 11. landsk. staðfesta það, sem ég sagði áðan, að það muni geta dregizt, að þetta frv. verði að lögum, sem hann segir að sé tilbúið. Fyrst frv. er tilbúið, liggur niðri í skúffu og er alls ekki lagt fyrir hæstv. Alþingi, þá bendir það til þess, að undirbúningur þess sé ekki sá, að þeir, sem ættu að leggja það fram, vilji leggja það fram sem sitt mál. Þetta undirstrikar það fyrir mér, að það getur orðið dráttur á málinu. Það, að hæstv. ríkisstj., eftir því sem hann segir, vill ekki leggja frv. fyrir þingið, bendir til þess, að hún telji eitthvað athugunarvert við það, — og þannig líður allt þetta þing.

Ef frv. hefði ekki verið tilbúið, en kæmi von bráðar, þá hefði ekki verið sérstök ástæða til þess að óttast, að þetta þyrfti að dragast. En fyrst það er svona, að það er búið að undirbúa frv., sem enginn vill þó leggja fyrir þingið, hvetur það mig ekki til þess að trúa á skjótan framgang heildarlöggjafar um hlutafélög. Ég vil því endurtaka það, að þrátt fyrir það að rétt er skýrt frá í nál. meiri hlutans, að það þurfi þessa heildarlöggjöf, þá liggur ekkert fyrir um það, hvenær hún getur komizt á, og að mínum dómi engin ástæða til þess að hindra þessa breytingu, sem hér er farið fram á og er mjög þýðingarmikil fyrir atvinnurekstur í ýmsum bæjum og jafnvel sveitarfélögum landsins.