22.05.1957
Neðri deild: 103. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

123. mál, hlutafélög

Fram. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Allshn. tók málið fyrir á fundi sínum í gær og varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt eins og Ed. hafði afgr. það, sbr. nál. 578. Einu nefndarmanna var fjarverandi, Björn Ólafsson, en einn nefndarmanna, hv. 1. þm. Reykv. (BBen), taldi sig vera ósammála frv. og mun gera grein fyrir sinni afstöðu til málsins.

Aðalinnihald þessa frv. er það, að það er breyting á hlutafélagalögunum. Í grg. um málið segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í l. um hlutafélög er svo fyrir mælt, að enginn hluthafi geti farið með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkv. í félagi. Vafalaust er, að þetta ákvæði hefur verið sett í lög í þeim tilgangi að sporna við óeðlilegu valdi einstakra fésterkra manna og auka áhrif hinna, sem minni getu hafa til fjárframlaga. Með aukinni þátttöku bæjar og sveitarfélaga, samvinnufélaga, ríkisins og ríkisstofnana í atvinnurekstri hafa allar aðstæður mjög breytzt frá því, er nefnd l. voru sett. Er nú svo komið, að það ákvæði, sem frv. þetta fjallar um breytingu á, hefur að því er þessa aðila varðar þveröfug áhrif við það, sem upphaflega var til ætlazt. Telja verður, að bæjarfélög, samvinnufélög og ríkið eða stofnanir þess séu jafnan fulltrúar svo margra einstaklinga, að full ástæða sé og nauðsyn beri til að undanþiggja þá aðila nefndu takmörkunarákvæði um atkvæðisrétt, svo að tryggð verði sanngjörn og eðlileg áhrif þeirra á rekstur hlutafélaga, sem þeir eru meðeigendur að.“

Þetta er grg., sem fylgdi með frv.

Ed. hefur þegar afgr. málið mjög lítið breytt frá því, sem það var upprunalega.

Lög um hlutafélög eru orðin allgömul. Þau eru frá árinu 1921 og hefur f engu, að ég held, verið breytt frá þeim tíma. Í 31. gr. laganna er ákveðið, eins og getur um í grg., að enginn einn hluthafi megi fara með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkv. í félaginu. Það er nú vitað, að síðan þessi lög voru sett, eða fyrir 36 árum, hafa orðið mjög miklar breytingar í okkar atvinnulífi m.a. Þessi breyting liggur m.a. í því, að bæði ríki og bær eru þegar orðin stórir þátttakendur í atvinnulífinu. Það virðist ekki vera óeðlilegt, að þessum aðilum verði veittur meiri réttur á gang mála í slíkum félögum, sem þeir eru hluthafar í, heldur en verið hefur. Það mun ekki vera óalgengt, að bæjarfélögin hafi meiri hl. hlutafjárins, án þess þó að fá að ráða meiru en 1/5 eða fara með meira atkvæðamagn en sem svarar 1/5 hluta samanlagðra atkvæða í félaginu. Þetta virðist vera mjög úrelt og full ástæða til þess, að því sé breytt.

Ástæðurnar, sem m.a. geta legið til þess, að nauðsynlegt er að breyta þessum l., eru þær, að vald þessara aðila, sem þarna hafa látið í mjög mikla fjármuni, eru stórir hluthafar í, er eins og l. eru núna mjög takmarkað, og þeir einstaklingar, sem eru þarna hluthafar í, geta undir mörgum kringumstæðum algerlega ráðið stefnu og starfssviði þessara félaga, jafnvel þó að þeir séu að miklum minni hluta hluthafar, og ég get ekki séð, að það sé út af fyrir sig rétt.

Það er þegar orðin viðurkennd staðreynd, sem ekki þýðir að bera á móti, hvort sem mönnum líkar það nú betur eða verr, að ríki og bær gerast æ stærri þátttakendur í framleiðslunni, svo að segja með hverju ári sem líður. Það eru fleiri samtök, sem þarna koma til greina. Það eru ýmis samtök, sem fólkið í landinu hefur myndað, m.a. samvinnufélögin, sem hafa á ýmsum stöðum orðið þátttakendur í slíkum félagsskap eða slíkum atvinnurekstri. Má þar t.d. benda á allstórt atvinnufyrirtæki, eitt stærsta atvinnufyrirtæki norðanlands, þar sem er Útgerðarfélag Akureyrarkaupstaðar. Þetta mál hefur þar verið allmikið rætt, og mér er kunnugt um það, að bæjarstjórn Akureyrar er því fylgjandi, að þessu ákvæði hlutafélagalaganna verði breytt einmitt í samræmi við það, sem hér er lagt til í þessu frv. Mér er ekki kunnugt um það, hvort samþykkt bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar liggur hér fyrir, en hitt veit ég, að slík samþykkt hefur verið gerð og bæjarstjórnin þar mun leggja allmikið upp úr því að fá ákvæði hlutafélagalaganna breytt.

Ég skal nú ekki hafa langa framsöguræðu um þetta mál. Það er mjög skýrt, hvað hér er átt við. Menn geta svo deilt um eðli málsins, hvort þetta sé til bóta eða ekki bóta. Álit meiri hl. allshn. er, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt, og meiri hl. mælir eindregið með því, að frv. nái fram að ganga.

Að lokinni þessari umr. vil ég leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 3. umr.