28.05.1957
Neðri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

182. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um breyt. á lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins, svo sem hv. frsm. sjútvn. gerði hér grein fyrir, og er breytingin á lögunum í því einu fólgin, að heimilt skuli vera að veita veðleyfi af hálfu stofnlánadeildarinnar, þegar svo stendur á, að framkvæma þarf viðgerð á skipi, sem hefur lán úr stofnlánadeildinni.

Það er vitanlega ekki nema sjálfsagt að greiða fyrir því, að sú aðstoð sé veitt, sem í þessu frv. greinir, því að það er lítils virði fyrir stofnlánadeildina sjálfa, ef skipin grotna niður fyrir þá sök, að ekki er hægt að framkvæma á þeim nauðsynlegar breytingar, þó að því miður geti orðið hætt við því, að það geti reynzt erfitt fyrir eigendur skipanna að fá lán til þess að standa undir kostnaði af breytingunum, þó að veðleyfi fáist. En það er önnur saga.

Ég hef ekkert á móti þessari breytingu á l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins. En í sambandi við þetta frv., sem er flutt að beiðni sjútvmrh., hljóta að vakna ýmis önnur atriði, sem í rauninni eru miklu veigameiri en hér segir í þessu frv. En sá þáttur beinist einmitt að starfsemi stofnlánadeildarinnar sjálfrar. Því var lýst yfir og hefur oft verið yfir lýst af hæstv. núverandi ríkisstj., að hún hefði áhuga á því að leysa úr stofnvandamálum sjávarútvegsins. Það var borið fram hér á Alþ. snemma á þessu þingi frv. af mér og nokkrum öðrum hv. þm., að ákveðið yrði úr ríkissjóði fast framlag til fiskveiðasjóðs Íslands, svipað og sjóðurinn fékk á s.l. ári, að meðtöldu því framlagi, sem hann þá fékk af greiðsluafgangi ríkissjóðs, og ef slíkt frv. hefði verið samþ. og þetta framlag lögfest, hefði vissulega batnað mjög hagur þessarar stofnlánadeildar sjávarútvegsins, fiskveiðasjóðsins, til þess að standa undir þeim lánveitingum, sem nauðsynlegar eru vegna endurbyggingar bátaflotans eða nýbyggingar hans.

Svo sem hv. þdm. er kunnugt, var þetta mál afgreitt héðan með rökstuddri dagskrá á þann hátt, að þar sem ríkisstj. væri að vinna að lausn þessa máls eftir öðrum leiðum, sæi deildin ekki ástæðu til þess að samþykkja þetta frv. okkar. Það hefði nú mátt ætla eftir þeim orðum, sem fallið hafa um áhuga hæstv. ríkisstj. á að bæta afkomu atvinnuveganna og þá ekki hvað sízt sjávarútvegsins, að myndarlega yrði á þessum málum tekið, því að svo mjög höfðu þeir flokkar, sem áður voru í stjórnarandstöðu, vítt fyrrv. ríkisstj. og ríkisstjórnir fyrir það, að ekki hefði nægilega verið að gert í þessum efnum.

Till. hæstv. ríkisstj. um lausn þessa vandamáls hefur nú sézt hér í Alþ. og verið afgr. héðan, en sú till. var í því einu fólgin að leysa þennan vanda á þann hátt að ætla sjávarútveginum sjálfum að leggja fram meira fé til þess að standa undir nýbyggingu fiskiflotans. Svo sem kunnugt er, hefur meginhluti af tekjum fiskveiðasjóðs að undanförnu komið frá sjávarútveginum sjálfum, sem eins og allir vita er þess gersamlega vanmegnugur að leggja nokkuð af mörkum, heldur verður þvert á móti að fá stórkostleg framlög til þess að standa undir sínum rekstrarkostnaði. Lausn málsins var á þennan eina hátt, en engin viðleitni sýnd til þess að leysa vandann með því að leggja raunverulega fram fé úr öðrum áttum til þessarar mikilvægu uppbyggingar eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.

Það má ef til vill segja sem svo, að það skipti litlu máli, hvort sjávarútveginum sé gert að greiða gjöld sem þessi, þar sem það eru hvort sem er svo mikil fjárframlög, sem þarf að verja til hans. Þetta er þó alls kostar óheilbrigð hugsun, vegna þess að öll vonum við, að að því komi fyrr en síðar, að sjávarútvegurinn verði hafinn til þess vegs í þjóðfélaginu og honum sköpuð sú aðstaða, að hann geti undir venjulegum kringumstæðum gengið rekstrarhallalaust. Þá mun það koma í ljós, að hér hefur ekki heppileg leið verið farin. Hins vegar er þetta ósköp ódýr leið fyrir hið opinbera og lítill vandi fyrir hvaða ráðh. sem er að bera fram till. um það, að viðkomandi atvinnuvegur skuli sjálfur leggja sér til allt það fé, sem hann þarf á að halda í þessu sambandi.

En einmitt þegar sást hér frv. um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbankann, hefðu margir álitið, að í þessu frv. væri að finna þá breytingu, sem oft hefur verið umtöluð, en það er að endurvekja aftur stofnlánadeildina til útlána í þágu sjávarútvegsins. Ef hæstv. ríkisstj. hefði getað hrundið því máli af stokkunum, hefði vissulega verið ástæða til að fagna því, því að ef hægt væri að vekja stofnlánadeildina aftur til starfa, þótt ekki væri nema á þann hátt, að hún hætti að láta ganga inn til greiðslu á skuldum deildarinnar það fé, sem inn fæst í afborgunum og vöxtum, þá mundi það strax vera töluverð hjálp fyrir sjávarútveginn.

Þessi deild var að vísu upphaflega til þess stofnuð að leysa ákveðið vandamál, og mun ekki beinlínis hafa verið ætlunin, að varanlega yrði í umferð það fé, sem deildin fékk þá til umráða. Hins vegar hefur það komið í ljós síðar og oft verið um það rætt á ýmsum vettvangi, að það væri mjög mikilvægt að reyna að koma því til leiðar, að ekki aðeins yrði fiskveiðasjóður efldur, heldur væri unnt að opna aftur stofnlánadeild sjávarútvegsins til útlána, og ef það væri hægt að festa þar allverulegt fjármagn til útlána fyrir sjávarútveginn, væri vissulega merkilegt skref stigið í stofnlánamálum útvegsins.

Það hlýtur því að hafa valdið mörgum æðimiklum vonbrigðum, miðað við öll þau loforð, sem fram hafa verið borin af hæstv. ríkisstj. og þá ekki hvað sízt hæstv. sjútvmrh. um aðstoð við útveginn og uppbyggingu hans, að þessi átök skuli svo, þegar til kemur, ekki verða meiri en þau að ákveða að leggja enn þá nýjan skatt á framleiðsluvörur útvegsins til þess að afla fjár í fiskveiðasjóð og ekki söguna meir. Þegar loks kemur svo frá hæstv. ríkisstj. frv. um breyt. á l. um stofnlánadeildina, þá er það aðeins í þá átt að veita þau veðleyfi, sem greint er frá í þessu frv.

Það er að vísu rétt, að það mun vera ætlun ríkisstj. að útvega lán til kaupa á þeim bátum, sem smíðaðir eru á vegum ríkisins. Engu að síður mun þó þannig vera um búið, að ætlunin er að taka allverulegt fjármagn úr fiskveiðasjóði; mér er ekki grunlaust um, að honum sé ætlað að leggja fram mjög verulegan skerf til þeirra kaupa, þannig að þótt þessi lán verði útveguð, gangi það einmitt yfir starfsfé fiskveiðasjóðsins og sé því ekki nema að litlu leyti viðbót við það fé, sem hann hefur til umráða.

Það hefur nú vafalaust ekki mikla þýðingu að fara að bera fram brtt. við þetta frv. hér, enda sannleikur málsins sá, að það er mjög erfitt um vik vitanlega að fara að gera það, án þess að það mál sé rætt miklu nánar og athugað frá öllum hliðum, hvernig framkvæmanlegast og skynsamlegast yrði að opna stofnlánadeildina til útlána, ef til kæmi. Það kemur einnig vitanlega til greina í því sambandi, hvort ekki væri skynsamlegast að sameina þá stofnlánadeildina og fiskveiðasjóð, þannig að ekki væru ótal sjóðir, sem um væri að ræða, er lán veittu. Það er töluverður galli á okkar lánamálum, hversu ótalmargir sjóðir eru starfandi og sífellt stofnaðir nýir sjóðir. Það út af fyrir sig leysir ekki fjárhagsvandræði eins né neins að stofna sjóði, ef ekki er þá séð fyrir auknu fjármagni til starfsemi slíkra sjóða.

Ég gat ekki stillt mig um, af því að þetta frv. lá hér fyrir um stofnlánadeildina, að vekja athygli á þeirri staðreynd, að það virðist ekki vera ætlun hæstv. ríkisstj. að sinna á neinn hátt hinni brýnu fjárþörf stofnlánadeildar útvegsins um aukin fjárráð, nema á þann hátt einan, sem þegar hefur sýnt sig hér á Alþ., að ákveða með lögum, að hinn fjárvana útvegur skuli sjálfur leggja fram fé til þess að standa undir uppbyggingu fiskiflotans.