28.05.1957
Neðri deild: 112. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

182. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) sagði nú síðast, að ekki hefði verið leitað umsagnar Landsbankans um frv., þá er það að vísu rétt, að það var ekki gert í sjútvn. þessarar d. Það er mjög skammt síðan málinu var vísað til d. og naumast tími til þess að leita slíkrar umsagnar, þar sem þingi er nú að ljúka, enda kom ekki fram nein till. um það í n., að svo yrði gert. Að öðru leyti er hér í raun og veru enginn eðlismunur á þeim ákvæðum, sem gert er ráð fyrir að gildi hér eftir, og þeim, sem hafa gilt, því að það hefur verið heimilt að veita þessi veðleyfi, ef um vélakaup var að ræða, en heimildin víkkuð að því leyti, að nú nær heimildin líka til endurbóta á skipunum. Ég tók það fram í minni ræðu, sem virðist hafa farið fram hjá hv. þm., að hér er að sjálfsögðu aðeins um heimild að ræða, sem stofnlánadeildin notar hverju sinni eftir því, sem hún telur réttmætt, sams konar heimild og áður var í lögum.

Annars vil ég benda á það út af því, sem hv. þm. sagði, að þegar að því er komið, að það þarf að kaupa vél í skip eða framkvæma á því verulega viðgerð, má gera ráð fyrir, að búið sé að greiða niður verulega upphaflega stofnlánið, og svo mun það og vera í mörgum tilfellum.

Ég vil svo að öðru leyti segja það út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. (MJ) sagði, að eins og hann sagði, þá var hér fyrr á þinginu afgr. með vísun til ríkisstj. frv. þeirra sjálfstæðismanna um sérstakt framlag til fiskveiðasjóðs, og var þá vísað til þess, að ríkisstj. hefði í undirbúningi ráðstafanir þess efnis. Síðan hefur verið lagt fram og samþ. frv. um breyt. á fiskveiðasjóði., sem á að þýða það, að fiskveiðasjóður fái til viðbótar 41/2 millj. kr. á ári, og er það gert með því að samræma útflutningsgjaldið, þannig að sama útflutningsgjald sé greitt af öllum sjávarafurðum, sem út af fyrir sig virðist eðlilegt að gera. En hæstv. ríkisstj. hefur gert fleira í þessu máli. Hún hefur á s.l. vetri útvegað fiskveiðasjóði 10 millj. kr. að láni, sömuleiðis beitt sér fyrir því, að gefin væru eftir lán, sem ríkissjóður á sínum tíma veitti fiskveiðasjóði.

Varðandi stofnlánadeildina er annars það að segja, að hún hefur í raun og veru ekki starfað sem lánastofnun árum saman, og hafa ekki verið á undanförnum árum gerðar neinar breytingar á lögum, sem tryggðu það, að hún gæti starfað sem slík. Þegar keypt hafa verið ný skip, hafa verið farnar aðrar leiðir. Þegar 10 togararnir voru keyptir um 1950, var tekið til þeirra erlent lán, en til þess að greiða fyrir vélbátakaupum hefur fiskveiðasjóðurinn verið efldur og sérstaklega unnið að því nú í vetur.