07.11.1956
Sameinað þing: 6. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (2339)

23. mál, framtíðarskipan Reykholts

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Við Íslendingar erum söguþjóð. Við þökkum forfeðrum okkar fyrir menningararf, sem er undirstaða sjálfstæðrar tilveru þjóðarinnar, tungu hennar og nútímamenningar og veigamestur þeirra verðmæta, sem móta líf hennar. Það er því að vonum, að Íslendingar sýni sögustöðum sínum ræktarsemi.

Nú er það svo, að forfeður okkar gátu ekki byggt eða kunnu ekki að byggja varanleg mannvirki, er standa mundu um aldir. Íslendingar hafa því reynt að gefa nokkrum sögustöðum sínum reisn með því að byggja á þeim, þótt seint sé, mannvirki eins og skóla, kirkjur eða aðrar slíkar stofnanir. Oft er deilt um staðsetningu, útlit eða innri skipan þessara húsa, en hitt virðist skynsamlegt, að tengja nútíma menningarstofnanir við fornar minningar og reyna þannig að styrkja böndin milli fortíðar og nútíðar.

Reykholt í Borgarfirði er meðal þeirra sögustaða íslenzku þjóðarinnar, sem hæst ber. Hann hefur þá sérstöðu, að þar er eitt af elztu mannvirkjum landsins, Snorralaug. Segja má, að mikið hafi verið gert fyrir Reykholt sem sögustað. Þar er myndarlegur kirkjustaður, og þar er einn af reisulegustu héraðsskólum landsins. Þar er trjágarður í skjóli myndarlegra bygginga, búsældarlegt umhverfi og snyrtibragur á flestu. Þar stendur Snorralíkneski Wiegelands í hlaði, myndarlegur vottur um ræktarsemi norsku þjóðarinnar.

Þegar Borgfirðingar ákváðu að byggja yfir alþýðuskóla sinn, sem verið hafði á Hvítárbakka um aldarfjórðungsskeið, voru þeir einhuga um staðarval. Þeir vildu hafa hið nýja skólahús í Reykholti. Þeir lögðu mikið af mörkum til byggingarinnar og nutu til þess góðrar aðstoðar þáv. menntmrh. Þarna var byggt af miklum stórhug, enda var hátíð í héraði, þegar skólinn var vígður. Er það í frásögur fært, að ræðuhöld hafi staðið til kl. 2 á nóttu, síðan hafi verið dansað fram undir morgun.

Þetta gerðist haustið 1931, og geta þeir menn, sem þá tíð muna vel, gert sér í hugarlund, hversu húsakynni öll í Reykholti báru þá af því, sem almenningur átti við að búa í landinu. Skólasalir voru rúmgóðir og hlýir, hitaðir með hveravatni. Þar var einnig rafmagn frá rafstöð, sem byggð hafði verið í samvinnu við tvo grannbændur. Þá voru þetta lífsgæði, sem voru sjaldgæfari en þau eru nú á dögum.

Það er viðeigandi á menntasetrum slíkra sögustaða, að húsakynni og aðbúð öll sé a.m.k. sambærileg við það, sem almennt gerist í landinu. Helzt þyrfti þar að vera örlítið hærra til lofts og víðara til veggja til að skapa einhverja reisn í samræmi við helgi staðarins. Í þessum efnum hefur Reykholtsskóli nú orðið aftur úr. Húsakynni skólans eru aldarfjórðungsgömul og bera þess merki, að byggingartækni þeirra tíma var ekki sambærileg við það, sem nú gerist. Nú brýzt regn inn í húsið, svo að einn fegursti salur þess er ónothæfur og húsmunir íbúanna eru engan veginn óhultir fyrir vætu. Leikfimishúsið, þar sem hátíð var haldin við vígslu skólans, er nú svo óþétt, að þar verður stundum kennslufall vegna veðra. Þrengsli eru svo mikil í heimavist, að óviðunandi verður að telja, og fleira skortir á æskilega aðbúð. Má verða ljóst af öllu þessu, þótt fleira sé ekki talið, að það er kominn tími til meiri háttar viðgerða og endurbyggingar í Reykholti.

Þegar slíkar endurbætur verða gerðar, en það getur ekki dregizt lengi, þarf að hugsa til sumarnotkunar þessara mannvirkja í Reykholti og skipuleggja hana í fullu samræmi við anda staðarins. Er hægt að hafa þar sumarheimili fyrir listamenn, vísindamenn og fræðimenn? Væri ekki ánægjulegt fyrir ýmis fjöldasamtök í landinu að halda þar ráðstefnur sínar og fundi að sumrinu til? Er hægt að halda í Reykholti orlofsnámskeið fyrir hinar vinnandi stéttir í landinu, verkamenn, bændur, sjómenn eða iðnaðarmenn? Er ekki hægt að taka svo á móti æskufólki þar, að það komist í örlítið meiri snertingu við fortíð og menningararf þjóðarinnar en það á að venjast?

Þessum hugmyndum er varpað hér fram til umhugsunar. Þetta er eitt af því, sem við flm. þessarar till., sem hér er til umr., teljum æskilegt að athugað verði í samræmi við heildarmynd og framtíð Reykholts. Tilefni þess, að till. er nú flutt, er 25 ára afmæli Reykholtsskóla.

Það var fleira, sem fæddist í þeirri áhugaöldu, sem þá fór um héraðið. Stofnað var Snorrasafn, sem átti að verða fullkomið safn Snorra-bókmennta. Það mundi auka verulega gildi staðarins fyrir fræðimenn og listamenn, sem þangað mættu gjarnan sækja, auk þeirra nemenda, sem stunda nám við skólann um vetur. Snorrasafn hefur eigi náð hinum upprunalega tilgangi sinum, og mætti það verða eitt þeirra athugunarefna, sem till. fer fram á, hvað gera megi fyrir safnið í framtíðinni.

Byggð umhverfis Reykholt hefur aukizt nokkuð síðari ár og þarf að aukast enn, því að skólinn er fátækur af kennarabústöðum. Er því brýn nauðsyn að íhuga heildarskipulag alls staðarins og byggja í framtíðinni eftir vandlega undirbúnu og hugsuðu skipulagi. Sjálfsagt virðist að halda hinum ytra svip skólabyggingarinnar og gæta fyllsta samræmis í öllum frekari framkvæmdum. Af því, sem hér hefur verið sagt, má ljóst verða, að ærin verkefni blasa við í Reykholti og tímabært er að íhuga vandlega alla framtíð staðarins.

Ég vil leggja á það áherzlu, hversu mikils vert það er fyrir staðinn, að þar er blómlegur héraðsskóli, vel rekinn og vinsæll, enda aðsókn að honum mikil. Það er í fyllsta samræmi við virðingu og aðbúð Reykholts í heild, að vel sé við skólann gert, enda hlýtur hann að verða hér eftir sem hingað til sá höfuðminnisvarði, sem þjóðin reisir yfir fortíð Reykholts.

Það er von flm., að hæstv. Alþingi vilji sýna Snorra þann vinarhug að samþykkja tillögu þessa og þannig verði stigið fyrsta skrefið til endurbyggingar Reykholtsstaðar. Vil ég svo leggja til, að till. verði vísað til allshn.