06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2341)

23. mál, framtíðarskipan Reykholts

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Eins og prentað álit nefndarinnar ber með sér, hefur orðið samkomulag í n. um að mæla með samþykkt þessarar till. með þeirri brtt., sem gerð er á þskj. Breytingin er á þá leið, að inn í till. bætist, að það, sem hún fjallar um, verði gert í samráði við hlutaðeigandi skólanefnd og sýslunefndir.

Ástæðan til þessarar breytingar er sú, að báðir þessir aðilar geta haft nokkuð með málefni þessa staðar að gera, og n. telur því eðlilegt, að til þeirra sé leitað um málið. Væntir n. þess, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja tillöguna, og þarf ekki að hafa fleiri orð um hana.