11.02.1957
Sameinað þing: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2353)

108. mál, kjörbréf varaþingmanns

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Till. til þál., sem liggur hér fyrir, er að efni til þannig, að fyrir henni hefur komið fram meirihlutavilji á Alþingi. Ýmsir af þm., sem greiddu atkv. gegn þeirri till., sem meiri hl. kjörbréfanefndar bar fram í þessu máli fimmtud. 7. febr., gerðu þá grein fyrir atkv. sínu, að þeir teldu, að 4. maður á lista Alþfl. í Reykjavík við síðustu alþingiskosningar ætti að fá kjörbréf, en það væri yfirkjörstjórnar, en ekki Alþingis að gefa það kjörbréf út. Hins vegar töldu þeir till., eins og hún lá þá fyrir, þannig orðaða, að hana yrði að skilja sem kjörbréf frá Alþingi Eggert Þorsteinssyni til handa.

Bréf yfirkjörstjórnar til Alþingis i þessu máli hljóðaði þannig:

„Yfirkjörstjórn taldi ekki fært, með hliðsjón af 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 117. gr. kosningalaganna, að gefa út formlegt kjörbréf til Eggerts Þorsteinssonar, og tilkynnti hún þá flokksforustu Alþfl. þessa niðurstöðu. En þar sem kjörinn þm. flokksins hér í Reykjavík, Haraldur Guðmundsson, er í þann veginn að hverfa af landi burt, en enginn varamaður fyrir hann, þá telur yfirkjörstjórnin rétt, svo sem mál þetta horfir nú við og með hliðsjón af 46. gr. stjórnarskrárinnar, að senda málið til hins háa Alþingis og að það taki ákvarðanir um það, hvort Eggert G. Þorsteinsson geti talizt löglega kosinn varaþingmaður fyrir Alþfl. fyrir yfirstandandi kjörtímabil.“

Eins og bréfið ber með sér, telur yfirkjörstjórn sér ekki fært, með hliðsjón af 31. gr. stjórnarskrárinnar, að gefa út formlegt kjörbréf til Eggerts Þorsteinssonar, nema fyrir liggi vilji Alþingis fyrir því. Vel má því skilja þetta bréf kjörstjórnarinnar svo, að hún telji það óformlegt kjörbréf til Eggerts Þorsteinssonar, sem eigi að teljast fullgilt, ef Alþ. leggi samþykki sitt á það. Það er a.m.k. erfitt að skilja orðin, að hún treysti sér ekki til að gefa út formlegt kjörbréf, á annan hátt. En eins og fyrr segir, eru ýmsir, sem eru þeirrar skoðunar, að Alþfl. eigi rétt á því, að Eggert Þorsteinsson fái kjörbréf, mótfallnir því formi, að Alþ. staðfesti þetta óformlega kjörbréf yfirkjörstjórnar, en vilja í þess stað, að yfirkjörstjórn gefi út, eftir að Alþ. hefur látið í ljós vilja sinn í málinu, kjörbréf til Eggerts Þorsteinssonar.

Þetta er sá ágreiningur um formið, sem komið hefur fram í málínu, og til þess að taka tillit til hans er till. borin fram í þessu nýja formi. En spurningin er þá um það, hvort till. þessi eigi við eðlileg rök að styðjast, en það hefur, eins og kunnugt er, verið dregið í efa af ýmsum. En það, sem yfirkjörstjórn virðist hafa sett fyrir sig, er orðalag 31. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna telur yfirkjörstjórn sig vera í vafa um atriðið. En ef ætti að binda sig við orðalag 31. gr. stjórnarskrárinnar svo einstrengingslega, hafa menn þá athugað, hve mörgum öðrum atriðum kosningalaganna og stjórnarskrár þarf að ganga gegn til þess að fullnægja þessum skilningi á 31. gr.? Í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir orðrétt:

„Á Alþingi eiga sæti allt að 52 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegum kosningum, þar af a) 8 þingmenn í Reykjavík. Kosning þeirra er hlutbundin. Jafnmargir varamenn skulu kosnir samtímis og á sama hátt.“

Samkv. þeirri niðurstöðu, sem varð í kosningunum 1956, eiga að réttu lagi að sitja 52 menn á Alþingi og þar af 8 menn hér í Reykjavík, til þess að fullnægt sé ákvæðum 31. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessari sömu gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Deyi þingmaður kosinn i einmenningskjördæmi eða fari frá á kjörtímanum, þá skal kjósa þingmann í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans.“

Við skulum nú athuga öll þessi ákvæði aðeins lítils háttar. Lítum fyrst á ákvæðið um kosningu varaþingmanna. Þegar ákvæðið er athugað, er auðsætt, að þegar talað er um, að jafnmargir varamenn skuli kosnir samtímis og á sama hátt og þingmenn í Reykjavík, er átt við og undirstrikað, að þetta gerist í sömu kosningunni. Ákvæðið, að kosið skuli upp í einmenningskjördæmum, ef þm. falli frá eða segi af sér, er auðvitað við það miðað, að kosningar, þar sem meirihlutaniðurstaða ræður úrslitum, geti farið fram hvenær sem er undir sömu kringumstæðum og við sömu aðstæður fyrir frambjóðendur og þegar hinar reglulegu kosningar fara fram. Varaþingmenn, sem kosnir eru til þess að taka sæti aðalmanna í kjördæmum, þar sem kosið er hlutbundinni kosningu, eru beinlínis til þess kosnir, að ekki þurfi uppkosning að fara fram, þó að þm. forfallist, og það er af þeirri ástæðu, að lítt framkvæmanlegt eða óframkvæmanlegt er að láta kosningu fara fram undir sömu aðstæðum og reglulegar kosningar, nema með því móti, að allir þingmenn og varamenn í hlutaðeigandi kjördæmi segi af sér og kosningar fari fram að öllu leyti að nýju í kjördæminu. Kosning á einum þingmanni í Reykjavík, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur stungið upp á, er alveg fráleit, styðst hvorki við ákvæði stjórnarskrár né kosningalaga og væri auk þess algerlega ólýðræðisleg, eins og hver maður sér.

Tökum þetta mál, sem þál. er fram borin til þess að leysa, til meðferðar sérstaklega. Hugsanlegt er vitanlega, að enginn varamaður komi í staðinn fyrir Harald Guðmundsson alþm. En ég býst við, að fáir menn séu í vafa um, að það er ekki líklegt, að sá hafi verið tilgangur löggjafans, að þannig yrði með farið undir slíkum kringumstæðum, enda kemur það í bága við það, að 52 menn eiga að sitja á Alþingi og 8 þm., en ekki 7, fyrir Reykjavík. Það kemur einnig í bága við það ákvæði kosningalaganna, sbr. ákvæði 117. gr., að þingmaður kosinn í hlutbundnum kosningum skuli alltaf hafa varamann. — Önnur leið er sú að hugsa sér uppkosningu, eins og ég hef minnzt á áður. En ég fæ ekki með bezta vilja séð, hvar þeir menn, sem telja sér skylt að skýra 31. gr. stjórnarskrárinnar mjög þröngt, finna þau ákvæði í stjórnarskránni eða kosningalögunum, sem heimila kosningar undir þessum kringumstæðum. Og það væri fróðlegt að fá að heyra frá þeim, hvernig þeir hugsa sér að fá þeim kosningum komið fyrir í Reykjavík.

Ég er þess vegna ekki í neinum vafa um það, að ein eðlilegasta lögskýringin er sú, að þegar varamaður segir af sér, fellur frá, missir kjörgengi eða lætur af öðrum ástæðum af starfi sem varaþingmaður fyrir fullt og allt, þá er rétt, að næsti maður á listanum taki hans sæti. Með því er fullnægt þeim ákvæðum stjórnarskrár, að rétt tala þingmanna er á þingi, rétt tala þingmanna fyrir Reykjavík, aðeins einn varamaður hverju sinni og fullnægt þeim rétti flokkanna, sem þeim var áskilinn í áðurnefndri 117. gr., þar sem svo er kveðið á, að þeir hafi rétt til jafnmargra varaþingmanna og þingmenn þeirra eru í kjördæminu, þar sem kosið er hlutbundinni kosningu, — rétti, sem þingflokkarnir verða ekki sviptir með því, að fyrsti varamaður þeirra forfallist eða segi af sér.

Það hefur verið mikið notað sem rök í þessum málum, að þessi lögskýringaraðferð sé ekki heiðarleg gagnvart kjósendum. Með þessum hætti viti kjósendurnir ekki, hvern þeir hafi kosið. Fyrir þá, sem beita þessum rökum, er fróðlegt að athuga m.a. ákvæði 128. gr. kosningalaganna. Þar eru ákvæði um það, hverjir frambjóðendur þingflokkanna hafi hlotið uppbótarþingsæti, og skal hér ekki um það rætt, en í niðurlagi greinarinnar segir orðrétt:

„Skorti nú á, að eftir sé á lista þingflokks tvöfalt fleiri nöfn en listanum hafa hlotnazt uppbótarþingsæti, nefnir hlutaðeigandi flokksstjórn til menn, sem koma neðst á listann, eftir því sem til þarf til viðbótar á listann, og skal veita henni hæfilegan frest til þess. Þeir, sem nú standa efstir á landslista hvers þingflokks, hafa náð kosningu sem landskjörnir þingmenn, svo margir af hverjum landslista sem hlutaðeigandi þingflokki hafa hlotnazt uppbótarsæti.“

M.ö.o.: Ef ekki eru nægilega margir á lista þingflokks, getur flokksstjórnin tilnefnt menn á listann, sem hljóti rétt til setu á Alþingi. Og með þetta ákvæði kosningalaganna fyrir framan sig telja sumir menn það eðlilegustu lögskýringuna, að aldrei hafi verið kosinn nema einn varamaður fyrir hvern þm., sem kosinn er í Reykjavík, þó að þeir geti ekki bent á neina lögskýringarleið til eðlilegrar lausnar í málinu. En þeir vísu menn, sem halda því fram, að skv. 31. gr. stjórnarskrárinnar hafi aldrei verið kosinn nema einn varamaður fyrir hvern þm. kosinn í Reykjavík og samtímis, virðast ekki hafa athugað ákvæði 117. gr. til hlítar. Þar stendur:

„Varamennina á hverjum lista skal tilnefna á sama hátt sem aðalmennina, þannig að þeir eru tilnefndir sem varamenn, sem hæstar atkvæðatölur hafa, næst á eftir þeim, sem þingmannskjöri hafa náð. Nú hreppir varaþm. af lista í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, uppbótarþingsæti, og skal yfirkjörstjórn sú, er í hlut á, þá koma saman að nýju og gefa næsta frambjóðanda á þeim lista, ef til er, kjörbréf sem varaþingmanni.“

Þeir, sem halda sig að hinni íhaldssömu lögskýringu á 31. gr., þ.e., að aldrei hafi verið kosinn nema einn varamaður samtímis í Rvík, geta þá heldur alls ekki komizt hjá því að álíta þessi ákvæði 117. gr. brot á ákvæðum 31. gr. stjórnarskrárinnar. Sá varamaður og sá eini varamaður, sem Alþfl. á heimtingu á samkv. hinni kynlegu lögskýringu, er annar maður á lista Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, því að eftir kenningu þeirra ætti að vera óheimilt þrátt fyrir ákvæði 117. gr., að annar maður taki það varamannssæti. En ef þeir fallast á það, að ákvæði 117. gr. stríði ekki gegn stjórnarskránni og að Gylfi Þ. Gíslason megi samkv. þeim ákvæðum, þrátt fyrir það að hann hafi verið kosinn sem varamaður, hverfa úr því sæti og taka sæti sem landsk. þm., en þriðji maður taka varasætið, þá eru þeir auðvitað búnir að brjóta niður þá kenningu, sem þeir byggja allt málið á, og þá erum við jafnframt komnir inn á þá leið, sem beinir okkur inn á hina réttu götu í þessu máli. Þrátt fyrir ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar heimilar 117. gr., að varamaður, í þessu tilfelli Gylfi Þ. Gíslason, víki úr sæti og taki sæti sem uppbótarþingmaður, og „næsta frambjóðanda á þeim lista, ef til er, beri kjörbréf sem varaþingmanni“. Og fyrst þessar reglur eru taldar gilda í lögum, er náttúrlega ekkert eðlilegra en að sömu reglur séu framkvæmdar, ef næsti varamaður segir af sér eða forfallast á sama hátt og sá fyrsti. Og lögjöfnun liggur raunverulega alveg í augum uppi.

Ég tel því óþarft að ræða um þetta atriði frekar. Það liggur í augum uppi, að Alþýðuflokknum beri þetta sæti og Eggert Þorsteinsson eigi að fá kjörbréf.

En það er annað atriði, sem gert hefur verið mjög að umræðuefni hér á Alþingi og í blöðum Sjálfstfl. Heilsíðufyrirsögn hefur birzt um það, að ég gerði kjörbréfanefnd þau boð, að ég mundi leggja fram á Alþingi frv. til laga, sem skæri nánar úr um þetta atriði.

Ég tel þetta að vísu, eins og ég hef sýnt fram á, lögskýringaratriði, sem Alþingi geti greitt úr og sé skylt að gera. En fyrr en lög eru sett um atriðið, er ekki full trygging fyrir því, að það verði ekki skýrt á fleiri en einn veg síðar, þar sem málið hefur valdið deilum. Lög verða því sett, til þess að þetta liggi ljóst fyrir í framtíðinni, hver sem í hlut á, en það er dálítið fróðlegt að athuga málfærslu sjálfstæðismanna í þessu máli. Þeir segja, að með þessari till. minni um lagasetningu sé ég að fremja slíkt hneyksli, að annað eins hafi ekki þekkzt í þingsögunni, því að með lögunum eigi að búa til nýja varamenn, þ.e. nýja þingmenn, á Alþingi. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sé ég svo að stendur, að þessi heilsíðufyrirsögn og stórgrein Morgunblaðsins hafi verið svo mögnuð hjá hv. 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssyni, að ég hafi horfið frá því að leggja lögin fram. Ég hafi ekki vegna þess, hve rök þingmannsins voru þung og sterk í málinu, þorað að fremja hneykslið. Nú er fróðlegt að sýna Sjálfstfl. örlítið framan í sjálfan sig í þessu máli.

Samkv. lögum nr. 81 23. júní 1936, 33. gr., giltu þau ákvæði um varamenn bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmanna, að þeir voru jafnmargir aðalmönnum. Þeir voru jafnmargir aðalmönnum. En 1942 lét Jakob Möller þáv. ráðh. bera fram frv. til breytinga á þessu, sennilega ekki án vitundar Bjarna Benediktssonar, hv. 1. þm. Reykv., þáv. borgarstjóra í Reykjavík. Samkvæmt þeirri breytingu, sem gerð var á Alþingi, skyldi 33. gr. laganna orðast þannig:

„Hver framboðslisti, sem hlotið hefur bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmenn kosna hlutbundnum kosningum, hefur rétt til varamanna, og skulu frambjóðendur á lista, þeir er ekki ná kosningu, vera varamenn.“

Siðar segir svo: „Nú hafa tveir eða fleiri stjórnmálaflokkar sameiginlega lista í framboði við bæjarstjórnar- og hreppsnefndarkosningar og sæti eins aðalfulltrúa slíks lista losnar á kjörtímabilinu eða hann óskar að láta varamann sitja fund í sinn stað, og skal þá sá varamaður listans, sem er úr sama stjórnmálaflokki og aðalmaður sá, er um er að ræða, var fulltrúi fyrir, er hann var kjörinn, taka sæti hans í bæjarstjórn eða hreppsnefnd án tillits til þess, hver í röðinni hann er af varamönnum listans.“

Hér skal vakin athygli á tvennu: Í fyrsta lagi, að allir, sem ekki ná kosningu á framboðslista við bæjarstjórnarkosningar, verða varamenn, þótt ekki komist að nema einn af þrjátíu. Í annan stað vek ég athygli á ákvæðinu um sameiginlegan lista stjórnmálaflokka.

Að síðustu vil ég svo vegna ummæla hæstv. 1. þm. Reykv., að ég ætli að brjóta stjórnarskrána með því að láta lög, samþykkt á þessu þingi, taka til varamanna fyrir þingmenn, sem kosnir voru 1956, sérstaklega benda á 2. gr. laganna frá 1942, en hún hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og taka einnig til bæjarstjórnarkosninga og hreppsnefndarkosninga, sem hafa farið fram frá árslokum 1941.“

Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á þessari grein, þar sem ákveðið er, að lögin taki til bæjarstjórnarkosninga og hreppsnefndarkosninga, sem hafi farið fram frá árslokum 1941. Þær höfðu farið fram í Reykjavík 15. marz 1942, og lögin voru staðfest 15. maí sama ár.

Af þessu er augljóst, að hv. 1. þm. Reykv. er nú að fordæma það, sem flokksbróðir hans gerði 1942, vafalaust í fullu samræmi við vilja hans sem borgarstjóra í Reykjavík.

Ég þarf svo ekki að segja frekar um þetta mál að sinni.