13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2368)

26. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu o. fl

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að svara fyrir ríkisstjórnina, vegna þess að það er ekki mitt að svara fyrir hana. Fyrst þarf að samþ. þessa till. og síðan tel ég, að hverjum og einum, sem áhuga hefur, gefist tækifæri til þess að fylgjast með gangi þessara mála. Þeim spurningum, sem hv. 11. landsk. kom hér með áðan, verður því ekki svarað hér, þar sem ekki eru mættir þeir ráðherrar, sem fara með þessi mál. Hins vegar treysti ég þeirri ríkisstjórn, sem nú situr, vel til að láta rannsaka þessi mál, og hún hefur vafalaust áhuga á, að það verði gert það bezta í þessum efnum, sem auðið er, svo að það er ekki ástæða til að ætla, að það verði á nokkurn hátt staðið fyrir þeim framkvæmdum, sem af þessu kann að leiða, ef það sýnir sig, að þær leiða til hins bezta fyrir land og þjóð.