13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2369)

26. mál, leirverksmiðja í Dalasýslu o. fl

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Út af fsp. flm. þessarar till. vil ég bæta við það, sem frsm. hefur þegar sagt, að mér sýnist einhlítt, að verði till. samþykkt, hljóti rannsóknin að byrja í Dalasýslu. Till. kemur til með að hljóða svo, að það eigi að láta fullrannsaka, hvort hagkvæmt muni vera að reka leirverksmiðju í Dalasýslu. Dalasýsla er þarna nefnd ein af öllum sýslum landsins, og þannig er ómögulegt að framkvæma þetta öðruvísi en að sýslan gangi fyrir og þar verði fyrst rannsakað, m.a. vegna þess að fyrir liggja viss rök eða vissar upplýsingar, sem gefa auga leið um, að þarna sé helzt að leita að hentugum leir. Að því leyti sýnist mér, að því sjónarmiði, sem kom fram hjá flm., ætti að verða fullnægt, ef till. yrði framkvæmd á þann hátt, sem mér virðist eðlilegur. Með tilliti til þessa er engin ástæða til að ætla, að þessi breyting á till. verði til þess að svæfa málið.