01.03.1957
Sameinað þing: 42. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2375)

130. mál, lán fyrir Flugfélag Íslands h/ftil flugvélakaupa

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég fékk skilaboð frá hæstv. fjmrh. í gær um það, hvort Sjálfstfl. mundi ekki fylgjandi tillögunni, sem hér er til umr., í því formi sem hún er, og án þess að aftan í hana yrði hnýtt neinu öðru máli, skyldu eða óskyldu. Mér tókst ekki að ná sambandi við alla þingmenn Sjálfstfl.,vissi hins vegar um hug þeirra til þessara mála, að greiða sem mest fyrir eðlilegum og æskilegum flugsamgöngum á Íslandi. Ég tók svo á mig þá ábyrgð að láta tjá fjmrh., að flokkurinn mundi vera reiðubúinn til þess að afgreiða þetta mál eins og það liggur fyrir, enda hafði fjmrh. látið þau boð til mín berast, að hann teldi ekki eðlilegt að leggja svo mikið mál fyrir þingið og mælast til þess, að það yrði afgreitt á einum degi, nema honum væri kunnugt um, að það nyti stuðnings allra flokka.

Ég þarf ekki að taka það fram, að það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Rang. sagði hér, að Sjálfstfl. hefur auðvitað fullan skilning á, að það eru fleiri, sem þurfa svipaða fyrirgreiðslu. En eins og hæstv. fjmrh. tók fram, þá liggur þetta mál þannig fyrir í dag, að það þarf að taka ákvörðun um það tafarlaust. Önnur mál liggja ekki jafnljóst fyrir. Góðhugur þingmanna er þegar þekktur. Ég legg eindregið til, að málinu verði, eins og hæstv. fjmrh. óskaði eftir, helzt án mikilla umræðna, vísað til 2. umr. og hv. fjvn., en að við sjálfstæðismenn gætum fengið, þótt ekki væri nema fimm mínútna hlé, áður en nefndarfundur byrjar, til þess að við getum rætt um þetta mál okkar á milli.