13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2388)

124. mál, sameign fjölbýlishúsa

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur samþykkt einróma að mæla með samþykkt þáltill. hv. 4. þm. Reykv. um sameign fjölbýlishúsa. N. telur, að þörf sé á löggjöf um sameign slíkra bygginga og verði þar ýtarleg ákvæði um réttindi og skyldur sameigenda.

Undanfarin ár hefur færzt mjög í vöxt bygging sambýlishúsa, þar sem margar fjölskyldur, jafnvel tugir fjölskyldna búa saman. Er langmest af slíkum byggingum í Reykjavík, en til eru þær víða um land. Er ástæða til að ætla, að þeim muni á komandi árum fjölga verulega. Slíkar byggingar hafa tíðkazt lengi með öðrum þjóðum og þykja sjálfsagðar. Hér á landi hefur hins vegar gengið misjafnlega að fá fólk til að bindast samtökum um að byggja stór sambýlishús, og hafa valdið því ýmsar ástæður.

Sumir telja það höfuðorsök þessarar tregðu, að Íslendingar séu vanir dreifbýli og vilji helzt búa hver í sínu húsi, — sumir segja, að helzt eigi að vera sem lengst á milli. Raunhæfari skýring mun þó hitt vera, að fólk hefur óttazt, að misjafnlega gangi sambúð í slíku nábýli, því að ekki geta menn alltaf ráðið, hverjir sambýlismenn verða.

Það er vitað mál, að misjafnlega gekk í fyrstu í sambýlishúsum hér á landi og samkomulag varðandi hitun, hreingerningu, þvottahús, lóð og ýmislegt annað fleira, skiptingu kostnaðar og fjárhagsatriði, varð oft ekki eins gott og æskilegt hefði verið, en hin smæstu atriði þessa eðlis geta spillt húsfriði, svo að illunandi sé við.

Erlendis eru til lög og reglur um sameign slíkra húsa, og hafa ýmsir aðilar hér á landi reynt að kynna sér slík lög, aflað sér fyrirmynda og sett eftir þeim reglur, sem fólk hefur reynt að fara eftir í einstökum húsum. Er ástæða til að ætla, að löggjöf og reglugerðir mundu skapa miklu meiri festu í þessum efnum og draga úr tregðu fólks til að byggja sambýlishús og búa í þeim.

Það er æskilegt, að hér á landi sé byggt meira af sambýlishúsum en gert hefur verið til skamms tíma. Þessi hús spara lóðir og götur. Þau spara leiðslur allar, stytta samgöngur, gera hverja íbúð ódýrari en í einbýlishúsum. Er ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt, að slíkur sparnaður fáist, því að kostnaður bæjarfélaganna, ekki sízt Reykjavíkur, vegna hinnar vaxandi byggðar og útþenslu hefur stundum verið svo mikill, að varla varð risið undir.

Af þeim fáu orðum, sem ég hef haft um till., má sjá, að öll rök hníga að nauðsyn þeirrar löggjafar, sem hér um ræðir. Þess vegna mælir allshn. einróma með samþykkt tillögunnar.