13.03.1957
Sameinað þing: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (2395)

47. mál, samtök til aðstoðar öryrkjum

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þáltill. hv. 10. landsk. um samtök til aðstoðar öryrkjum. Gerir n. þá breytingartillögu, að ríkisstj. verði falið að athuga möguleika á slíkum samtökum í stað þess að fela henni beinlínis að gangast fyrir þeim að svo komnu máli, sbr. nál. á þskj. 321.

Það er hugmynd þessarar till., að hin ýmsu samtök, sem starfa að málefnum öryrkja hér á landi, vinni saman að stofnun og rekstri hælis eða vinnuheimilis fyrir alla öryrkja, í stað þess að hver reyni að koma á fót sinni stofnun. Ein þessara samtaka, SÍBS, hafa þegar náð miklum árangri og komið upp vinnuhæli, sem er til fyrirmyndar um mörg lönd. Hins vegar gengur baráttan gegn berklunum með þeim ágætum, að væntanlega fækkar þeim á næstu árum, sem þörf hafa fyrir vist á Reykjalundi. Virðist þá eðlileg hugsun, að aðrir öryrkjar, hvort sem eru blindir, fatlaðir eða lamaðir, fái aðstöðu til dvalar og vinnu að Reykjalundi, ef þar er hægt að veita þeim störf og skapa þeim hentug verkefni. Takist slíkt samstarf, mundi áframhaldandi uppbygging vinnuheimilisins væntanlega mótast að einhverju leyti af hinum breyttu verkefnum.

Tillögumaður telur skynsamlegt að reyna nú þegar að koma til leiðar samstarfi, sem leitt gæti til slíkrar þróunar í málefnum öryrkja. Þarf að sjálfsögðu nokkurn undirbúning og aðdraganda, og full ástæða er til að ætla, að vinsamleg hvatning opinberra aðila mundi hjálpa til að koma málinu í höfn. Er þó ekki ætlunin að breyta á neinn hátt aðstöðu eða rekstri viðkomandi samtaka.

Eins og fskj. með nái. á þskj. 321 bera með sér, hefur mál þetta verið rætt innan SÍBS, og er sú stofnun því fylgjandi. Blindrafélagið hefur einnig rætt málið við SÍBS og tekið því vel. Hins vegar tekur Styrktarfélag fatlaðra og lamaðra till. ekki eins vel, svo sem umsögn þess ber með sér, en sú umsögn virðist þó byggjast á algerum misskilningi á hugmyndum þeim, sem þessi till. styðst við.

Með þeirri breytingu, sem lýst er á umræddu þskj., leggur allshn. til, að þáltill. verði samþykkt.