18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2402)

134. mál, löggæsla á skemmtisamkomum og þjóðvegum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, er sú brtt., sem ég flyt á þskj. 348, að efni til ekki önnur en sú, að þessari einu setningu er bætt inn í till.:

„Við þessa endurskoðun skal að því stefnt, að dregið verði úr áfengisneyzlu á samkomum.

Í samræmi við það, sem ég hef sagt í þessu máli, og í samræmi við tilganginn með flutningi þess frv., sem þessi till. er sprottin af, er það auðvitað aðalatriðið fyrir mér, að eitthvað ávinnist í því efni að draga úr þessari áfengisneyzlu á opinberum samkomum, því að ef það á ekki að verða, þá veit ég ekki, hver árangurinn verður af endurskoðuninni, sem er ráðgerð. Sá árangur verður vægast sagt eitthvað minni. Það held ég sé engum efa undirorpið.

Það er rétt hjá hv. frsm., að það er nokkur efnismunur að því leyti, að það er ekkert dregið úr því, sem á að gera skv. þáltill. hv. nefndar, ekki á neinn hátt, en því er bætt við, að m.a. eigi tilgangurinn að vera sá með þessari endurskoðun, að nokkuð verði dregið úr áfengisneyzlu á samkomum. Þeir, sem vilja það ekki, munu náttúrlega greiða atkv. á móti tillögunni. Þeir telja þá viðunandi ástand þessa áfengisneyzlu, sem nú er, og að ekki þurfi að gera annað en það, eins og nefnt er í núgildandi lögum, að afstýra slysum, hneykslum eða öðru þess háttar. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að það þurfi talsvert meira til og að þessu verði ekki afstýrt, nema fyrst og fremst með því að draga eitthvað úr þeirri takmarkalausu áfengisneyzlu, sem á sér stað oft og einatt á opinberum samkomum. Ef hv. þingdeild getur ekki fallizt á, að að því skuli stefnt með þessari endurskoðun, þá sýnist mér takmarkið heldur lágt sett hjá hv. nefnd. Sannast að segja hélt ég, að hv. d. mundi fallast nokkurn veginn einróma á þessa till., því að þetta gæti þó ekki orðið til skaða, og það er ekki farið að draga mikið úr áfengisneyzlu neinum til „tjóns“ a.m.k., þó að tilgangurinn með endurskoðuninni eigi meðal annars að vera þessi. Ef ekkert á að endurskoða nema aðeins það, hvernig takast megi að framkvæma lögin, sem nú eru í gildi, sýnist mér það ekki nóg; það þurfi líka að takmarka eitthvað þá orsök, sem er að því ófremdarástandi í skemmtanalífi þjóðarinnar, sem orðið er í landinu. Og mig undrar það frekar, að menn sjái ástæðu til að hafa á móti þessum tilgangi, því að ekkert verður gert í málinu fyrr en þetta kemur aftur fyrir hæstv. Alþingi, og nógur tími ætti að vera þá til þess að standa gegn því, að frelsi manna verði heft allt of mikið í svona máli.

Út af fyrir sig þarf ég ekki að vera að fjölyrða um þetta. Það liggur mjög ljóst fyrir, hvað menn vilja í þessu og hvað menn vilja ekki, hvort tilgangurinn megi t.d. vera þessi m.a. eða hvort hann megi ekki vera þetta.