18.03.1957
Efri deild: 71. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2403)

134. mál, löggæsla á skemmtisamkomum og þjóðvegum

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð í sambandi við fram komna brtt. frá hv. þm. Barð. Fyrir mínum sjónum felur þessi brtt. ekki í sér neina verulega breytingu á þáltill. Það má segja að vísu, að hún þrengi lítið eitt það, sem í þáltill. felst, en um aðra breytingu er ekki að ræða. Það er vitað mál, að með fram kominni þáltill. ætlast allshn. til, að þau lög, sem til greina koma, verði endurskoðuð fyrst og fremst í þeim tilgangi, að betri skipan verði komið á skemmtisamkomur og þá sérstaklega með tilliti til áfengisneyzlu. En eins og fram hefur komið við umr. hér, kæmi fleira til greina að endurskoða í sambandi við skemmtisamkomur, og ber sízt að lasta, að það yrði þá tekið fyrir um leið.

Sú setning í brtt., sem er viðbót, er svo: „Við þessa endurskoðun skal að því stefnt, að dregið verði úr áfengisneyzlu á samkomum.“ Þetta finnst mér felast beint í aðaltillögunni, endurskoðun á ákvæðum laga um lögreglumenn, áfengislaga og annarra laga um löggæzlu á skemmtisamkomum. Við vitum, að það er fyrst og fremst löggæzla á skemmtisamkomum í sambandi við áfengisneyzlu þar. Ég tel því þessa brtt. óþarfa, og þótt ég í öllum meginatriðum sé sammála hv. tillögumanni, þá mun ég ekki greiða henni atkvæði.