21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2407)

53. mál, samgöngutæki á eyðisöndum

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Atvinnulíf hverrar byggðar og afkoma fólksins í lífsbaráttunni er háð samgönguskilyrðum. Þörfin á örum samgöngum vex með ári hverju vegna hinna miklu viðskipta, sem fylgja nútíma atvinnurekstri. Alþ. hefur tekið tillit til þessara staðreynda með því að taka oft til endurskoðunar löggjöf um samgöngumál og þá ávallt stefnt að því að bæta aðstöðu hinna dreifðu byggða í landinu að þessu leyti. Fjárframlög til samgöngumála fara einnig hækkandi. Samkv. fjárlögum þessa árs er varið 94 millj. kr. til samgöngumála, og er það því sem næst sjöunda hver króna, sem greidd er skv. fjárlögunum.

En aukin fjárframlög hefðu ekki komið að þeim notum, sem raun ber vitni, ef ný tæki hefðu ekki jafnframt rutt sér til rúms, bæði til samgöngubóta og við verklegar framkvæmdir. Með stórþjóðum, þar sem lengi hefur þróazt fjölbreyttur iðnaður, eru vélknúin tæki stöðugt endurbætt og ný gerð úr garði, sem létta lífsbaráttuna og leysa vanda sem áður hefur valdið erfiðleikum. Þó að þróunin sé yfirleitt ör í þessa átt, má með sanni segja, að í þessum efnum séu stökkin aldrei stærri en á stríðstímum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á vegum setuliðsins, sem hér dvaldi í síðustu heimsstyrjöld, komust Íslendingar fyrst í kynni við ýmis tæki, svo sem beltadráttarvélar með jarðýtum, sterkbyggða flutningabíla með tveimur eða fleiri drifum og jeppa. Varð það Íslendingum mikil hvatning til kaupa á nýjum tækjum og til þeirra miklu framfara og þæginda, sem af því hefur leitt.

Vegasambandið um landið er nú komið í það horf, að akfært er á sumrin umhverfis landið, þegar svæðið frá Hornafirði til Vestur-Skaftafellssýslu er undanskilið. Að undanförnu hefur verið sigrazt á verstu torfærunum austan megin Hornafjarðar með brúargerðum á Jökulsá í Lóni og Hofsá í Álftafirði og með vegagerð við Berufjörð, og unnið er af kappi að vegagerð á Lónsheiði.

Hornafjarðarfljót eru enn mikill farartálmi, en athuganir fara nú fram á skilyrðum til brúargerðar þar, og vonir standa til að takast muni að gera þar öruggar samgöngubætur, áður en langur tími líður. Lengist þá samfellt akvegasamband að Jökulsá á Breiðamerkursandi. Jökulsá á Breiðamerkursandi er ófær bifreiðum, og Fjallsá hindrar einnig að öllum jafnaði bílferðir yfir sandinn. Stefnt er að því, að þessar ár verði brúaðar. En vegna takmarkaðs fjármagns til brúargerða og annarra framkvæmda á því sviði í Austur-Skaftafellssýslu, sem verða að sitja í fyrirrúmi, mun það eiga nokkuð langt í land, að brú verði byggð á Jökulsá.

Það eru samt enn meiri erfiðleikar á því að koma á og viðhalda öruggu vegasambandi yfir Skeiðarársand. Þó að farið sé yfir sandinn í viðlögum á stórum og sterkbyggðum vörubílum, er það ekki fært nema stuttan tíma ár hvert, þegar allra minnst vatnsrennsli er í jökulánum. Ef brúa ætti Skeiðará og Núpsvötn, þyrftu það að vera stórbrýr. Og ekki verður séð, að þær brýr gætu staðizt hinar miklu hamfarir jökulhlaupanna, sem geysast fram Skeiðarársand að jafnaði á fimm til tíu ára fresti.

Nálægt jökli, þar sem þjóðvegurinn liggur, er Skeiðarársandur þurr og allstórgrýttur, en þar eru jökulvötnin illfær eða ófær. En þegar nær dregur sjó, hafa jökulvötnin kvíslazt svo mikið, að á þeim slóðum munu þau ekki vera djúp, en þar er sandurinn svo blautur, að ófært er af þeim sökum vélknúnum farartækjum, sem nú eru notuð hér á landi.

Tilraunir, sem gerðar eru á stríðstímum með tæknilegar nýjungar, reynast oft gagnlegar til almennra framfara og þæginda að stríði loknu. Frá því hefur verið skýrt opinberlega, að í Kóreustyrjöldinni hafi Bandaríkjaher m.a. átt við mikla samgönguörðugleika að etja. Herinn hafi verið vel búinn að ökutækjum, en þau hafi komið að litlum notum á forarblautum vegum og hrísgrjónaökrum, sem hafi legið undir vatni að meira eða minna leyti og óhjákvæmilegt var að ferðast um. Þá hafi að tilhlutun hershöfðingja verið framleidd af verksmiðjum í Bandaríkjunum ný tegund ökutækja í því skyni að ráða bót á hinum sérstöku samgönguörðugleikum hersins í Kóreu. Tæki þessi séu að mörgu leyti svipuð sterkum vörubifreiðum, nema hjólin séu eins konar belgir, sem hafi mjög stórt yfirborð í hlutfalli við þyngd ökutækisins. Áður en farið var með þessi flutningatæki til Kóreu, munu þau hafa verið reynd í Grænlandi, og kom í ljós við þá reynslu, að þar sem farartæki á venjulegum hjólum eða beltum grófu sig í snjó og festust, þar runnu hin breiðu hjól hins nýja tækis hindrunarlaust. Talið er, að sú reynsla, sem þegar er fengin af þessu tæki á vegum Bandaríkjahers, sýni, að það renni ótrúlega vel yfir lausan snjó, blauta sanda og fenjamýrar.

Þó að ég nefni hér þetta farartæki, sem í Ameríku er kallað „rolligon“, af því að nokkur lýsing hefur verið gefin á því á prenti, fer því alls fjarri, að ég hafi yfirlit yfir það, um hvaða nýjungar kunni að vera að ræða á þessu sviði. En augljóst er, að mikilsvert er, að haft sé vakandi auga á því, sem til framfara horfir í þessu efni, og að þeim, sem hafa á hendi yfirstjórn samgöngumála, séu búin sem bezt skilyrði til þess.

Frá Kirkjubæjarklaustri, sem er miðstöð samgangna og viðskipta í eystri hluta VesturSkaftafellssýslu, og austur yfir Breiðamerkursand eru um 130 km. Þetta skarð er eftir að fylla, ef gera á akfært umhverfis landíð allt. Það verður naumast gert á næstu árum, nema fá megi farartæki, sem geta hindrunarlítið farið um sandana nálægt sjó, þar sem þeir eru votlendir, en ekki stórgrýttir, og þar sem vötnin kvíslast svo mikið, að þau eru ekki mjög djúp. Þess vegna er till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 61, flutt með sérstöku tilliti til samgangna í Skaftafellssýslu.

Meginefni þessarar tili. er aðeins um athugun og tilraunir í þessu skyni. Þó að því kunni að fylgja einhver kostnaður, þá er hér alls ekki um stórvægilegt fjárhagsmál að ræða. Mér finnst því eðlilegt, að þessi tili. fari til athugunar til hv. allshn., og geri það að till. minni.