03.04.1957
Sameinað þing: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2430)

24. mál, árstíðabundinn iðnaður

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um tillöguna um árstíðabundinn iðnað og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar.

Hugsunin að baki þessari till. er í eðli sínu ákaflega einföld. Tveir höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, fiskveiðar og landbúnaður, eru að verulegu leyti árstíðabundnir. Þess vegna þarf allmikið vinnuafl að flytjast á milli starfsgreina og tíðum milli landshluta oft á ári hverju. Enn fremur eru mikil brögð að árstíðabundnu atvinnuleysi, sem veldur þjóðarbúinu tekjumissi.

Till. er á þá lund, að rannsakað verði vandlega, hvort ekki eru til þær greinar smáiðnaðar, sem geta starfað hluta úr árinu og þannig fyllt skörðin á vinnumarkaðinum. Er augljóst mál, að slíkur iðnaður mundi reynast veruleg búbót þeim héruðum, er nytu hans. Gefa tilraunir, sem þegar hafa verið gerðar, nokkuð auga leið í þeim efnum.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast, hefur komið fram ótti við þessa till. hjá ýmsum aðilum, en þó aðallega hjá Félagi ísl. iðnrekenda. Virðast forráðamenn félagsins telja, að slíkur iðnaður mundi skerða eðlilega starfsemi og vaxtarmöguleika annars iðnaðar í landinu. Þessi ótti er að sjálfsögðu tilefnislaus með öllu. Það er ekki hugmynd neins, að slík iðnfyrirtæki, sem hér er um rætt, skerði afkomu þess iðnaðar, sem fyrir er, enda mundi slíkt vafasamur ávinningur fyrir þjóðarbúið. Nútímaiðnaður er margvíslegur og býður mannfólkinu ótæmandi tækifæri til að framleiða verðmæti og bæta þannig lífskjör sín.

Í eina tíð byrjuðu Svisslendingar að framleiða úr og klukkur í fjallahéraði einu og höfðu þá framleiðslu að nokkru leyti sem heimilisiðnað. Af þessu hefur sprottið heimsfrægur iðnaður, sem veitir þeim miklar tekjur. Slík dæmi eru til mörg víða um lönd. Það er aldrei að vita, hvar eða hvenær við Íslendingar getum á þessum tæknitímum fundið nýjar starfsgreinar, sem henta okkar aðstæðum. Við verðum að leita og leita, láta okkur ekkert óviðkomandi á sviði iðnaðarins, kanna allar leiðir. Bæði einstaklingar, félagssamtök og hið opinbera verða að sýna stöðuga árvekni á þessu sviði.

Í trausti þess, að slíkur vilji sé fyrir hendi, væntir allshn. þess, að hv. alþm. styðji þetta mál.