06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2436)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki þörf á því að hafa mörg orð um þessa till. Greinargerðin skýrir nákvæmlega það, sem ég hef leyft mér að leggja til.

Það er hér um það að ræða, hvort hægt sé að skipuleggja eitthvað ofur lítið betur innflutning á bátavélum. Útgerðarmenn og sjómenn hafa á undanförnum árum orðið fyrir alvarlegum skakkaföllum oft og tíðum vegna óheppilegra innkaupa og ekki nógu góðrar þjónustu með varahluti fyrir bátavélar. Mér þykir eðlilegast, að þessi athugun væri gerð í samráði við skipaskoðunarstjóra, Fiskifélag Íslands og Landssamband íslenzkra útvegsmanna, þá aðila, sem áreiðanlega þekkja öll þessi mál langbezt og sumir hafa verið að athuga á undanförnum árum, hvort eitthvað væri hægt að gera til að lagfæra það ástand, sem nú er.

Fjöldi vélategunda í íslenzka bátaflotanum er alveg með ólíkindum. Það eru keyptar vélar frá Ameríku, Englandi, Vestur-Þýzkalandi, Danmörku, Svíþjóð og víðar, og frá mörgum þessara landa eru keyptar nokkrar tegundir af vélum frá hverju landi. Það eru þess vegna trúlega 30–40 tegundir véla í fiskibátaflotanum eða kannske fleiri. Og það vita auðvitað allir, að innflytjendur eru misjafnlega gætnir með að hafa þjónustu sína við þær vélar, sem þeir selja í bátaflotann, nægjanlega góða, og á ég þar sérstaklega við um varahluti fyrir vélarnar.

Það mun oft hafa komið fyrir, að verulegt tjón hefur hlotizt af skeytingarleysi eða athugunarleysi sumra innflytjenda, en auðvitað eru þeir misjafnir, þegar það hefur allt í einu bilað stykki í vél, og svo hefur báturinn stundum orðið að bíða dögum eða vikum saman, öllum til tjóns, útgerðarmönnum og ekki síður sjómönnum.

Ef eitthvert skipulag væri hægt að finna, sem gæti orðið til þess, að t.d. væru ekki fluttar inn nema vélar frá þeim aðilum, sem vitað er að gefa þá þjónustu, sem þarf að gefa, þá mundi það áreiðanlega verða til mikils gagns.

Eins og öllum er kunnugt, er mjög mikið kapphlaup um að selja nýjar vélar í báta, og auk þess tíðkast það nú mjög, að oft sé skipt um vélar í bátum. Það er því eðlilegt, að einhverjir ábyrgir aðilar séu til ráðuneytis um það, þegar kaupa þarf nýjar vélar, auk þess sem stundum hefur viljað brenna við, að seljendur vélanna hafa lofað meiru en þeir hafa getað staðið við, þegar til hefur komið. Mér virðast þessi mál sem sagt öll þannig vaxin, að það sé ekki óeðlilegt, að eitthvað ofur lítið sé gert til þess að rannsaka betur, hvort yfirleitt er hægt að koma á þetta einhverju því skipulagi, sem að gagni mætti koma fyrir báða aðila, útgerðarmenn og sjómenn, í því mikla öngþveiti, sem sums staðar á sér stað um þessi mál.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og að till. verði vísað til hv. allshn.