06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2437)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem frsm. sagði hér áðan, að það skapast oft vandamál í sambandi við vélainnflutning, sem æskilegt væri að hægt væri að koma í veg fyrir. En það er annað atriði, sem þar er áberandi og hann kom ekki inn á, að ég held, í sínu máli, enda snertir till. ekki beinlínis þá hlið málsins, og það er í sambandi við það geysilega kapphlaup, sem er með að auka sem mest hraðgengni bátanna. Þetta hefur valdið því, að það hefur oft og tíðum orðið að skipta um vélar í fiskibátum á kannske 2–3 ára fresti og kasta í land vélum, sem hafa verið fullnothæfar, aðeins vegna þess, að þær hafa ekki verið orðnar nógu hraðgengar, miðað við vélar annarra báta, og þar af leiðandi hefur útgerðarmaðurinn neyðzt til að taka vélina úr bátnum og setja hana í land og setja aðra sterkari vél í staðinn, vegna þess að ella hefur ekki verið hægt að manna bátinn.

Það er engum efa bundið, að þetta geysilega kapp, sem er um að auka hraða fiskibátanna, leiðir af sér mjög mikið tjón og geysilega aukin útgjöld, bæði fyrir útgerðina og þjóðarbúið. En það er auðvitað ekki auðvelt um vik fyrir einstaka útgerðarmenn að ætla að dragast þar aftur úr í þeirri samkeppni, því að þá verður það til þess, að þeir bæði komast mun seinna á miðin og eiga erfiðara með að manna sína báta.

Það væri því vissulega í sambandi við athugun á vélamálum bátaflotans mjög mikilvægt, ef hægt væri einnig að gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma i veg fyrir það geysilega kapphlaup, sem hér á sér stað. Ég veit, að þetta er mörgum útvegsmönnum áhyggjuefni, og það liggur í augum uppi, hversu geysilegur útgjaldaauki það er fyrir útgerðina, ef þarf á nokkurra ára fresti að skipta um vélar, sem kosta hundruð þúsunda króna, og það eykur ekki lítið útgerðarkostnaðinn. Það eru vafalaust þó allmiklir erfiðleikar á því, og kann að vera, að það sé illgerlegt að setja reglur, sem bæti úr þessum vanda. En það væri vissulega mikið þjóðfélagslegt gagn að því, ef auðið væri að finna hér einhverjar skynsamlegar reglur, sem allir aðilar gætu sætt sig við. Í flestum tilfellum skiptir ekki meginmáli, hvort bátur er örlítið lengur á leiðinni til veiða, ef það gildir almennt um bátana; það er fyrst og fremst samkeppnin, sem gildir. Og ef því væri hægt að finna skynsamlegan mælíkvarða um stærð véla í fiskiskip, þá væri víssulega mikið gagn unnið, bæði í þá átt að koma í veg fyrir mikil gjaldeyrisútgjöld og óþarfa gjaldeyrisútgjöld þjóðarbúsins og einnig í þá átt að létta og bæta hag útvegsins.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari hlið málsins, þar sem hún að sjálfsögðu er tengd þessu verkefni, sem tillögumaður ætlar að unnið sé að í samræmi við tillögu hans. Væri vert, að það væri tekið til íhugunar af þeirri nefnd, sem þetta mál fer til, hvort ekki væri auðið að taka einnig til athugunar og jafnvel koma því inn í þessa till., hvort ekki mætti finna viðunandi reglur, sem gætu leyst þennan mikla vanda, sem við er að stríða á þessu sviði, sem ég minntist á.