06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli til þess að minnast á nákvæmlega hið sama sem hv. 2. þm. Eyf. hefur nú gert glögga grein fyrir. Get ég látið mér nægja að undirstrika mál hans. Hann lýsti því gífurlega kapphlaupi, sem orðið er um að setja stærri og stærri og sterkari og sterkari vélar í bátana. Hann minntist á, að það væri sennilega sóað miklum verðmætum, því að oft og tíðum væru mjög nothæfar vélar í bátum fyrir, þó að þær næðu ekki þeim hraða, sem útgerðarmenn vilja fá. Hann minntist á það, að margir útvegsmenn hefðu af þessu áhyggjur, og ég get bætt því við, að ég hef heyrt það hjá allmörgum bátasjómönnum, að þeir hafa einnig af þessu miklar áhyggjur. Þeir hafa sumir hverjir sagt við mig, að ef þessu haldi fram, sjái þeir ekki betur en það hljóti að fara svo, að sumir fiskibátarnir verði bókstaflega liðaðir og keyrðir sundur. Áhyggjur þeirra eru sýnilega komnar á það stig, að þeir eru farnir að hugsa um öryggi skipanna.

Ég hef rætt þetta mál lauslega við skipaskoðunarstjóra, og hann lét í ljós, að hann gerði sér þetta vandamál ljóst, hefði um það hugsað, en það væru geysilegir erfiðleikar á því að setja nokkrar reglur, sem gætu fyrirbyggt þetta. Hann benti á það, sem hver maður hlýtur að sjá, að fiskibátar okkar eru af svo mörgum og ólíkum gerðum, að það er nálega ómögulegt að setja neinar almennar reglur um, hversu sterk vél má vera í hverjum bát. Það yrði sennilega að fara fram sérfræðileg rannsókn á hverjum einasta bát og byggja ákvörðun á því. Sú hlið málsins virðist því vera illframkvæmanleg. Hann benti líka á það, að erfitt væri að setja takmörk um það, hvað áhafnir bátanna mættu keyra þá, þegar þær kepptust um að komast á miðin. Hann tók samanburð í sambandi við bíla. Hann sagði: Okkur hefur ekki dottið í hug að setja takmörk fyrir því, hvað megi vera sterkir hreyfiar í bílunum. Hins vegar höfum við sett hraðatakmörk. En við sjáum það jafnvel á landi, hversu erfiðlega gengur að fá þeim reglum framfylgt.

Ég vil því ítreka það, sem síðasti ræðumaður sagði, að það er fyllilega ástæða til þess í sambandi við þessa till. að kanna, hvort það er nokkuð, sem Alþ. getur gert til þess að reyna að bæta úr þessu máli, til þess að fyrirbyggja óþarfa sóun í vélakaupum, til þess að fyrirbyggja, að öryggi skipanna sé stefnt í óþarflega hættu, ef það er rétt, sem heyrist á ýmsum mönnum, að svo kunni að vera, og að þessu máli verði skipað einhvern fastari og betri veg en verið hefur.