06.02.1957
Sameinað þing: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2439)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr., en ég vildi benda á það til athugunar fyrir n., sem fær þetta mál til meðferðar, að nákvæmlega eins og það er með vélarnar í fiskibátunum, er það með bílana og fjöldamargar aðrar vélar. Það hafa staðið hér óhreyfð sumarlangt stór tæki vélknúin, sem hafa verið keypt fyrir fleiri tugi þúsunda, af því að það hefur vantað einn lítinn varahluta i þær og enginn haft varahlutann til, og menn hafa pantað hann erlendis frá, og vélarnar standa á meðan. Það lítur út fyrir, að þeir, sem yfirleitt taka að sér að selja vélar og bíla, telji sig ekki hafa neinar skyldur margir hverjir til þess að sjá um, að varahlutar séu alltaf til. Það eru margar tegundir af bílum notaðar í landinu, sem ekki er til eitt einasta „snitti“ af varahlut í, þegar þeir bíla. Þetta mál er þess vegna miklu fjölþættara vandræðamál og á fleiri sviðum en þessi till. ein gefur tilefni til. Og þegar það fer í nefndina og nefndin fer að athuga málið, þá vildi ég óska þess, að hún tæki málið víðtækara en þessi till. gerir ráð fyrir, víðtækara en bara um bátavélarnar. Og það eru náttúrlega margar leiðir til. Sumar eru þannig í eðli sínu, að þær teljast sjálfsagt ganga þó nokkuð mikið á rétt manna, ef bannað yrði að flytja inn aðrar vélar en einhverjar lögákveðnar til að fækka tegundunum. En það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu, að til þess að einhver maður fengi leyfi til þess hjá íslenzkum yfirvöldum að fara með umboð fyrir einhverja vél, væri hann skyldugur til að hafa ávallt til í þær varahluta. Það kreppir ekki að frelsi neins manns að setja það skilyrði, og því skilyrði ætti að vera auðgert að koma i kring. Á það vil ég benda n. líka. Þarna hafa allir valfrelsi og geta keypt einhverja nýja tegund, sem einhvers staðar kemur upp og menn halda að sé öllu betri, en maðurinn, sem selur hana, verður þá líka að hafa til í hana varahluti og vera skuldbundinn til þess að hafa þá alltaf.

Á þetta vildi ég benda n. og biðja hana beinlínis að taka til athugunar fleira en bara bátavélarnar, þegar hún fer að athuga þetta mál.