10.04.1957
Sameinað þing: 50. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

91. mál, innflutningur véla í fiskibáta

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt ýtarlega um till. 10. landsk. um innflutning véla í fiskibáta. Eins hefur n. rætt um óhóflega kappsiglingu fiskibáta á mið, en þeirri áskorun var beint til n. við umr. um till., að hún athugaði einnig þá hlið þessa máls.

N. hefur orðið sammála um að mæla með till., svo breyttri:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fram fara rannsókn sérfróðra manna á því:

a) hvort eða hvernig hægt sé að koma í veg fyrir óhóflega kappsiglingu fiskibáta á mið og hindra þannig óþarft slit véla og báta og sóun verðmæta vegna tíðra vélaskipta í bátum, og

b) hvort eða hvernig unnt sé að haga innflutningi á vélum í fiskibáta þannig, að aukin trygging fáist fyrir kaupum hentugra véla og nauðsynlegar birgðir varahluta verði ávallt til í landinu.“

Nefndin varð sammála um þessa afgreiðslu, nema hvað einn nm. gerir fyrirvara, en annar var fjarstaddur.

Allshn. ræddi allmikið um það, hvort unnt sé að skipuleggja innflutning véla í fiskibáta, og sáu nm. ýmsa erfiðleika á slíkum aðgerðum. Þó var öllum ljóst, að rík þörf væri umbóta á þessu sviði. Um þetta segir t.d. skipaskoðunarstjóri, Hjálmar Bárðarson:

„Framangreinda tillögu tel ég mjög athyglisverða. Vélainnflutningur hefur verið mjög tilviljanakenndur undanfarin ár, og vélasalar eru mjög misjafnlega færir um að veita nægjanlegar og sannar upplýsingar um tæknileg atriði vélanna. Þar eð útgerðarmenn eru heldur ekki allir vélfróðir menn, hafa stundum orðið leið mistök í vélakaupum. Vélategundum fjölgar stöðugt hér í fiskiskipum, og þar með eykst þörfin fyrir varahlutabirgðir. Mörgum umboðsmönnum er um megn fjárhagslega að hafa hér á eigin kostnað miklar birgðir varahluta, og ekki munu verksmiðjur hafa varahluti hér á eigin kostnað, enda erfiðleikum háð vegna íslenzkra innflutningsákvæða.“

Þá segir svo í álitsgerð frá fiskveiðasjóði Íslands:

„Að sjálfsögðu mundi fiskveiðasjóður fagna hverjum þeim ráðstöfunum, sem gætu tryggt sem skynsamlegasta meðferð þessara mála og þeir aðilar, sem málið snertir mest, þ.e. sjómenn og útgerðarmenn, gætu sætt sig við.“

Annar aðalmatsmaður fiskveiðasjóðs, Kristinn Einarsson, segir svo um þetta mál:

„Hvað viðkemur hentugum og góðum vélum, bæði um stærð og endingu, svo og um varahlutaþörf, álít ég, að heppilegasta leiðin væri sú að fela einhverri stofnun eða stofnunum í landinu og þá fyrst og fremst skipaskoðun ríkisins að sjá um að leiðbeina mönnum um vélakaup, stærð og gerð. Að sjálfsögðu þarf þessi stofnun að hafa aðstöðu til að sannreyna þær vélar, sem boðnar eru til innflutnings, bæði hvað snertir stærð og aðra kosti og hagkvæmni til notkunar í því skipi, sem hún er ætluð í. Hvað viðvíkur varahlutum, tel ég skilyrðislaust sjálfsagt að leyfa ekki innflutning véla nema með því skilyrði, að framleiðandi þeirra véla, sem fluttar eru inn í landið, ætti hér varahlutabirgðir í vörzlu umboðsmanna sinna, nægilegar til að fyrirbyggja stöðvun báta, sem svo oft hefur komið fyrir, jafnvel á aðalvertíð, vegna skorts á varahlutum.“

Af öllum þessum ummælum má sjá, að hér er um veigamikið vandamál að ræða, sem fullkomin ástæða er til að íhuga og athuga gaumgæfilega. Hníga öll rök varðandi vélainnflutning að því, að umrædd rannsókn eigi að fara fram.

Þá kem ég að hinu meginatriði þessa máls, kappsiglingu báta á fiskímiðin, en einmitt þessi kappsigling er höfuðorsök þess, hve oft er skipt um vélar í bátum hér á landi. Um þetta segir skipaskoðunarstjóri:

„Öllum ber saman um, að vélastærð svonefndra landróðrabáta sé orðin óhófleg. Þess ber og að gæta, að hér er ekki vélastærð aukin vegna þarfa fiskveiðanna sjálfra, heldur vegna kapphlaups milli bátanna að komast sem fyrst á miðin. Fjárhagslega væri það raunverulega enginn óhagur, þótt hver bátur þyrfti t.d. hálfri klukkustund lengri tíma til að komast á miðin, en mikið vélarafl kostar meira í stofnkostnaði, eyðir meiri olíu en eðlilegt má teljast. Hins vegar eru þau lögmál fyrir ganghraða skips, að þegar vélarorka ákveðins skips er komin að vissu marki, eykst ganghraði sáralítið brot úr mílu, ef nokkuð, jafnvel þótt hestaflafjöldi sé tvöfaldaður. Sjálft meinið, sem orsakar þetta kapphlaup, er fyrirkomulag veiðanna, og auðvitað er eðlilegast að ráða bót á meininu þar sem það er, þ.e.a.s. með meiri gæzlu og skipulagningu á veiðisvæðum.“

Um þetta sama atriði segir Kristinn Einarsson, matsmaður fiskveiðasjóðs:

„Það er því að mínu áliti vissulega rétt, að stækkun á vélum í gömlum bátum hafi í mörgum tilfellum farið út í öfgar og sé langt frá því að vera hagkvæm og að mestu leyti sóun verðmæta. Þegar svo er, að of mikið vélarafl er notað í gömlu skipi, verður afleiðingin oft sú, að skipið liðast, hampþéttun losnar og sjóhæfni skipsins minnkar.“

Um þetta atriði segir enn fremur reyndur skipstjóri, Magnús Grímsson, í bréfi til fiskveiðasjóðs:

„Ég óttast, að með þeirri notkun, sem nú er á vélum fiskibátanna, sem róa úr landi á vetrarvertíð hér sunnanlands, verði vélarnar skammlífar í bátunum, ekki eingöngu vegna óhóflegs slits, heldur einnig að mönnum muni finnast þær of litlar, þ.e. báturinn ekki nógu ganggóður í hinni fáránlegu kappkeyrslu á miðin. Það verður aldrei hægt að láta 30 báta frá sömu verstöð ganga jafnt, og þar með mun vélakapphlaupið halda áfram endalaust, ef ekki verður að gert.“

Og enn fremur segir þessi skipstjóri: „Síðustu bátarnir eiga alltaf á hættu að lenda með lóðir sínar á bólfærum bátanna, sem á undan eru, og koma þar með með minni afla og skemmd veiðarfæri að landi. Það er einmitt þarna, sem hundurinn liggur grafinn. Þetta er meginorsök kappkeyrslunnar, og henni mun ekki linna að óbreyttum aðstæðum. Ég tel, að setja þurfi reglugerð um þetta mál fyrir bátana að fara eftir.“

Um nánari hugmyndir þessa glögga skipstjóra geta menn lesið í bréfi hans, sem birt er með nál. í fylgiskjali.

Af þessum vitnisburði hinna fróðustu manna, sem ég hef lesið brot úr, hlýtur að verða ljóst, að hér er einnig um veigamikið vandamál að ræða, sem kostar þjóðina stórfé og hefur margvíslegar hættur í för með sér. Virðist því sjálfsagt, að Alþ, feli ríkisstj. að láta rannsaka þessi mál til hlítar og freista þess að finna ráð til bóta. Því vil ég vænta þess, að hv. alþm. samþykki till. 10. landsk. eins og allshn. hefur breytt henni.