13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2449)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Með þessari till. á þskj. 196 er farið fram á það, að Alþingi veiti ríkisstj. heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 100 um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf. Samþykkt þessi var gerð á 34. allsherjarþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf árið 1951, og er sjálf samþykktin prentuð hér orðrétt sem fskj. með þáltill., bæði á ensku og í íslenzkri þýðingu.

Áður en ég rek aðalefni samþykktarinnar, tel ég rétt að geta þess, að hún gekk fyrst í gildi 23. maí 1953, en það þýðir, að þann dag árið 1953 hafa a.m.k. tvö aðildarríki verið búin að fullgilda hana. Um það atriði segir svo í 6. gr. sjálfrar samþykktarinnar: „Hún gengur í gildi 12 mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum,“ þ.e.a.s. framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, og hjá hverju aðildarríki um sig gengur hún í gildi 12 mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð hjá aðalritara Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Launajafnrétti kvenna mætti í fyrstu nokkurri andstöðu hjá ýmsum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og á allsherjarþinginu 1951 voru enn fremur skiptar skoðanir um það, hvort gera skyldi ákveðna samþykkt um málið eða láta sér nægja að samþykkja einungis tilmæli til ríkisstjórna aðildarríkjanna um að vinna að launajöfnuði milli kynjanna. Þegar tillaga lá fyrir um ákveðna alþjóðasamþykkt, kom fram brtt. frá ríkisstjórnarfulltrúum fimm ríkja um, að allsherjarþingið skyldi einungis samþykkja tilmæli til ríkisstjórnanna, en sú brtt. var felld með 103:68 atkv. Við lokaafgreiðslu um samþykktina fékk till. stuðning 105 fulltrúa, 33 voru á mótí og 40 sátu hjá. Þannig var þessi alþjóðasamþykkt gerð með yfirgnæfandi meiri hluta, og hefur Alþjóðavinnumálaskrifstofan ávallt síðan lagt á það mikla áherzlu, að aðildarríkin sæju sér fært að fullgilda þessa samþykkt eins fljótt og þau teldu tök á.

Það voru Sameinuðu þjóðirnar, sem í fyrstu lögðu það verkefni fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina að vinna að sömu launagreiðslum til kvenna og karla. Hinn 10. marz 1948 hafði fjárhags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt ályktun, sem fól í sér regluna um sömu laun til kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf. Þegar þessi till. hafði verið samþykkt, beindu Sameinuðu þjóðirnar þeim tilmælum til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, að hún tæki málið til meðferðar svo fljótt sem unnt væri. Á því varð heldur ekki langur dráttur, því að á 31. þingi I.L.O. sumarið 1948 voru samþykkt tilmæli til stjórnar stofnunarinnar um að taka launajafnrétti kvenna og karla á dagskrá sem allra fyrst, helzt á næsta allsherjarþingi. Af því gat þó ekki orðið. En á 33. allsherjarþinginu, sem háð var í Genf í júní 1950, var málið tekið á dagskrá og þar ákveðið, að það skyldi, eins og önnur meiri háttar mál, verða rætt á tveimur þingum. Á þinginu 1950 fór fram fyrri umr. um málið og olli þar nokkrum deilum. Má segja, að fulltrúar verkamanna og atvinnurekenda hafi verið þar algerlega á öndverðum meiði, en eins og kunnugt er, er allsherjarþing I.L.O. þannig skipað, að þar mæta tveir fulltrúar frá hverju aðildarríki og sinn fulltrúinn frá hvorum samtökum, atvinnurekenda og verkafólks, fjórir fulltrúar frá hverju ríki, hvort sem þau eru stór eða smá.

Niðurstaðan af störfum nefndarinnar, sem um málið fjallaði, varð sú, að samin voru drög að tvenns konar afgreiðslu málsins, þ.e. alþjóðasamþykkt, sem aðildarríkin skyldu fullgilda, og hins vegar aðeins tilmælum einum til aðildarríkjanna. Var tillaga um þessa afgreiðslu samþykkt með 117 atkv. gegn engu, en fulltrúar atvinnurekenda sátu þá yfirleitt hjá. Þar með var það þá samþykkt, að málið skyldi tekið til lokaafgreiðslu á næsta þingi í öðru hverju forminu. Fulltrúi Íslands á þessu þingi var Jónas Guðmundsson, þáverandi skrifstofustjóri félmrn„ og greiddi hann atkv. með tillögunni. Steingrímur Steinþórsson var þá forsætis- og félagsmálaráðherra.

Þegar málið var komið á þennan rekspöl og fyrri umr. um það lokið, tók Alþjóðavinnumálaskrifstofan saman almenna skýrslu um málið, og fylgdi henni spurningaskrá til þess að kanna afstöðu ríkisstjórnanna í aðildarríkjunum til málsins. Spurt var um það í fyrsta lagi, hvort þær væru fylgjandi því, að settar yrðu alþjóðlegar reglur um sömu laun til kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf, og ef svo væri, þá í hvaða formi þær reglur skyldu vera, þ.e.a.s., hvort þær ættu að vera í formi alþjóðasamþykktar eða tilmæla til aðildarríkjanna. Í þriðja lagi var um það spurt, hvaða ákvæði skyldu efnislega verða tekin upp í slíkar alþjóðareglur, ef settar yrðu.

Með bréfi, dags. 10. marz 1950, sendi félmrn. umrædda skýrslu og spurningalista til umsagnar Alþýðusambands Íslands, Kvenfélagasambands Íslands, Kvenréttindafélags Íslands og til Vinnuveitendasambands Íslands. Í þessu bréfi félmrn. segir m.a. svo:

„Eitt þeirra markmiða, sem Alþjóðavinnumálastofnuninni var sett í stofnskrá hennar, var það að koma á þeirri grundvallarreglu, að konum og körlum skyldu greidd sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Þetta töldu stofnendur I.L.O. vera einn af hornsteinum félagslegs réttlætis og um leið varanlegs friðar í heiminum. Á 30 ára starfsferli sínum hefur stofnunin jafnan haldið fast við þessa skoðun og staðfest hana, þótt henni hafi ekki enn þótt tímabært að gera um þetta alþjóðasamþykkt. Að lokinni síðustu styrjöld hefur þetta mál fengið nýjan byr og aukið fylgi vegna þess, hversu konur í ýmsum löndum sýndu það ljóslega á stríðsárunum, að þær standa körlum fyllilega á sporði í fjölda atvinnugreina, og menn hafa vaknað til umhugsunar um, að óréttlátt sé að mismuna þeim hvað laun snertir, ef þær inna af hendi sömu störf og karlmenn.“

Þetta var sem sé kafli úr bréfi félmrn. til áður nefndra félagasamtaka.

Nú leið að því, að málið skyldi koma til síðari umr. á allsherjarþinginu, og skrifaði þá félmrn. Alþjóðavinnumálastofnuninni bréf sem svar við spurningum hennar. Bréfið er dags. 16. jan. 1951. Þar er lauslega rakið, hvernig þessum málum sé háttað hér á landi, og síðan segir i bréfinu:

„Af framansögðum ástæðum er íslenzka ríkisstjórnin hlynnt því, að gerð verði á næsta þingi I.L.O. samþykkt um sömu laun fyrir sömu störf, og telur, að frumvarp það að slíkri samþykkt, sem prentað er í Report 7, I, sé nothæfur grundvöllur að væntanlegri samþykkt, en vill þó áskilja fulltrúum Íslands á þinginu rétt til að bera fram eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við frumvarpið og einkum mundu þá taka til skipulagshliðar málsins og framkvæmdar samþykktarinnar“.

Af þessum bréfkafla félmrn. er ljóst, að ríkisstj. Íslands lýsti sig í ársbyrjun 1951 fylgjandi því, að gerð yrði alþjóðasamþykkt um sömu laun kvenna og karla fyrir sömu störf. Það er því ekki að efa, hver orðið hefði afstaða Íslands til málsins við lokaafgreiðslu þess á allsherjarþinginu 1951, ef við hefðum átt þar fulltrúa. En því miður varð ekki af því, að neinn fulltrúi yrði sendur héðan frá Íslandi á þetta þing, svo að enginn íslenzkur fulltrúi tók þátt í lokaafgreiðslu málsins, en ríkisstj. hafði sem sé ákveðið markað afstöðu sína í málinu með áður nefndu bréfi, þar sem hún lýsir sig fylgjandi því, að gerð verði samþykkt um málið; en í því formi var málið einmitt afgreitt á þinginu, eins og áður er sagt.

Nú hefur samþykktin um sömu laun kvenna og karla, eða jafnlaunasamþykktin frá 1951, eins og hún er venjulega nefnd, hlotið fullgildingu 18 ríkja, sex ríkja utan Evrópu og 12 Evrópuríkja. Ríkin, sem fullgilt hafa jafnlaunasamþykktina, eru þessi: Austurríki, Argentína, Belgía, Búlgaría, Dóminíkanska lýðveldið, Filippseyjar, Frakkland, Honduras, Ítalía, Júgóslavía, Kúba, Mexíkó, Pólland, Sovétlýðveldin, Hvíta-Rússland, Sovétlýðveldið Úkraína, Ungverjaland og Sambandslýðveldið Vestur-Þýzkaland.

Þessu næst tel ég rétt að víkja nokkuð að aðalefni samþykktarinnar. Hún er í 14 greinum og er þannig styttri en margar þess konar alþjóðasamþykktir eru. Í inngangsorðum eða formála samþykktarinnar segir efnislega á þessa leið:

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf hefur ákveðið að gera ákveðnar tillögur varðandi regluna um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Þingið hefur ákveðið, að þessar tillögur skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, og gerir í dag, hinn 29. júní 1951, eftirfarandi samþykkt, sem nefna má jafnlaunasamþykktina frá 1951.

Í 1. gr. er svo hljóðandi skilgreining á hugtökunum laun og jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf: „Í þessari samþykkt tekur orðið „laun“ yfir hið venjulega grunneða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, sem greidd er beint eða óbeint, hvort heldur í fé eða fríðu, og vinnuveitandinn greiðir starfsmanninum fyrir vinnu hans“.

Þetta var skilgreiningin í samþykktinni á orðinu laun. Þá kemur skilgreiningin á hugtakinu jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf :

Í samþykktinni eiga orðin „jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf“ við launataxta, sem settir eru án þess að gerður sé greinarmunur á kynjunum.

Hér er rétt að taka fram, að í umræðum um uppkast samþykktarinnar komu fram tillögur frá atvinnurekendum um það, að sérstök skilgreining yrði gerð á orðunum jafnverðmæt störf, þannig að miðað yrði við jöfn afköst, og að mismunur á launatöxtum karla og kvenna, sem byggðist á öðru en kynferði, skyldi ekki vera talinn brjóta í bág við ákvæði samþykktarinnar. En þessar tillögur atvinnurekenda voru felldar, og skýrir það allvel merkingu orðanna „jafnverðmæt störf“ í samþykktinni.

Í 2. gr. segir, að hvert aðildarríki skuli í samræmi við þær aðferðir, sem hafðar séu þar í landi um ákvörðun launataxta, stuðla að því að tryggja það, að svo miklu leyti sem það samrýmist þessum aðferðum, að reglan um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf taki til alls starfsfólks. Í sömu gr. segir, að reglu þessari skuli komið á með þessu móti: a) landslögum eða reglugerðum, b) ráðstöfunum, sem komið sé á eða viðurkenndar séu með lögum til ákvörðunar á launum, e) með heildarsamningum milli vinnuveitenda og verkamanna, eða d) með þessum mismunandi aðferðum sameiginlega.

Í 3. gr. er heimilað, að fram fari óvilhallt mat á störfum, ef talið sé, að slíkt mat greiði fyrir því, að ákvæðum samþykktarinnar fáist framfylgt, en á engan hátt má í mati þessu gera upp á milli kynjanna.

Með þessu, sem nú hefur verið sagt, hefur í rauninni verið gerð grein fyrir meginefni samþykktarinnar. En þá kemur til ákvæða samþykktarinnar um það, hvernig aðildarríkin eigi að vinna að því að koma ákvæðum hennar í framkvæmd.

Í 4. gr. segir svo um það atriði: Eftir því sem við á, skal hvert aðildarríki hafa samvinnu við hlutaðeigandi vinnuveitenda- og verkalýðssamtök með það fyrir augum að koma ákvæðum samþykktirnar í framkvæmd. Formlega fullgildingu skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar, og gengur hún þá, eins og áður segir, í gildi, eftir að fullgildingin hefur verið skráð hjá I.L.O. Það ber að taka fram í tilkynningunni til Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hvort ákvæðum samþykktarinnar verði beitt til fullnustu eða með takmörkunum. Sé um takmarkanir að ræða, ber að gera grein fyrir þeim takmörkunum í einstökum atriðum.

Í 9. gr. eru ákvæði um það, hvenær aðildarríki, sem fullgilt hafa samþykktina, geti sagt henni upp, ef þeim sýnist svo. Uppsögn er heimil að 10 árum liðnum frá fyrstu gildistöku samþykktarinnar. Þó öðlast slík uppsögn ekki gildi, fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi uppsagnar. Sé uppsagnarheimíld þessi ekki notuð innan árs frá lokum 10 ára tímabilsins, framlengist fullgildingin um annað 10 ára tímabil og svo koll af kolli um 10 ára bil í senn. Skylt er framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna allar tilkynningar um fullgildingar aðildarríkjanna á þessari samþykkt. Sú skylda fellur, eins og áður er sagt, á þau aðildarríki, sem fullgilda þessa samþykkt, að þau eru þar með orðin skuldbundin til að stuðla að því, að við hvers konar vinnu séu konum greidd sömu laun og körlum fyrir jafnverðmæt störf, og er þeim skylt að tryggja framkvæmd þessarar reglu, að svo miklu leyti sem unnt er, með tilliti til þeirra aðgerða, sem hafðar eru við ákvörðun launa í hverju einstöku aðildarríki um sig.

Eins og allir vita, er kaup hér á landi almennt ákveðið með samningum milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga eða annarra launþegasamtaka, og hefur ríkisstj. aðeins í undantekningartilfellum bein afskipti af ákvörðun kauptaxta eða launasamninga. Þó getur ríkisstj. á ýmsan hátt stuðlað að því, að komið verði á reglunni um sömu laun kvenna og karla, og fullnægt þannig skyldum þeim, sem samþykktin leggur aðildarríkjum, sem hana hafa fullgilt, á herðar. Ber sérstaklega að hafa það í huga í þessu sambandi, að skyldur ríkisstjórna miðast við þær reglur, sem hér gilda um afskipti ríkisvaldsins af ákvörðun kaupgjalds.

Það er ljóst af skýrslum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, að ríkisstjórnir þeirra ríkja, sem fullgilt hafa samþykktina, fullnægja skyldum sínum samkv. henni á mjög mismunandi hátt. Nokkur ríki hafa látið sér nægja að hvetja samtök atvinnurekenda og launþega til þess að fylgja reglunni um sömu laun til kvenna og karla fyrir sömu störf. Annars staðar hefur að frumkvæði ríkisstjórna verið komið á fót samstarfsnefndum, skipuðum fulltrúum verkalýðssamtaka og atvinnurekenda, til þess að vinna sameiginlega að málinu og koma ýmsu í framkvæmd.

Ég teldi það mjög eðlilegt, að slíkt samstarf yrði reynt hér. En bæri það hins vegar ekki fullnægjandi árangur, væri, hvenær sem mönnum sýndist, hægt að fara þá leiðina að koma launajafnrétti á með lagasetningu, eins og ráð er fyrir gert í 2. gr. samþykktarinnar, sem eina eða fleiri af hugsanlegum leiðum til framkvæmda í málinu.

Kvennasamtökin hér á landi hafa lengi barizt fyrir launajafnrétti, og hin síðari ár hafa þau lagt mikla áherzlu á, að jafnlaunasamþykktin frá 1951 fengi fullgildingu Íslands. Í orði hefur málinu ekki verið illa tekið, en í reyndinni hefur yfirleitt verið tafið fyrir því með málamyndaathugunum, sem aðeins hafa endað í undanbrögðum og í engri framkvæmd.

Ég lét strax í haust búa jafnlaunasamþykktina til þingflutnings og afhenti hana meðráðherrum mínum til athugunar á mannréttindadaginn í haust. Ég hafði nefnilega alltaf álitið þetta mál vera almennt mannréttindamál miklu fremur en kvenréttindamál í þrengri merkingu. Á ríkisráðsfundi, höldnum á Bessastöðum 26. jan. s.l., daginn áður en Kvenréttindafélag Íslands minntist hálfrar aldar afmælis síns, staðfesti forseti Íslands svo tillögu mína um það, að þáltill. sú, sem hér er til umræðu, yrði flutt sem stjórnartillaga á þessu þingi. Ég tel fara vel á því, að Ísland fullgildi jafnlaunasamþykktina einmitt nú á þessum merku tímamótum kvenréttindasamtakanna, en þau hafa þráfaldlega á undanförnum árum krafizt þess af þingi og stjórn, að alþjóðasamþykktin um sömu laun kvenna og karla yrði fullgilt fyrir Íslands hönd. Á því er samt orðinn alllangur dráttur, sem óþarft er að verði miklu lengri en orðinn er. Allt frá árinu 1948 hafði ég flutt frv. til laga um jafnrétti kvenna og karla, þ. á m. um algert launajafnrétti. Þing eftir þing var málið flutt og því vísað til nefndar. Þar lögðust fyrrverandi stjórnarflokkar á málið. Stóðu þeir svo fast gegn því, að meiri hlutinn fékkst aldrei til að gefa út um það nái. Á þinginu 1954 sótti ég það allfast, að framhaldsumræður fengjust um málið og því komið úr nefnd. En það fékkst ekki fremur en áður. En þá fluttu nokkrir þm. úr Sjálfstfl. till. til þál. um að skora á ríkisstj. að rannsaka, hvaða ráðstafanir Ísland þyrfti að gera til þess að geta fullgilt jafnlaunasamþykktina frá 1951. Eftir að þessi till. hafði verið samþykkt, var því alloft borið við, að ótímabært væri að ræða frekar frumvarpið um sömu laun kvenna og karla, þar sem það væri nú i rannsókn hjá ríkisstj., hvað hægt væri að gera í þessum launajafnréttismálum. Var af þessu auðséð, að áðurnefnd till. var í þeim tilgangi flutt að tefja fyrir launajafnréttisfrumvarpinu. En það kom þá út úr rannsókninni, sem framkvæmd skyldi samkv. till. sjálfstæðismanna, auðvitað ekki neitt, enda gat aldrei neitt út úr henni komið. Allir vissu, að þarna var bókstaflega ekkert rannsóknarefni til. Það vantaði þó ekki, að mþn. var skipuð til þessarar rannsóknar, og niðurstaða hennar varð sú að vilja fyrrverandi stjórnar, að jafnlaunasamþykktina væri ekki hægt að fullgilda að óbreyttum lögum. En hins vegar fylgdu nál. þó engar till. til lagabreytinga, svo að fullgilding yrði þá möguleg. Og svo liðu tímar fram. Niðurstaðan: Ekki hægt — var það lokaorð í málinu, sem hvorir tveggja virtust fyllilega sætta sig við, og þannig leit út fyrir, að tekizt hefði varanlega að stinga málinu svefnþorn. En fyrst áhugi meiri hluta þings beindist svo eindregið að nauðsyninni á fullgildingu jafnlaunasamþykktarinnar, er ekki nokkur vafi á því, að einmitt þegar sú leið verður farin, þá hlýtur hún að ná samþykki Alþingis. Það er ekki hugsanlegt, að slík samþykkt verði hér felld, þar sem ríkisstj. Íslands mælti með því við allsherjarþingið, að málið yrði leyst með setningu alþjóðasamþykktar, sem Ísland yrði aðill að.

Á þeim níu árum, sem liðin eru síðan frv. um sömu laun kvenna og karla var flutt í fyrsta sinn, hefur hugmyndinni um launajafnrétti kvenna og karla vaxið mjög fylgi og ýmislegt náðst fram í þessu máli, sem þá hefði átt örðugt uppdráttar. Síðan hafa verið sett launalög — eða endurskoðuð launalög, sem gera ráð fyrir algeru launajafnrétti kynjanna, þó að játa verði, að jafnvel ýmsar ríkisstofnanir leyfa sér að sniðganga og jafnvel þverbrjóta þessi lög í framkvæmd, sem ég tel þeim til lítils sóma. Þá voru á árinu 1954 sett lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og í 7. gr. þeirra laga segir svo:

„Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf“.

Með þessu ákvæði er starfsmönnum ríkisins, konum og körlum, tryggður sami réttur til launa fyrir sömu vinnu. Sams konar reglur í þessu efni gilda, að því er ég bezt veit, einnig almennt hjá bæjarfélögunum. Þá fá konur líka sama kaup og karlar í öllum viðurkenndum iðngreinum, sem þær hafa lokið í námi og prófi. Enn er svo þess að geta, að á tveimur seinustu árum hefur munurinn á kaupi kvenna og karla minnkað allverulega á hinum almenna vinnumarkaði. Einnig hefur það mjög farið í vöxt á síðari árum, að konur fái sama kaup og karlar við ýmis tilgreind störf, einkum þau, sem karlmenn hafa aðallega unnið áður.

Má í því sambandi mínna á svo hljóðandi grein, sem nú er að finna í samningum milli atvinnurekenda og margra verkakvennafélaga. Sú grein er þannig: „Karlmannskaup, kr. 10.17 í grunn, skal greiða konum, sem vinna við flökun á bolfiski, uppskipun og umstöflun á óverkuðum saltfiski, fyrir að kasta fiski á bíl, hengja á fiskhjalla, fyrir hreistrun, uppþvott, blóðhreinsun og spyrðingu á fiski til herzlu, fyrir að laga ofan á síldartunnum, ápökkun og allan frágang á saltaðri síld, vinnu í frystiklefum, við hreingerningar á bátum og húsum, fyrir að sauma utan um óverkaðan saltfisk og fyrir alla aðra viðurkennda karlmannsvinnu, sem konur eru látnar vinna“.

Þetta sýnir, að allmörg störf á hinum almenna vinnumarkaði eru nú þegar greidd sama kaupi, hvort sem þau eru unnin af körlum eða konum. Hitt er öllu torskildara, að atvinnurekendur skuli ekki enn þá hafa fengizt með frjálsum samningum til að greiða konum sama kaup og körlum fyrir hin léttari störf, sem konur vinna fyllilega eins vel og karlmenn og skila eins miklum vinnuafköstum og þeir.

Hér er rétt að geta þess, að eitt verkalýðsfélag hefur náð samningum við atvinnurekendur um að greiða konum sama kaup og körlum í allri vinnu. Hefur sá atvinnurekandi, sem þennan samning gerði, látið það i ljós við mig, að hann teldi röskar stúlkur afkasta jafnmiklu vinnuverðmæti og karlmenn í allri vinnu, sem til falli í hraðfrystihúsum og í fiskiðnaðinum yfirleitt.

Ef Alþingi fellst nú á að fullgilda jafnlaunasamþykktina frá 1951, er Ísland samkv. ákvæðum 2. gr. samþykktarinnar skuldbundið til þess að stuðla að greiðslu sömu launa til kvenna og karla fyrir sömu störf.

Þá vil ég aftur minna á, að samkv. ákvæðum 4. gr. á hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur alþjóðasamþykktina, að beita sér fyrir samvinnu við samtök verkafólks og atvinnurekenda um að koma ákvæðum samþykktarinnar í framkvæmd. Ég tel, að sú aðferð gæti vel átt við hér, sem víða annars staðar hefur verið viðhöfð, að ríkisstj. hafa átt frumkvæði að því að skipa nefndir fulltrúum verkalýðssamtaka og atvinnurekenda til þess að sjá um framkvæmd málsins. Ég tel ekki ólíklegt, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið taki slíku nefndarsamstarfi víð hið opinbera vel og gæti ef til vill leyst málið á frjálsum samningagrundvelli í fullu samkomulagi við fulltrúa ríkisvaldsins.

Ef þetta hins vegar tækist ekki, væri sjálfsagt og í samræmi við fyrri aðgerðir Alþingis, t.d. með setningu launalaganna og laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að kóróna yrði sett á verkið með samþykkt laga um,algert launajafnrétti kvenna og karla hér á landi. Sumarið 1946 gerðist Ísland aðili að Bandalagi hinna sameinuðu þjóða og tók á sig allar skyldur, sem því voru samfara samkv. sáttmála bandalagsins, en í upphafi hans segir svo:

„Vér, hinar sameinuðu þjóðir, staðráðnar í að staðfesta að nýju trú á grundvallarmannréttindi, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti kvenna og karla og allra þjóða, hvort sem eru stórar eða smáar“.

Síðar í sáttmálanum segir:

„Hinar sameinuðu þjóðir skulu ekki setja neinar takmarkanir á val karla og kvenna til þátttöku í hvaða störfum sem er við jöfn skilyrði“ — þ. á m. auðvitað sömu laun fyrir sömu vinnu.

Sams konar ákvæði og þó öllu ákveðnari eru enn fremur í mannréttindaskrá sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur staðfest fyrir sitt leyti.

Með tilliti til alls þessa og einnig hins, að hér á landi er vakandi almennur áhugi fyrir því, að komið verði á algeru jafnrétti kvenna og karla í launamálum, vill ríkisstj. leggja því máli lið með till. um fullgildingu þessarar samþykktar og þeim ráðstöfunum öðrum, sem hún í framhaldi þess telur viðeigandi á hverjum tíma.

Ég leyfi mér að mæla mjög eindregið með fullgildingu þessarar samþykktar.