13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2450)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir þáltill. þess efnis, að Alþingi heimili ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Ég vil láta sérstaka ánægju í ljós yfir því.

Hæstv. félmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að 7 þm. Sjálfstfl. hefðu á árinu 1954 flutt þáltill. þess efnis að skora á ríkisstj. að rannsaka, hvað gera þyrfti, til þess að unnt væri að fullgilda þessa alþjóðasamþykkt.

Þetta er ekki alls kostar rétt, því að þáltill., sem sjálfstæðismennirnir lögðu fram, hljóðaði svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna verði staðfest að því er varðar Ísland. Jafnframt undirbúi ríkisstj. nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykktin komist í framkvæmd“.

Samkv. till. allshn. sameinaðs þings var þáltill. samþykkt 13. apríl sama ár, svo breytt: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæta vinnu geti orðið staðfest á Íslandi“.

Breytingu þessa gerði n. í samræmi við skýrslu félmrn. um þetta mál, sem það hafði sent n., en í skýrslunni segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. samþykktinni sjálfri er ekkert því til fyrirstöðu, að hún sé fullgilt, án þess að ákvæðum hennar sé fullnægt á þeim tíma, er fullgilding fer fram, en þá er hlutaðeigandi ríki skuldbundið til þess að bæta úr því innan árs, frá því er fullgildingin var skráð.

Almennt fylgja þó menningarríki þeirri reglu að koma málum sínum fyrst í það horf, sem hlutaðeigandi samþykkt krefst, og fullgilda síðan samþykktina, enda er það með þeim hætti öruggast, að farið verði eftir samþykktinni og ríkið geti staðið fyllilega við sínar skuldbindingar“.

Hafi þessi háttur verið hafður á, má segja, að hann sé líka í mestu samræmi við 19. gr. auglýsingar frá 1948 um staðfestingu endurskoðaðrar stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Enn fremur sagði í bréfinu, að eðlilegast virtist, ef fyrirhugað væri, að Ísland fullgilti umrædda samþykkt, að fyrst væri grundvallarreglum hennar komið á með samvinnu við hin ýmsu félagssamtök og aðila, sem þar eiga hlut að máli, og samþykktin fyrst fullgilt að því loknu.

Þetta var það, sem réð breytingunni á þáltill. sjálfstæðismanna frá 1954. Og nú, þegar hæstv. ríkisstj. ætlar að fullgilda alþjóðasamþykktina fyrir Íslands hönd, langar mig að fá um það upplýsingar hæstv. félmrh., hvaða undirbúningsráðstafanir hann hafi gert til, að samþykktin geti gilt á Íslandi.

Frsm. allshn., sem afgreiddi málið 1954, hæstv. forseti sameinaðs þings, sem nú er fjarstaddur, kvað þennan undirbúning geta farið fram á tvennan veg. Honum fórust svo orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirbúningurinn getur hugsazt á þann hátt, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að upp verði teknir samningar milli Vinnuveitendasambands Íslands og allsherjarsamtaka vinnandi fólks í landinu um það, að þessir tveir aðilar komi sér saman um málið, og undirbúningurinn getur líka orðið á þann hátt, ef svo vill verkast, að lagasetning um þetta efni verði undirbúin“.

Og við sömu umr. sagði núv. hæstv. félmrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er með annarri hvorri þessari leið, með heildarsamningum milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna eða með lagasetningu á Íslandi, sem þetta mál kemst í höfn, og að öðrum leiðum ekki“ — og þess vegna væri till. sjálfstæðismanna sýndargagn eitt. Enn fremur sagði hæstv. ráðh. þetta: „Málið er ekki komið neitt nær sinni lausn að samþykktri till. heldur en áður, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. annaðhvort tryggi heildarsamninga, sem leysi málið, eða undirbúi lagasetningu um lausn þess“.

Þegar ljósar eru þessar skoðanir hæstv. ráðh., er eðlilegt, að spurt sé, hvaða undirbúningsleiðir hann hafi valið, til þess að fullgildingin á samþykktinni gæti orðið á þeim grundvelli, sem þingið gerði ályktun um 1954, og samþykktin gæti orðið framkvæmd. Hafi undirbúningur orðið með hvorugum þessum hætti, hlýtur skoðun hæstv. ráðh. að hafa breytzt á þessum málum, frá því að andstæðingar hans báru þau fram. Að vísu er ég ekki sammála ummælum hæstv. ráðh., er hann sagði fyrir þrem árum, að slík till. þokaði málinu ekki neitt nær lausninni. Þvert á móti ætla ég, að hún sé fólki aðhald um framkvæmd þessara mála, og mun veita þessari till. fullan stuðning, þótt hún nái ekki lengra. En óneitanlega væri málinu betur borgið, ef skilyrði þessarar samþykktar væru þegar fyrir hendi hér á landi eða ríkisstj. tryggði, að svo yrði innan skamms.