13.02.1957
Sameinað þing: 30. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2453)

100. mál, jöfn laun karla og kvenna

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég fékk að vísu í lok ræðu hv. 2. þm. Eyf. yfirlýsingu hans um það, að hann ætlaði að fylgja þessari samþykkt, en ósköp fannst mér nú lengi fram eftir ræðunni áhugi hans vera lítill fyrir málinu. Það lak af honum ólundin bókstaflega yfir því, að þetta mál skyldi liggja hér fyrir, eins og allir heyrðu og sáu. Og hann hafði allt á hornum sér. Ég hafði ekkert annað gert en við fyrsta tækifæri, sem ég átti þess kost að bera fram jafnlaunasamþykktina frá Genf 1951, að gera það. Og hann, sem hefur staðið að því á Alþ. fyrir nokkrum árum að skora á Alþ. að láta þessa samþykkt einmitt koma til framkvæmda og fá fullgildingu á Íslandi, — ja, hann hefði alveg mátt leggja ólundarsvipinn til hliðar, því það var verið að verða við hans áskorun. Svo, í geðvonzku sinni yfir þessu, talar hann um, að ég einn hafi verið að reyna að slá mér upp á þessu máli. Ég hef ekkert til saka unnið þar annað en að leyfa mér að flytja frv. á Alþingi, sem hv. þm. hefði getað lýst yfir stuðningi við fyrir mörgum árum, ef hann hefði viljað. En hann gerði það aldrei og enginn úr hans flokki, hvorki karl né kona. Og að ég hafi verið að auglýsa þetta! Ég hef auglýst þetta eingöngu með því að halda hér eina framsöguræðu fyrir þessari sjálfsögðu tili., sem sjö sjálfstæðismenn hafa skorað á ríkisstj. Íslands að flytja hér fram.

Hann segir réttilega, að ég hafi á sínum tíma talið það þýðingarlaust, að samþykkt yrði þáltill. sjálfstæðismannanna sjö á Alþingi. Það er alveg rétt. Hver hefur árangurinn af henni orðið? Hefur ekki formaður Sjálfstfl. þó verið forsrh. þangað til fyrir nokkrum mánuðum, stærsti flokkurinn með sjö áhugamenn þarna samstillta? Árangurinn hefur bókstaflega orðið enginn. Áhuginn hefur einhvern veginn dvínað. En var þáltill. sjálfstæðismannanna 1954 till. um að fullgilda jafnlaunasamþykktina? Nei, það var það ekki. Hér liggur núna í fyrsta sinn fyrir Alþ. till. til þál. um, að Ísland fullgildi jafnlaunasamþykktina frá Genf. Og nú er tækifæri til þess að taka afstöðu til hennar, fyrsta tækifærið. Hefur gefizt góður umhugsunartími frá 1954, að áhugamennirnir sjö fluttu sína þáltill., sem var flutt til að sýnast og ekkert annað, — sem reynslan er búin að sýna að var ekki flutt til annars en að sýnast. Og þess vegna er geðvonzka núna eftir allt saman.

Ég benti á það þá, að kostur gæfist á að fara þá leiðina tafarlaust, sem nefnd er í jafnlaunasamþykktinni frá Genf, að fara lagalegu leiðina. Alþ. fékkst ekki til þess að fara þá leið. Þá er að fara þessa leið og stofna síðan til samstarfs ríkisvalds, vinnuveitendasamtaka og verkalýðssamtaka um að koma málinu í höfn með allsherjarsamningum. Það er hin leiðin, sem bent er á. Og það var sú leiðin, sem þá var sérstaklega sagt að væri hin ákjósanlega. Nú skulum við fara hana. Og þá efast ég ekki um, að einmitt eftir að Alþ. hefði kannske einróma fullgilt jafnlaunasamþykktina og tekið þannig afstöðu til málsins, séu allar líkur til þess, að það gangi miklu fljótar að fá vinnuveitendasamtökin í landinu til að „makka“ rétt í málinu. Og það er einmitt þess vegna, sem það hefur þýðingu, að við fullgildum jafnlaunasamþykktina. Það getur flýtt fyrir málinu sannarlega.

Hv. 2. þm. Eyf. viðurkenndi, að það hefði lítið gerzt í málinu síðan 1954. Ja, það er harla lítið, því að það er nefnilega alls ekkert.

Þá vék hann að því til þess að reyna að koma höggi á mig, að það væri ekki búið að koma á launajafnrétti kvenna og karla í gegnum samninga stéttarfélaganna við atvinnurekendur. Það er alveg rétt. Við höfum aðeins mjakazt áfram frá ári til árs á þann veg, að bilið hefur heldur mjókkað milli kaups karla og kvenna með hverjum nýjum samningum, þokað einna skást áfram núna tvö seinustu árin, og erum nú búnir að minnka þetta bil þannig, að við erum komnir nær marki en nokkurt af okkar nágrannalöndum. En andspyrna Vinnuveitendasambandsins hefur verið sterk í þessu máll. Samt eru þeir búnir, eins og ég gat um hér áðan, að ganga það til móts við okkur, að þeir eru búnir að viðurkenna, að þeir skuli greiða karlmannskaup fyrir erfið og óþrifaleg störf, sem konur eru látnar vinna. Það er orðið staðfest og samningsbundið. En hitt er aftur óskiljanlegt, að þar sem konur standa við létt störf, þar sem handflýtis þeirra nýtur við og þær afkasta jafnvel meira en karlmenn mundu gera í þeirra sporum, fást þeir ekki til þess að borga þeim sama kaup, eins og t.d. við vigtun, innpökkun og gegnumlýsingu á fiskflökum í hraðfrystihúsum og margvísleg þess konar störf. Ekki til að tala um. Þar vilja þeir hafa það 25–30% lægra en ef karlmenn stæðu í þessu vinnuplássi og mundu þó áreiðanlega ekki afkasta eins miklu. Það er þessi tregða, sem við þurfum m.a. að yfirvinna, með því að Alþ. og ríkisstj. Íslands á hverjum tíma séu orðin skuldbundin um að vinna að því ásamt verkalýðssamtökum og vinnuveitendasamtökum og öllum öðrum öflum þjóðfélagsins að afmá þetta ranglæti, sem ekki styðst við neitt annað en rótgróinn vana eins og margt annað.

Ásökun hv. 2. þm. Eyf. til mín um það, að ég vilji einn bendla mig við þetta mál, er alröng. Ég gat um það, hver hefði verið fulltrúi Íslands á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar 1950, Jónas Guðmundsson, sem greiddi þar atkv. með því, að gerð yrði alþjóðasamþykkt. Ég gat enn fremur um það, að fors: og félmrh., Steingrímur Steinþórsson, hefði skrifað Alþjóðavinnumálastofnuninni og skuldbundið Ísland um það að verða með slíkri alþjóðasamþykkt. Ég gat meira að segja um hinn sögulega þátt hinna sjö sjálfstæðismanna, og hann má vera þeim til lofs eða lasts. Það var bara sagt frá honum eins og hann var. Ef hann er þeim ekki nægilega lofsamlegur í eftirmælinu, þá er það þeim að kenna, en ekki mér. — Nei, nú er runnin upp sú stund, að það liggur fyrir Alþingi till. til þál. um fullgildingu á jafnlaunasamþykktinni frá Genf, eins og sjö sjálfstæðismenn skoruðu á ríkisstj. á sínum tíma að gera, og þess vegna er engin ástæða til þess að vera hér með ólundarsvip og vera að malda í móinn og tjá sig á allan hátt á móti máli, um leið og því er svo með öðru munnvikinu lýst yfir, að menn ætli að greiða atkv. með því.